fbpx
Mánudagur 03.mars 2025
Fréttir

Brostnar vonir í Almannadal – Engin svör fást við því hvað varð um tugi milljóna króna en fullyrt að staðið hafi verið við allt

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 2. mars 2025 09:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Suðaustan við Rauðavatn er svæði sem heitir Almannadalur og tilheyrir Reykjavíkurborg. Í byrjun aldarinnar ákváðu borgaryfirvöld að gera svæðið að framtíðar hestamannasvæði. Deiliskipulag og aðrar áætlanir gerðu ráð fyrir að þar yrði blómleg og nútímaleg hesthúsabyggð með reiðhöll og ýmsu fleiru. Nokkur fjöldi fólks lagði út í þann kostnað að kaupa byggingarrétt á lóðum á svæðinu og koma upp hesthúsum en nú um tveimur áratugum síðar má segja að væntingar og vonir um það hvernig svæðið átti að vera hafi að töluverðu leyti brostið. Aðeins hluti þeirra sameiginlegu innviða sem áttu að vera á svæðinu hefur orðið að veruleika og enn bólar ekkert á reiðhöll sem alltaf hefur verið gert ráð fyrir að yrði á svæðinu.

Byggt hefur verið á minnihluta lóða á svæðinu og borið hefur á því að hluti húsanna hafi verið notuð til annars en hestamennsku, í sumum tilfellum glæpsamlegrar starfsemi. Eigendur hesthúsa í dalnum eru ósáttir en óánægjan beinist einkum að hestamannafélaginu Fáki sem fékk svæðinu úthlutað frá Reykjavíkurborg og seldi byggingarrétt til eigendanna. Þeir gera fjölmargar athugasemdir við það hvernig Fákur hefur haldið á málefnum svæðisins. Þeir saka félagið um að vanrækja Almannadal og að hafa nýtt tuga milljóna króna hagnað af sölu byggingarréttarins í annað en að byggja svæðið upp eins og þeim hafi verið heitið.

Illa hefur gengið að fá svör um hvað varð um þessa fjármuni og formaður Fáks segir ekki mögulegt að svara því. Hann vísar því alfarið á bug að félagið hafi vanrækt Almannadal, félagið hafi sinnt öllum skyldum sínum á svæðinu og kennir hann þeim sem ekki hafa byggt á lóðum sem þeir hafi keypt byggingarrétt á alfarið um að ekki hafi ræst jafn vel úr svæðinu og væntingar stóðu til í upphafi. Eigendur hesthúsa og aðrir kaupendur byggingarréttar kenna á móti skorti á innviðum, sérstaklega reiðhöll, um. Séu þeir ekki til staðar byggi fólk sér ekki hesthús. Ekki fást svör, frá Reykjavíkurborg og Fáki, við öllum spurningum sem vakna í ljósi þeirra fjölmörgu athugasemda sem gerðar hafa verið við málefni Almannadals.

Hesthúsavæðið í Almannadal er um einn hálfan kílómetra suðaustan við Rauðavatn, um 200 metra frá Suðurlandsvegi, í landi Reykjavíkur.

Árið 2002 tilkynnti Reykjavíkurborg að svæðið yrði gert að framtíðar athafnasvæði hestamanna í Reykjavík til viðbótar við hestamannasvæðið í Víðidal sem er enn í fullri notkun. Þáverandi Skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar gaf það út að um væri að ræða 66 hektara lands, sem væri álíka stórt og svæðið í Víðidal. Gert var ráð fyrir lítilli reiðskemmu til æfinga og sömuleiðis nokkrum hringgerðum og minnst tveimur tamningargerðum. Þar að auki var gert ráð fyrir félagsheimili í tengslum við reiðskemmuna. Reiknað var sömuleiðis með tveimur völlum, gæðinga- og íþróttavelli. Svæðið var síðan deiliskipulagt sem hesthúsasvæði árið 2003. Áætlað var að lóðir á svæðinu myndu rýma hesthús fyrir samtals um 1400 hesta og sá liður deiliskipulagsins er enn í gildi. Raunin varð hins vegar sú að minnihluti þessa rýmis hefur verið nýttur.

Samkvæmt heimildarmönnum DV sem eru vel kunnugir málefnum Almannadals hafa í dag, 22 árum eftir að fyrsta deiliskipulagið fyrir svæðið tók gildi, aðeins verið byggð hesthús í Almannadal fyrir um 300 hross. Uppbygging svæðisins hefur því gengið mun hægar en stefnt var að í upphafi.

Hluti þeirra hesthúsa sem byggð hafa verið í Almannadal. Mynd: DV/KSJ

Gert ráð fyrir reiðskemmu frá upphafi

Heimildarmenn DV segja að skortur á reiðhöll eða reiðskemmu á svæðinu eigi töluverðan þátt í hversu hæg uppbyggingin hefur verið. Í hestamennsku í dag er almennt lögð áhersla á að slík mannvirki verði að vera til staðar á skilgreindum hestmannasvæðum, meðal annars til að hægt sé að hafa aðstöðu fyrir æfingar og keppni innandyra og til að bjóða upp á námskeið til að ýta undir nýliðun. Alveg frá upphafi hesthúsabyggðarinnar í Almannadal hefur verið gert ráð fyrir að byggð yrði reiðskemma eða reiðhöll á svæðinu.

Í deiliskipulaginu frá 2003 var auk reiðskemmu gert ráð fyrir gæðingavelli, vallarhúsi í tengslum við hann, tamningagerði, hringgerði, félagsaðstöðu og beitarhólfi. Sumt af þessu hefur verið byggt upp á endanum en uppbyggingin hefur gengið misvel og mishratt en samkvæmt heimildum DV gremst eigendum hesthúsa í Almannadal það sérstaklega að engin reiðhöll eða reiðskemma skuli enn vera komin. Auk áðurnefndra ástæðna fyrir reiðhöll vísa þeir til kostnaðar og fyrirhafnar við að flytja hesta frá Almannadal yfir í reiðhöllina í Víðidal sem sé næsta mannvirki af þessu tagi, vilji þeir nota slíka aðstöðu.

Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir lóð á deiliskipulagssvæðinu í Almannadal fyrir reiðhöll eða reiðskemmu. Farin var sú leið, fyrir tilstuðlan Fáks, að breyta ákvæðum deiliskipulagsins um slíka byggingu árið 2022. Upphaflega var gert ráð fyrir einni reiðskemmu sem átti að vera 1800 fermetrar en nú er gert ráð fyrir tveimur minni skemmum sem eiga að vera 800 fermetrar hvor um sig en sú breyting hefur engu breytt enn þá. Ekkert bólar á reiðskemmu hvorki einni né tveimur. Samkvæmt heimildum DV var markmiðið með þessari breytingu að hafa aðra skemmuna fyrir hestamenn á svæðinu og almenning en selja lóðina undir hina skemmuna til einkaaðila.

Eigendur hesthúsa í Almannadal hafa lagt allt upp í tugi milljóna króna í uppbyggingu hesthúsa sinna til viðbótar við kostnað við að kaupa byggingarrétt á lóðum í dalnum af hestamannafélaginu Fáki. Samkvæmt heimildum DV telja eigendurnir það forsendu fyrir því að svæðið byggist upp af meiri krafti að þar komi reiðhöll eða reiðskemma. Sumir þeirra eru sagðir hafa beinlínis lagt út í allan þennan kostnað í trausti vilyrða fyrir því að slík aðstaða yrði byggð upp á svæðinu. Munu þessir aðilar telja sig hafa orðið fyrir forsendubresti. Heimildarmenn DV segja að þegar þrýst hafi verið á um það við forystumenn Fáks að beita sér af auknum krafti fyrir því að reiðhöll eða skemma verði byggð á svæðinu sé svarið að of fáir séu með hesta á svæðinu. Hinir ósáttu hesthúsaeigendur og aðrir lóðarhafar vilja hins vegar meina að verði slíkt húsnæði byggt muni það ýta undir að fleiri sækist eftir því að byggja upp hesthús á svæðinu. Samkvæmt heimildarmönnum DV hafi eigendur byggingarréttar á lóðum sem hafa ekki enn lagt út í það að koma sér upp hesthúsum tekið það sérstaklega fram á fundum, hesthúsaeigenda og annarra byggingarréttarhafa, að verði það frágengið að reiðhöll verði byggð muni viðkomandi fara af stað með uppbyggingu síns hesthúss.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá bílastæði í Almannadal sem búið er að leggja og ætlað var fyrir reiðhöll og einnig má sjá auða lóð beint fyrir neðan stæðið en á henni átti að vera reiðhöll.

Mynd: DV/KSJ
Mynd: DV/KSJ
Mynd: DV/KSJ

Öfugsnúin þróun

Nauðsyn reiðhallar eða skemmu fyrir framtíð hestamannasvæðisins í Almannadal hefur verið ítrekuð reglulega við forsvarsmenn Fáks í bæði munnlegu og skriflegu formi. Meðal annars í skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal frá 2021 sem DV hefur undir höndum. Úr skýrslunni má í raun lesa að vegna hægagangsins við uppbygginguna hafi væntingar eigendanna um það sem svæðið átti að verða fyrir hestamenn ekki ræst og í raun brostið.

Meðal afleiðinga þessa hægagangs er að svæðið hefur að hluta til þróast út í að vera allt annað en hesthúsabyggð, sem það á að vera samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Í skýrslunni er því lýst hvernig sum húsin sem byggð hafa verið á svæðinu hafa ekki verið notuð fyrir hesta heldur til útleigu til fólks sem kemur ekkert nálægt hestamennsku. Þetta er í raun mögulegt vegna þess að þegar öll húsin voru byggð höfðu kröfur yfirvalda til hesthúsa breyst í þá átt að þau séu það vel byggð að þau skuli vera íbúðarhæf fyrir mannfólk en húsin eru öll á tveimur hæðum og á efri hæðinni á að vera hægt að búa.

Í skýrslunni er því lýst hvernig ýmis vandamál hafa skapast á svæðinu vegna útleigu á sumum húsana til ógæfufólks sem hefur nýtt þau meðal annars sem geymslur undir þýfi og í vændisstarfsemi. Einnig hafa hús verið leigð út til farandverkamanna. Í skýrslunni segir að margoft hafi þurft að hafa samband við lögreglu, slökkvilið og byggingarfulltrúa. Það sem ýti einnig undir þessa þróun sé hinn sífelldi skortur á leiguhúsnæði sem ríkjandi sé á höfuðborgarsvæðinu sem stuðli að áframhaldandi leigu til þeirra sem ekki séu í hestamennsku.

Í samtölum við heimildarmenn DV kemur skýrt fram að þessi staða hafi lítið breyst síðan skýrslan var gerð. Þeir segja töluverða óánægju til staðar, meðal þeirra sem sannarlega halda hesta á svæðinu, með þessa þróun mála. Ljóst er að þeir sem lögðu út í kostnað við að byggja hús á svæðinu og nota þau í raun og veru fyrir hesta áttu alls ekki von á því að þurfa að vera þar í nágrenni við fólk sem heldur þarna til án þess að koma á nokkurn hátt nálægt hestamennsku og hvað þá fólk sem nýtir hús á svæðinu í glæpsamlegum tilgangi.

Þáttur Fáks

Upphaf þess að óánægjan með hægagang við uppbyggingu Almannadals, þróun mála á svæðinu, sem og fullyrðinga um að fé sem greitt var fyrir byggingarrétt hafi ekki verið notað að neinu ráði í uppbyggingu Almannadals eins og heitið hafi verið, beinist að hestamannafélaginu Fáki má rekja til ársins 2006.

Þá úthlutaði Reykjavíkurborg Fáki byggingarrétti fyrir hesthús í Almannadal. Í bréfi borgarinnar til Fáks frá þessum tíma kemur meðal annars fram að borgin kosti gerð gatna og reiðleiða að lóðamörkum en lóðarhafar annist og kosti framkvæmdir innan lóða og við gæðingavöll. Í bréfinu segir einnig að borgin geri leigusamning við félagið um hverja og eina lóð.

Leigusamningarnir giltu almennt til 50 ára og renna því ekki út fyrr en um miðja þessa öld. Gengið var formlega frá úthlutuninni til Fáks í borgarráði vorið 2006. Félagið réðst þegar í útboð á byggingarrétti en aðeins félagsmenn gátu tekið þátt. Útboðið átti fyrst um sinn að vera í tveimur áföngum og í fyrsta áfanga vorið 2006 var boðinn út byggingarréttur fyrir hesthús sem rúmuðu samtals 444 hesta. Í janúar 2008 voru þau rými sem eftir stóðu boðin út en eins og áður kom fram gerði deiliskipulag svæðisins ráð fyrir um alls um 1400 hestum á svæðinu.

Fáni Fáks blaktir við hún í Almannadal. Mynd: DV/KSJ

Útboðið í fyrsta áfanga fór þannig fram að hægt var að bjóða í byggingarrétt fyrir hesthúsaeiningar í mismunandi stærðum, fyrir 6, 12, 18, 24, 30 eða 42 hesta. Greiða þurfti minnst 636.000 krónur (1.560.858 krónur á verðlagi í janúar 2025) fyrir 6 hesta einingu en mest 4.452.000 (10.926.003 krónur á verðlagi í desember 2024) fyrir 42 hesta einingu.

Í öðrum áfanga útboðsins í janúar 2008 hafði verðið hækkað fyrir allar stærðir hesthúsaeininga en þá var hægt að bjóða í byggingarrétt fyrir rými fyrir 8, 12, 18, 24, 26, 30 eða 42 hesta. Miðaðist byggingarrétturinn þá við hesthúsaeiningu eða heilt hesthús. Minnst þurfti að greiða fyrir 8 hesta 1.232.000 krónur (2.773.003 krónur á verðlagi í janúar 2025) og mest fyrir 42 hesta einingu 6.468.000 krónur (14.558.265 krónur á verðlagi í janúar 2025).

Salan gekk vel

Mismikið var í boði af hverri og einni hesthúsastærð eða hesthúsaeiningu. Vel gekk að selja og aðsóknin var svo mikil að draga þurfti úr umsóknum. Byggingarréttur fyrir allar lóðir sem voru í boði var seldist. Eins og áður kom fram hafa aðeins verið byggð hesthús á lóðunum fyrir um 300 hesta en gert var ráð fyrir rými fyrir um 1400 hesta. Því hefur umfang hesthúsabyggðar á svæðinu í raun orðið innan við helmingur af því sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Það liggur því fyrir að það kostaði hesthúsaeigendur þó nokkra fjármuni að kaupa byggingarrétt. Til viðbótar kom síðan kostnaðurinn við að byggja sjálf hesthúsin. Á þessum fyrsta áratug 21. aldar voru byggingaryfirvöld farin að gera meiri kröfur til hesthúsa en áður. Húsin í Almannadal urðu þess vegna að vera tveggja hæða og með kaffistofu á efri hæð og almennt nægilega góðri aðstöðu til að húsin væru íbúðarhæf fyrir mannfólk. Þessar kröfur hafa síðan átt sinn þátt í því að Almannadalssvæðið þróaðist að hluta til á annan hátt en gert var ráð fyrir í upphafi með búsetu og dvöl fólks í húsunum án þess að viðkomandi komi nálægt hestamennsku. Kröfurnar ýttu síðan óhjákvæmilega undir kostnað við byggingu húsanna og samkvæmt heimildum DV kostaði bygging þeirra stærstu tugi milljóna króna.

Afgangurinn

Samkvæmt skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal og heimildarmönnum DV, hefur gengið brösuglega að fá nákvæmar upplýsingar um hversu mikið fé Fákur fékk í heild sinni fyrir söluna á byggingarréttinum. Í skýrslunni og í samtölum við heimildarmenn DV kemur fram að aðilar sem voru í stjórn Fáks á þeim tíma sem sala byggingarréttarins fór fram hafi upplýst um hversu mikið fé skilaði sér í sjóði félagsins vegna annars áfanga sölunnar, í upphafi árs 2008.

Samkvæmt skýrslunni voru í þessum öðrum áfanga greiddar samtals, á verðlagi þess tíma, 174.876.000 krónur til Fáks fyrir byggingarréttinn. Af þessum fjármunum runnu 118.061.724 krónur til Reykjavíkurborgar í leigu af lóðunum, 4,1 milljónir fóru í að gera hringgerði, tamningagerði og fóðurtunnu og 1 og hálf milljón í lögfræðikostnað við samningagerð. Eftir stóðu 51.199.276 krónur á verðlagi í upphafi árs 2008 í sjóðum Fáks en þessi upphæð nemur 115.240.048 krónum á verðlagi í janúar 2025.

Samkvæmt skýrslunni og heimildarmönnum DV hefur Félag hesthúsaeigenda í Almannadal reynt að afla frekari upplýsinga um í hvað megnið af þessum fjármunum var ráðstafað en án árangurs.

Hvað áttu peningarnir að fara í?

Í skýrslunni og samtölum við heimildarmenn DV er fullyrt að þessum fjármunum hafi að mestu leyti ekki verið ráðstafað í uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu í Almannadal, heldur notað fremur í almennan rekstur Fáks og uppbyggingu á svæðinu í Víðidal. Hesthúsaeigendur í Almannadal töldu sig hafa bæði munnlega og skriflega vissu fyrir því að féð sem þeir inntu af hendi til að kaupa byggingarrétt á lóðunum í dalnum af Fáki, þegar búið yrði að greiða kostnað við söluna, yrði nýtt fyrst og fremst til að kosta uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu á svæðinu.

Þegar kemur að hinni skriflegu fullvissu litu eigendurnir til útboðsskilmála fyrir bæði fyrsta áfanga 2006 og annan áfanga 2008. Þar kemur fram að innifalið í söluverðinu sé meðal annars hlutdeild í stofnkostnaði við 5 hringgerði, 3 tamningagerði, beitarhólf og kerrustæði. Gerður var sá fyrirvari af hálfu Fáks að ef stofnkostnaður við þessa sameiginlegu aðstöðu reyndist hærri en söluverðið myndu byggingarréttarhafar greiða þann kostnað. Í útboðsskilmálum vegna seinni áfangans 2008 var síðan bætt við ákvæði um að byggingarréttarhafar og síðari kaupendur skyldu taka þátt í kostnaði við sameiginlega aðstöðu í Almannadal utan skilgreindra lóða.

Í eignarskiptasamningum, sem innifaldir voru í söluverði byggingarréttar, kom fram hlutdeild hvers lóðarhafa í sameiginlegum svæðum í prósentuhlutfalli af heildarfjölda úthlutaðra hesthúsaplássa á svæðinu.

Samkvæmt heimildum DV líta hesthúsaeigendur í Almannadal almennt svo á að ekki sé hægt annað en að skilja þessi orð í útboðsskilmálum og eignaskiptasamningum öðruvísi en svo að þeir hafi mátt búast við að fjármunir sem greiddir yrðu fyrir byggingarréttinn myndu fara í að greiða fyrir alla uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu í Almannadal, þegar búið væri að greiða allan kostnað við söluna. Heimildarmenn DV fullyrða einnig að forsvarsmenn Fáks hafi á kynningarfundum þar sem salan var kynnt einmitt sagt að allt það fé sem sæti eftir, þegar búið væri að greiða leigu á öllum lóðunum til Reykjavíkurborgar og allan lögfræðikostnað, yrði nýtt að til að byggja upp svæðið.

Hvað var gert og byggt?

Í títtnefndri skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal kemur fram að hluta söluverðsins fyrir byggingarréttinn hafi verið eytt í tamningagerði og hringgerði, auk fóðurtunnu. Í skýrslunni er síðan ítrekað að Fákur hafi byggt þetta en annað á svæðinu hafi félagið ekki séð um að byggja en það hefur einnig komið fram í samtölum við heimildarmenn DV.

Yfirbyggt hringgerði í Almannadal sem Fákur sá um að byggja. Mynd: DV/KSJ.

Uppfylla þarf ákveðið skilyrði til að fá að nota hringgerðið.

Mynd: DV/KSJ

Stærstu kostnaðarliðirnir í hinni sameiginlegu aðstöðu á svæðinu eru án efa hinar ókomnu reiðskemmur og gæðingavöllurinn. Í útboðsskilmálum Fáks frá 2006 og 2008 er ekki minnst beint á reiðskemmu eða gæðingavöll þegur kemur að því sem kaupendur myndu taka þátt í stofnkostnaði við. Tekið er þó fram að útboðsskilmálarnir miðist við deiliskipulagið á svæðinu og þar, eins og tekið var fram í upphafi, hefur alveg frá því að svæðið var gert að hestamannasvæði verið gert ráð fyrir gæðingavelli og fyrst einni reiðskemmu en nú tveimur.

Kaupendur byggingaréttarins töldu því ákvæði deiliskipulagsins ásamt áðurnefndum ákvæðum útboðsskilmála og eignaskiptasamninga og loks orð þáverandi forsvarsmanna Fáks fela í sér að þeir hefðu fullvissu fyrir því að gæðingavöllur og reiðskemma yrði hluti af uppbyggingunni sem ráðist yrði í fyrir það fé sem eftir sæti í sjóðum Fáks þegar sölunni á byggingarréttinum yrði lokið.

Gæðingavöllurinn

Fljótlega í kjölfar þess að seinni áfangi útboðsins fór fram, í upphafi árs 2008 var deiliskipulaginu í Almannadal breytt á þann veg að lóðin undir gæðingavöllinn var færð undir Reykjavíkurborg. Borgin kostaði síðan alfarið uppbyggingu vallarins en heimildarmenn DV segja að markmiðið með þessu hafi verið að létta undir með Fáki og liðka fyrir því að félagið gæti einbeitt sér að öðrum þáttum uppbyggingar á sameiginlegri aðstöðu í Almannadal. Upphaflega var hins vegar gert ráð fyrir af hálfu borgarinnar að lóðarhafar myndu kosta gerð vallarins.

Samkvæmt skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal kostaði gerð gæðingavallarins Reykjavíkurborg um 30 milljónir króna en DV hefur ekki staðfestar upplýsingar um það frá borginni. Heimildarmenn DV segja að þessi tilfærsla hafi litlu sem engu breytt og ekkert hafi bólað á því að þeir fjármunir sem sala byggingarréttar lóðanna í Almannadal skilaði hafi verið nýttir í að byggja frekar upp hina sameiginlega aðstöðu á svæðinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af gæðingavellinum.

Mynd: DV/KSJ
Mynd: DV/KSJ
Mynd: DV/KSJ

Í skýrslunni kemur fram að borgin hafi samhliða yfirtöku á gæðingavellinum tekið yfir allar framkvæmdir á svæðinu og síðan þá staðið fyrir framkvæmdum eins og til að mynda viðhaldi girðinga, lagningu reiðvega og lýsingu á þeim en samkvæmt heimildum DV hefur kostnaðurinn yfirleitt ekki verið mikið meiri en 10 milljónir króna á ári að meðaltali.

Reiðvegur í Almannadal. Mynd: DV/KSJ

Í skýrslunni er lögð áhersla á að borgin hafi sinnt þessum framkvæmdum vel og heimildarmenn DV lýsa yfir ánægju með það hvernig borgin hefur haldið á þeirri uppbyggingu og framkvæmdum sem hún hefur staðið fyrir í Almannadal. Í upphaflegum úthlutunarskilmálum vegna úthlutunar svæðisins til Fáks var þó aðeins vikið almennum orðum að aðkomu Reykjavíkurborgar að framkvæmdum á svæðinu en nánar verður vikið að því síðar.

Ákall eftir reiðhöll

Það bólar hins vegar ekkert á stærri framkvæmdum og eins og hér hefur komið fram þá kalla hesthúsaeigendur í Almannadal einna helst eftir reiðhöll eða að minnsta kosti reiðskemmu. Samkvæmt skýrslunni hefur félagið beitt sér fyrir því að reisa reiðskemmu og í því skyni leitað aðstoðar lögmanns til að finna leiðir til að endurheimta fjármunina úr lóðasölunni til að fjármagna bygginguna.

Vísað er skýrslunni í hugmyndir sem uppi hafi verið hjá Fáki um að selja einkaaðilum lóðir í Almannadal svo þeir geti byggt minni reiðskemmur og leigt til félagsmanna en lögð er áhersla á að rekstur slíkra hús í einkaeigu gangi varla upp vegna sjö til áttfalt hærri fasteignagjalda miðað við venjuleg hesthús. Reiðhöll verði að vera í eigu sveitarfélags eða fá styrki annars sé hún ekki rekstrarhæf. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að hestamannafélag eins og Fákur getur fengið styrki til að greiða fasteignagjöld af reiðhöll frá viðkomandi sveitarfélagi en félagið fær til að mynda styrki frá Reykjavíkurborg til að greiða fasteignagjöld af reiðhöllinni í Víðidal.

Samkvæmt heimildum DV gremst hesthúsaeigendum í Almannadal það enn þá meira að ekkert bóli á reiðskemmu á svæðinu eftir að samþykkt var á síðasta aðalfundi Fáks að félagið beiti sér fyrir því að byggð verði önnur reiðhöll í Víðidal til viðbótar við þá sem er þar nú þegar. Í bréfi félagsins til stjórnar Fáks árið 2015 kemur fram að á fundi milli þessara tveggja aðila hafi forsvarsmenn félagsins lagt áherslu á að aðstaða í Almannadal yrði bætt og gerð yrði gangskör að því að reisa reiðhöll en að undirtektir stjórnar Fáks hafi verið dræmar. Heimildarmenn DV segja að reynt hafi verið að bera upp tillögur á aðalfundum Fáks um að reist yrði reiðhöll í Almannadal en séð hafi verið til þess að þær yrðu felldar.

Hvað hefur Fákur gert til að koma upp reiðhöll eða reiðskemmu?

Þegar rýnt er í fundargerðir funda stjórnar Fáks og aðalfunda félagsins á undanförnum árum má sjá að við og við hafa málefni Almannadals og möguleg bygging reiðskemmu þar skotið upp kollinum. Ýmsar leiðir til að koma byggingunni af stað hafa verið ræddar en ekkert gerst enn.

Á stjórnarfundi í upphafi árs 2017 var það rætt að framkvæmdaleyfi fyrir reiðskemmu í Almannadal væri í vinnslu í borgarkerfinu en því ekkert lýst nánar. Á stjórnarfundi í febrúar 2017 voru fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi Almannadals, um að gert yrði ráð fyrir tveimur reiðskemmum á svæðinu, ræddar og samkvæmt fundargerð hafði Hjörtur Bergstað formaður félagsins og fleiri stjórnarmeðlimir umboð til að leita eftir áhugasömum aðilum til að byggja reiðskemmur á lóðunum.

Í upphafi árs 2018 var rætt um að sú breyting yrði gerð á deiliskipulaginu að lóð í Almannadal, í eigu Fáks, yrði nýtt undir reiðskemmu.

Einnig hefur verið á stjórnarfundum undanfarinna ára verið rætt um hvað félagið skuli gera vegna þeirra lóða í Almannadal sem ekkert hefur verið byggt á. Samkvæmt fundargerðunum hefur meðal annars lagalegur réttur félagsins vegna þessara lóða verið kannaður og einnig verið haft samband við lóðarhafa viðkomandi lóða. Þessar umleitanir virðast ekki hafa dugað til að koma frekari uppbyggingu af stað á úthlutuðum lóðum sem ekkert hefur verið byggt á.

Á aðalfundi 2021 var rætt um mögulegar reiðskemmubyggingar í Almannadal og á stjórnarfundi 2022 var framkvæmdastjóra Fáks falið að kanna hvort nýta mætti hluta fjárveitingar frá Reykjavíkurborg til að undirbúa reiðhallarlóð í dalnum fyrir framkvæmdir við reiðhöll.

Síðan voru að ósk stjórnar Fáks gerðar þær breytingar á deiliskipulagi Almannadals að gera ráð fyrir tveimur minni reiðskemmum í stað einnar stærri og að skipta upp hluta af lóðum í dalnum úr einni í fjórar minni. Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar kemur fram að breytingarnar væru gerðar til að færa skipulagið nær stöðunni á svæðinu eins og hún væri í raun og veru og til að auðvelda bygginngarréttarhöfum að hefja framkvæmdir á lóðum sem þeim hefði verið úthlutað 2008 en ekki enn hafið framkvæmdir á.

Smá hreyfing á uppbyggingu

Gerðar voru athugasemdir við þessar breytingar á deiliskipulaginu af hesthúsaeigendum í dalnum meðal annars á þeim grundvelli að ekkert samráð hefði verið haft um breytingarnar við þá. Einnig að það hlyti að vera vafasamt að heimilt væri að breyta þeim afnotarétti sem Fákur hefði selt þeim svo löngu eftir að sú sala hafi verið frágengin. Sömuleiðis voru gerðar athugasemdir við þær hugmyndir að gera ráð fyrir tveimur minni reiðskemmum í stað einnar stærri og því komið á framfæri að flestir hesthúsaeigendur og lóðarhafar vildu stefna áfram á að hafa eina stærri reiðhöll en ekki tvær minni reiðskemmur.

Þessar athugasemdir báru hins vegar ekki árangur og borgarráð samþykkti breytingarnar. Þær virðast þó hafa breytt frekar litlu en aukinn kraftur færðist ekki þegar í uppbyggingu hesthúsa á svæðinu og ekkert bólar enn á reiðskemmunum.

Undanfarnar vikur hefur þó örlítið meira líf færst í uppbyggingu í Almannadal en samkvæmt heimildum DV er verið að vinna í að klára byggingu hesthúss sem hefur staðið óklárað í mörg ár og á tveimur auðum lóðum eru byggingarréttarhafar farnir að huga að uppbyggingu.

Minnkandi áhugi

Síðan þessar breytingar á deiliskipulaginu voru gerðar hefur lítið verið minnst á Almannadal í fundargerðum stjórnar Fáks en áhugi hennar á svæðinu virðist fara dvínandi. Á stjórnarfundi í febrúar 2023 samþykkti stjórnin að senda formlegt erindi til Reykjavíkurborgar um að fjárveiting í nýframkvæmdir og viðhald í Almannadal yrði færð til svo hægt væri að nýta hana til að byggja reiðskemmu. Á sama fundi samþykkti stjórnin hins vegar að óska eftir því við borgina að hún tæki til baka lóðir sem félaginu var úthlutað í Almannadal. Á stjórnarfundi ári síðar, í mars 2024, kom fram að bréf þessa efnis hefði verið sent en ekki hafi borist nein svör og erindið yrði því ítrekað.

Á aðalfundi Fáks 2024 var samþykkt að byggð yrði ný reiðhöll í Víðidal og að hópur félagsmanna kæmi að fjármögnun hennar en að félagið myndi eiga hana og reka. Hesthúsaeigandi úr Almannadal bar þá upp þá spurningu hvort að svæðið þar væri gleymt og minnti á að engin merki væru þar um að reiðhöll væri væntanleg. Sagði hann hesthúsaeigendur í dalnum óska eftir svörum um framtíðaráætlanir stjórnar Fáks um svæðið. Samkvæmt fundargerð svaraði Hjörtur Bergstað formaður því til að samskonar hugmynd hefði komið fram um byggingu reiðhallar í Almannadal og samþykkt hafði verið varðandi byggingu nýrrar reiðhallar í Víðidal en það hefði ekki gengið enn þá. Margir fundir auk samskipta með tölvupóstum hefðu átt sér stað við Reykjavíkurborg um að koma hverfinu inn í framtíðina. Beiðni lægi fyrir hjá borgarstjóra um mál Almannadals og samninga til að þoka þeim áfram. Stjórnin styddi samskonar hugmyndir um byggingu reiðhallar í Almannadal þ.e. að hópur félagsmanna kæmi að fjármögnun, kæmu slíkar hugmyndir fram.

Það er því ljóst af þessari upptalningu að á vettvangi stjórnar Fáks hafa ýmsar hugmyndir um byggingu reiðskemmu eða reiðhallar í Almannadal verið ræddar á síðustu árum og að minnsta kosti einhverjar þeirra við Reykjavíkurborg. Sömuleiðis hafa verið ræddar leiðir til að koma fleiri lóðum í byggingu og deiliskipulagi breytt að ósk stjórnarinnar til að koma aukinn hreyfingu á uppbygginguna en árangurinn hefur verið takmarkaður.

Framkvæmdir síðustu ára

Þetta hefur ekki sefað óánægju hesthúsaeigenda sem vísa eftir sem áður til þess að fé sem þeir greiddu upphaflega fyrir lóðirnar hafi ekki verið nýtt nema að takmörkuðu leyti í að byggja upp svæðið eins og þeim hafi verið heitið með skriflegum og munnlegum hætti af forsvarsmönnum Fáks.

Óánægjan nær þó ekki eingöngu til þessara þátta heldur einnig afskipta stjórnar Fáks af þeim framkvæmdum sem þó ráðist hefur verið í á svæðinu síðustu ár af hálfu Reykjavíkurborgar.

Helstu framkvæmdir síðustu ára hafa snúist um að setja nýtt yfirborðsefni á gæðingavöllinn, viðhald girðinga og að bæta lýsingu á reiðvegum. Í títtnefndri skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal frá 2021 segir að félagið hafi fengið það í gegn að Reykjavíkurborg myndi sjá alfarið um allar framkvæmdir á svæðinu og semji beint við verktaka en ekkert fjármagn til þeirra myndi fara í gegnum félagið eða Fák. Þetta hafi borgin gert eftir að upplýst hafi verið um að Fákur hefði nýtt fjármagn vegna sölunnar á byggingarrétti lóðanna í uppbyggingu í Víðidal og rekstur Fáks í stað þess að framkvæma það sem félaginu hafi borið að sjá um í Almannadal. Skilyrði fyrir notkun framkvæmdafjárins hafi verið að nýta það eingöngu í uppbyggingu Almannadals og sameiginlegar framkvæmdir þar.

Eins og fram kom hér að ofan tók Reykjavíkurborg að mestu leyti yfir framkvæmdir á svæðinu fljótlega eftir að seinni áfanga útboðs á byggingarréttinum í Almannadal lauk 2008. Árið 2018 fór hins vegar stjórn Fáks sérstaklega fram á við borgina að engar framkvæmdir yrðu ákveðnar framvegis í Almannadal án þess að stjórnin kæmi að því. Í fundargerðum stjórnarinnar kemur fram að formaðurinn Hjörtur Bergstað og fleiri hafi haldið á fund starfsmanna borgarinnar í þessu skyni og lögð hafi verið áhersla á að Fáki hafi verið úthlutað svæðinu.

Fékkst þetta í gegn eftir að Hjörtur fór á fund með starfsmönnum umhverfissviðs borgarinnar ásamt Hrólfi Jónssyni sem hafði þá nýlega látið af störfum sem skrifstofustjóri hjá borginni eftir margra ára starf.

Skortur á samráði

Í skýrslu félags hesthúsaeigenda í Almannadal segir hins vegar að eftir þessa breytingu 2018 hafi verulega skort á samráð af hálfu Fáks varðandi allar framkvæmdir á svæðinu og að með tímanum hafi hægst á þeim. Fákur hafi brotið samkomulag milli félagsins og Reykjavíkurborgar um framkvæmdir á Almannadalssvæðinu. Samkvæmt því hafi verið lofað að allar framkvæmdir á svæðinu yrðu ákveðnar í samráði við húseigendur. Þessar upplýsingar hafi félagið fengið frá framkvæmdasviði borgarinnar.

Í skýrslunni kemur sömuleiðis fram að vorið 2021 hafi samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg stjórn Fáks ekki óskað eftir neinum framkvæmdum á Almannadalssvæðinu. Með því hafi stjórnin hunsað vilja húseigenda og enn fremur hafi hún notað fjármuni sem ætlaðir hafi verið í uppbyggingu innviða í Almannadal í reiðvegagerð utan svæðisins. Í skýrslunni segir að slíkar framkvæmdir eigi að fjármagna með sérstöku reiðvegafé en ekki með fjármunum sem ætlaðir séu til uppbyggingar innan deiliskipulagsreitsins í Almannadal og segir í skýrslunni að þessar upplýsingar hafi fengist frá Reykjavíkurborg.

Segir í skýrslunni að borgin hafi verið upplýst um þetta og um ákvæði lóðarsamninga og útboðssamninga um hvernig ráðstafa bæri þessum fjármunum sem ætlaðir væru til innviðauppbyggingar. Borgin hafi hins vegar haldið að þetta væri vilji lóðarhafa í Almannadal.

Fákur og framkvæmdirnar

Í fundargerðum stjórnar Fáks frá árinu 2019 hefur við og við verið minnst á almennar framkvæmdir í Almannadal en þeim skiptum hefur farið fækkandi. Það ár var auglýst eftir hugmyndum frá félögum í Fáki um „brýnar og hagnýtar framkvæmdir“ í Almannadal.

Samkvæmt fundargerð 2019 bárust nokkur erindi til Fáks. Farið var yfir þær og unnið áfram með þær og þær ræddar á næstu stjórnarfundum. Í september þetta ár var verkefnalisti vegna nýframkvæmda og viðhalds ræddur og í október kom fram að tillögur Fáks um nýframkvæmdir og viðhald í Almannadal sem sendar hefðu verið til Reykjavíkurborgar hefðu verið samþykktar  og væri ráðgert að byrja  á þeim á næstu vikum.

Aftur er minnst á framkvæmdir í Almannadal í fundargerð stjórnar Fáks í ágúst 2022. Þar kemur fram að búið væri að setja saman verkefnalista vegna fjárveitingar í nýframkvæmdir og viðhald í Almannadal og óska eftir fundi með þeim borgarstarfsmönnum sem hefðu með fjárveitinguna að gera.

Heimildarmenn DV segja hins vegar að lítið samráð hafi verið haft við húseigendur í Almannadal um þessar framkvæmdir sem vitnað sé til í fundargerðum stjórnar Fáks og að húseigendur hafi ekki fengið að sjá þá verkefnalista sem minnst sé á. Þeir segja einnig að Fákur hafi beinlínis beitt sér fyrir því að fé frá Reykjavíkurborg sem ætlað hafi verið til framkvæmda í  Almannadal árið 2023 hafi verið sett þess í stað í framkvæmdir í Víðidal vegna Landsmóts hestamanna sem fór þar fram síðastliðið sumar. Þar hafi verið um að ræða um 30 milljónir króna.

Ekki hafi verið samið sérstaklega um í hvað féð ætti að fara

Það er því ljóst að víðtæk óánægja hefur ríkt um langa hríð meðal hesthúsaeigenda í Almannadal og annarra kaupenda að byggingarrétti á lóðum í dalnum og væntingar þeirra um hvernig svæðið ætti að verða hafa að töluverðu leyti brostið. Eins og hér hefur verið rakið beinist óánægjan að fjölda atriða og einna helst að stjórn Fáks sem sökuð hefur verið um að sinna svæðinu lítið og illa og bregðast þannig skyldum sínum gagnvart svæðinu og beina sjónum sínum að mestu leyti að hestamannasvæðinu í Víðidal.

Í skýrslu Félags hesthúsaeigenda í Almannadal og samkvæmt samtölum við heimildarmenn DV þá er talið að þetta sé gert með markvissum hætti til að tryggja framtíð svæðisins í Víðidal fram yfir þann tíma sem að flestir lóðaleigusamningur þar verða runnir út, árið 2045. Sagt er einnig að það hafi heyrst frá starfsmönnum Reykjavíkurborgar að áhugi sé til staðar innan borgarkerfisins fyrir því að Víðidalssvæðið fari alfarið undir íbúðabyggð og að Almannadalur taki við sem helsta hesthúsasvæði borgarinnar.

Til að varpa skýrari ljósi á málefni Almannadals og fá svör við einhverjum af þeim fjölda athugasemda sem settar hafa verið fram um hvernig haldið hefur verið á þessum málum og hafa verið raktar hér sendi DV ítarlegar spurningar í skriflegu formi til bæði Reykjavíkurborgar og Hjartar Bergstað formanns Fáks.

Aðeins fengust þó svör við hluta þeirra spurninga sem DV beindi til Reykjavíkurborgar.

Eins og hér hefur verið rakið töldu kaupendur byggingarréttarins sig hafa skriflega og munnlega fullvissu fyrir því að þeir fjármunir sem skiluðu sér til Fáks vegna sölunnar á byggingarréttinum yrðu að mestu leyti leyti nýttir til að byggja upp sameiginlega innviði á svæðinu, þar á meðal þá sem getið er um í deiliskipulaginu fyrir svæðið eins og til dæmis reiðhöll.

Þeirri spurningu var beint til borgarinnar hvort að allir samningar og skilmálar vegna þeirrar ráðstöfunar að úthluta Fáki byggingarrétti fyrir hesthúsabyggð í Almannadal hafi frá upphafi kveðið á um að félaginu bæri að nýta alla fjármuni sem skiluðu sér til þess, vegna sölu á byggingarrétti á hverri lóð fyrir sig, til uppbyggingar þeirra innviða á svæðinu, sem kveðið er á um í deiliskipulagi, svo sem reiðhöll. Svar borgarinnar var eftirfarandi:

Úthlutunarskilmálarnir gera ekki ráð fyrir að skylda Fák til þess að nýta allan ábata vegna sölu byggingarréttarins til uppbyggingar innviða á svæðinu. Í skilmálum er gert ráð fyrir að lóðarhafar annist og kosti framkvæmdir innan lóða svo og við gæðingavöll. Með lóðarhöfum er átt við þá sem halda á lóðinni á hverjum tíma.

Úthlutunarskilmálarnir

Í þessu svari er væntanlega vísað til úthlutunarskilmála borgarinnar þegar Fáki var úthlutað Almannadal árið 2006. En þar segir eftirfarandi um hvað eigi að vera á svæðinu auk hesthúsanna:

Auk hesthúsanna gerir skipulag ráð fyrir að á svæðinu í Almannadal verði reiðskemma og félagsheimili á lóð nr. 45 við Vegbrekkur, gæðingavöllur með áhorfendasvæði, skeiðbraut ásamt tamningagerði, sameiginlegum hringgerðum og gestagerði við reiðskemmu. Innan skipulagsreitsins er athafnasvæði hestamanna, þ.m.t. beitarhólf í Hólmsheiði. “

 Um hvernig kosta eigi framkvæmdir á svæðinu segir í skilmálunum:

„Reykjavíkurborg kostar gerð gatna og reiðleiða að lóðamörkum, en lóðarhafar annast og kosta framkvæmdir innan lóða, svo og við gæðingavöll (hringvöll). Framkvæmdir Reykjavíkurborgar skulu taka mið af uppbyggingu svæðisins og fjárveitingum hverju sinni, en í úthlutun þessari felast engar ákvarðanir um fjárframlög né tímasetningu þeirra framkvæmda, sem að Reykjavíkurborg snúa.“

Eins og svör borgarinnar bera með sér er hvergi í þessum skilmálum minnst á að Fáki bæri að nýta fé sem fengist fyrir sölu á byggingarréttinum til einstaklinga í að byggja þá innviði sem minnst væri á í deiliskipulaginu og orðalag er frekar almennt um þátttöku borgarinnar í kostnaði við annað en það sem er minnst sérstaklega á.

Minnst er á að lóðarhafar kosti framkvæmdir við gæðingavöllinn en ekkert sagt um hvernig þeir fjármunir yrðu greiddir. Hvort ætlunin hafi verið að lóðarhafarnir myndu greiða þann kostnað einhvern veginn öðruvísi en með kaupum á byggingarrétti er því óljóst.

Samt fór það svo að þrátt fyrir ákvæði úthlutunarskilmálanna, eins og áður hefur verið reifað, var niðurstaðan sú, samkvæmt heimildum DV, að borgin greiddi fyrir gæðingavöllinn. Einnig ber að hafa í huga að vísað var til deiliskipulagsins í úthlutunarskilmálum Fáks en þó aðeins minnst sérstaklega á hluta þeirra innviða sem áttu að vera í Almannadal samkvæmt því skipulagi en kaupendur byggingarréttar litu svo á að ákvæði skilmálanna um þátttöku þeirra í kostnaði við aðstöðu á svæðinu og að vísað væri til deiliskipulagsins þýddu að féð sem þeir myndu borga færi í að byggja upp þá aðstöðu sem deiliskipulagið kvæði á um.

Borgin veit ekki í hvað peningarnir fóru

Þegar kemur að fjármununum sem salan á byggingarréttinum skilaði Fáki og ráðstöfun þeirra spurði DV hvort Reykjavíkurborg hefði upplýsingar um hversu miklir fjármunir sátu eftir hjá Fáki eftir að félagið var búið að leigja lóðirnar í Almannadal af borginni og selja byggingarrétt á þeim á árunum 2006 og 2008 og í hvað þeir fjármunir fóru? Þessari spurningu svaraði borgin neitandi.

Framkvæmdir síðustu ára

DV spurði einnig ýmissa spurninga um þá óánægju sem kraumað hefur meðal lóðarhafa í Almannadal varðandi framkvæmdir á svæðinu sem fjármagnaðar hafa verið af borginni, aðkomu Fáks að þeim og þær athugasemdir sem lóðarhafar hafa gert vegna alls þessa.

Ekki fengust svör við þeirri spurningu hvort það væri rétt að Reykjavíkurborg hafi gert þær breytingar að hún sjái alfarið um allar framkvæmdir í Almannadal og semji um þær við verktaka eftir að hafa verið upplýst um að Fákur hefði nýtt fjármagn vegna sölu á byggingarréttinum í dalnum í uppbyggingu í Víðidal og rekstur Fáks í stað framkvæmda á svæðinu. Í þessu samhengi ber að ítreka að ekki voru upphaflega gerðar kröfur um tiltekna ráðstöfun fjárins  þegar svæðinu var úthlutað til Fáks fyrir rétt tæpum 20 árum.

Spurt var einnig hvort það væri rétt að Fákur hafi brotið samkomulag sem gert var milli félagsins og borgarinnar árið 2018 um að allar framkvæmdir í Almannadal yrðu að vera ákveðnar í samvinnu við húseigendur á svæðinu. Svar borgarinnar var það að samkomulagið hefði gengið út á að Fákur væri í forsvari í Almannadal og legði fram tillögur í samvinnu við alla aðila. Borgin hefði ekki upplýsingar um að það samkomulag hefði verið brotið.

DV spurði frekar út í samkomulagið sem gert var við Fák árið 2018 um framkvæmdir í Almannadal. Eins og fram hefur komið hér fékk stjórn félagsins því framgengt þetta ár, eftir fund með fulltrúum á umhverfissviði þar sem Hrólfur Jónsson sem þá var nýhættur sem stjórnandi hjá borginni var viðstaddur, að allar framkvæmdir í Almannadal yrðu að fara í gegnum Fák áður en leyfi væri gefið fyrir þeim þar sem félaginu hefði verið úthlutað svæðinu. DV spurði borgina hvort þetta væri rétt og ef svo væri hvort þetta verklag sé enn viðhaft. Í fyrirspurninni var bent á að þetta mætti skilja sem svo að félagið þurfi að samþykkja framkvæmdir á svæðinu sem Reykjavíkurborg greiði alfarið fyrir og spurt var hvort það væri rétt. Sömuleiðis var spurt hvort framkvæmdir í Almannadal séu boðnar út eða hvort samið væri sérstaklega um  þær við verktaka og hvort Fákur hafi eitthvað að gera með hvaða verktaka sé samið við. Loks var spurt hvort Fákur hefði eitthvað um það að segja hvaða verktakar taki að sér framkvæmdir í Almannadal, hvort það væri í samræmi við reglur borgarinnar og hvort það væri talið eðlilegt að borgin greiði verktökum, sem utanaðkomandi aðili komi að því velja, fyrir að taka að sér framkvæmdir.

Í svari borgarinnar er því alfarið neitað að Fákur komi að því að ákveða hvaða verktakar taki að sér framkvæmdir í Almannadal sem borgin greiði fyrir:

 Eins og komið hefur fram í fyrri svörum þá var fyrirkomulagið að Fákur yrði í forsvari fyrir alla aðila í Almannadal þ.e. að Fákur kynnti tillögur í samráði við alla aðila til Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg sá alfarið um að bjóða út/semja við verktaka til framkvæmda, Fákur kom ekkert að því hvaða verktakar voru valdir. “

Spurt var einnig um þá athugasemd lóðarhafa í Almannadal að borið hafi á því að stjórn Fáks hafi notað innviðafjármuni, sem ætlaðir voru til framkvæmda innan deiliskipulagsreitsins í dalnum og komið hefðu frá gjöldum sem þeir hefðu greitt, í reiðvegi utan svæðisins í stað þess að það kæmi af reiðvegafé, í trássi við vilja húseigendanna í dalnum og ákvæði lóðar – og útboðssamninga sem þeir hefðu gert við Fák. Svar borgarinnar við því var eftirfarandi:

 „Það voru notaðir að hluta til fjármunir sem voru úthlutaðir fyrir Almannadal til að laga reiðvegi í og við jaðar Almannadalshverfis sem fólust m.a. í að bæta sjónlendir við gatnamót, bæta við lýsingu og laga yfirborð reiðvega sem voru skemmdir. Innviðauppbyggingu samkvæmt deiliskipulagi var lokið og þetta voru einu tillögurnar sem voru bornar upp við Reykjavíkurborg.

Reiðhöll

DV spurði einnig borgina út í skortinn á reiðhöll í Almannadal og um það sem fram kemur í skýrslu Félags hesthúsaeigenda í dalnum um að stjórn Fáks hafi beitt sér gegn því að byggð yrði reiðhöll eða reiðskemma í dalnum, en þær upplýsingar eru sagðar koma frá borginni. Spurt var hvort þetta væri rétt og hvort það væri eitthvað af hálfu borgarinnar sem kæmi í veg fyrir að slík mannvirki yrðu byggð á svæðinu. Við þessari spurningu fengust engin svör.

Sömuleiðis fýsti DV að vita hvort þær upplýsingar séu réttar að Reykjavíkurborg hafi verið búin að úthluta 30 milljónum króna til uppbyggingar í Almannadal 2023 en að það hafi verið afturkallað að beiðni Fáks og þess í stað sett í framkvæmdir í Víðidal, vegna Landsmótsins sem fram fór þar sumarið 2024. Þeirri spurningu var ekki svarað beint:

Engar framkvæmdir voru á vegum framkvæmdasviðs í Almannadal árið 2023 svo við vitum til.

Reykjavíkurborg gat sömuleiðis ekki svarað því hvort það væri rétt að þegar tekin var ákvörðun um að hún myndi byggja gæðingavöllinn í Almannadal í stað Fáks að félagið hafi þá nýtt fjármuni sem sú ráðstöfun sparaði því í almennan rekstur þess og hesthúsasvæðisins í Víðidal.

Hversu mikið?

DV óskaði eftir upplýsingum um hvað Reykjavíkurborg hefur lagt mikla fjármuni í framkvæmdir í Almannadal síðan svæðinu var úthlutað til Fáks 2006 og hversu miklar tekjur hún hefur haft af fasteignagjöldum á svæðinu síðan þá. Í ljósi þess hversu mikið hægar svæðið hefur byggst upp en áætlað var í upphafi liggur beinast við að álykta að tekjur borgarinnar af svæðinu hafi verið minni en búast hafi mátt við. Við þessu fékkst ekkert svar.

Framtíðin

Loks leitaði DV svara hjá Reykjavíkurborg um framtíð hestamannasvæðisins í Almannadal, almennt. Spurt var hvort borgin hafi svarað erindi Fáks um að hún taki til sín lóðir sem félaginu var úthlutað í Almannadal og ef svo væri hvert sé svarið. Borgin segir að það standi ekki til:

Reykjavíkurborg hefur ekki áform um að taka lóðirnar til baka. Hins vegar er í skoðun að fá nýjan B dag fyrir lóðirnar svo hægt sé að gefa út lóðarleigusamninga.

Um svokallaða B daga segir í Almennum lóða- og framkvæmdaskilmálum borgarinnar að slíkir dagar séu byrjunardagur tímafrests. Þar sé þá annað hvort um að ræða dagsetningu lóðaúthlutunar, enda liggi fyrir að lóðin sé byggingarhæf, eða þá, ef lóð er ekki byggingarhæf við úthlutun, dagsetning sérstakrar tilkynningar borgarinnar til lóðarhafa um að lóðin sé orðin byggingarhæf.

DV spurði einnig um hvort innan borgarkerfisins sé horft til Víðidals sem byggingarlands og stefnt á að Almannadalur og önnur hestamannasvæði í nágrenninu taki alfarið við sem helstu hesthúsavæði borgarinnar þegar lóðaleigusamningar í Víðidal verða flestir runnir út árið 2045. Samkvæmt svari borgarinnar hefur enn sem komið er slík stefnubreyting ekki verið gerð.

 Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2040 er landið undir hesthúsalóðirnar í Víðidal og Almannadal skilgreint sem sérhæft íþróttasvæði. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð svæðisins umfram það sem aðalskipulag gerir ráð fyrir.

Víðidalur og Almannadalur

Þegar svæðinu í Almannadal var úthlutað til Fáks 2006 kom fram í umfjöllun fjölmiðla að svæðið væri hugsað sem viðbót við Víðidalssvæðið. Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, sagði þetta sömuleiðis árið 2020 við Morgunblaðið. Það sama ár flutti blaðið fréttir af því að hesthúsaeigendur í Víðidal og stjórn Fáks hefðu þrýst á um það að lóðaleigusamningar á svæðinu yrðu framlengdir og myndu gilda lengur en til 2045 þegar þeir að öllu óbreyttu verða flestir runnir út. Eftir því sem DV kemst næst hefur borgin ekki orðið við því. Hvað það mun þýða  fyrir framtíð hestamennsku í Víðidal og þá um leið í Almannadal er hins vegar óljóst á þessari stundu.

Í fundargerðum aðalfunda Fáks hefur borið á áhyggjum af framtíð hestmannasvæðisins í Víðidal og lögð áhersla á að félagið verði að berjast fyrir framtíð þess. Einnig bar á því í umfjöllun Morgunblaðsins 2020 að lóðarhafar á svæðinu hefðu áhyggjur af því hvað yrði um það ef það fengist ekki í gegn að framlengja lóðarleigusamningana. Það virðist því vera raunverulegur ótti til staðar meðal hestamanna í Víðidal og innan Fáks um að það sé vel mögulegt að það fari svo að hestamennska í dalnum verði aflögð.

Hesthúsaeigendur í Almannadal telja, samkvæmt heimildum DV, þennan ótta um hvað verði um Víðidal eiga sinn þátt í því að stjórn Fáks hafi lagt alla áherslu á síðarnefnda svæðið á kostnað þess fyrrnefnda, með auknum framkvæmdum. Markmiðið sé að tryggja framtíð Víðidals sem hestamannasvæðis eins lengi og mögulegt sé.

Getur ekki svarað í hvað peningarnir fóru

Loks er komið að því að leita svara hjá formanni Fáks, Hirti Bergstað. DV beindi til hans ítarlegum spurningum um helstu athugasemdir og gagnrýnisatriði, um hvernig stjórn félagsins hefur haldið á málefnum Almannadals, sem fram koma í þeim gögnum og upplýsingum sem borist hafa DV.

Fyrsta spurningin sem borin var upp sneri að þeim fjármunum sem sátu eftir í sjóðum Fáks eftir sölu byggingarréttar í Almannadal til hesthúsaeigenda þar á árunum 2006 og 2008 en ítreka ber að Hjörtur var ekki formaður félagsins á þeim tíma. Eins og hér hefur verið rakið voru það rétt yfir 50 milljónir króna á verðlagi í byrjun árs 2008 en væri á verðlagi í lok árs 2024 um 115 milljónir króna. Hjörtur var spurður í hvað þessir fjármunir voru notaðir og hvort þeir hefðu farið í almennan rekstur Fáks og uppbyggingu í Víðidal. Óskað var eftir sundurliðuðu svari þar sem kæmi skýrt fram í hvað þessum fjármunum var varið, á hverju ári síðan sölunni var lokið. Enn fremur var spurt hvort Fákur hefði samþykki Reykjavíkurborgar til að ráðstafa þessum fjármunum með þeim hætti sem gert var og óskað var eftir að slíku samþykki yrði framvísað hafi það verið gefið í skriflegu formi.

Hjörtur segir að ekki sé hægt að svara því í hvað þessir peningar voru notaðir og vísar þar til hversu langur tími er liðinn síðan sölunni á byggingaréttinum var lokið:

„Það er langt um liðið og þar sem geymsluskylda bókhaldsgagna er 7 ár eru þessi gögn ekki lengur til í fórum félagsins. Enginn af núverandi stjórnarmönnum var í stjórn félagsins á þeim tíma sem þessar úthlutanir fóru fram.“

Hann vitnar einnig í svari sínu í úthlutunarskilmála Fáks og af svarinu virðist ljóst að hann og stjórn félagsins líti þá ekki sömu augum og hinir óánægðu lóðarhafar í Almannadal. Hann segir skilmálana ekki hafa lagt þá skyldu á félagið að annast bókstaflega alla uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu í Almannadal. Félagið hafi lagt töluvert hins vegar af mörkum við að byggja upp svæðið og sé langt komið með að uppfylla allar skyldur sínar í málefnum Almannadals.

„Í skilmálum úthlutunarinnar er eftirfarandi innifalið í sölu byggingarrétta:

„Gerð eignaskiptayfirlýsingar, gerð kaupsamnings og afsals, gerð húsreglna og samþykkta ef því er að skipta, auk hlutdeildar í stofnkostnaði við 5 hringgerði, 3 tamningagerði, beitarhólf og kerrustæði í borgarlandinu, sem hesthúsaeigendur og Fjárborg hafa afnot af, enda greiða hesthúsaeigendur á svæðinu allan stofn og rekstrarkostnað. Gerður er fyrirvari af hálfu Fáks ef stofnkostnaður reynist hærri við þessa sameiginlegu aðstöðu í borgarlandinu og munu byggingarétthafar þá greiða þann kostnað.““

„Hér er sérstaklega kveðið á um að um er að ræða hlutdeild í stofnkostnaði en ekki allan kostnað við uppbygginguna. Fákur hefur sannanlega lagt fram stofnfé í aðstöðu á félagssvæðinu. Á svæðinu eru þegar 4 hringgerði, þar af eitt yfirbyggt, 2 stór tamningagerði og kerrusvæði. Hafa ber í huga að einungis eru risin 10 hús af þeim 43 sem var úthlutað. Félagið er því langt komið með að uppfylla skuldbindingar sínar þrátt fyrir að einungis tæplega 25% húsanna hafi risið og ríflega 75% þeirra sem fengu úthlutað byggingarétti hafi ekki staðið við sinn hluta skilmálanna um að byggja húsin sem þeir fengu byggingarrétt til að reisa.“

Hvað varðar samþykki Reykjavíkurborgar fyrir ráðstöfunina á fjármununum vísar Hjörtur í að ekki hafi verið þörf á því en það er í samræmi við svör borgarinnar um að slíks samþykkis hafi ekki verið krafist af hennar hálfu:

„Fákur þurfti ekki samþykki Reykjavíkurborgar til ráðstöfunar á þessum fjármunum þar sem engar kvaðir voru þar um utan þess sem kemur fram hér að ofan í skilmálum. Aðalfundur Fáks er æðsta ákvörðunarvald félagsins er varðar ráðstöfun fjármuna.“

Notkun afgangsins

Eins og hér hefur komið fram var, samkvæmt heimildum DV það kynnt af forsvarsmönnum Fáks fyrir kaupendum byggingarréttarins í Almannadal að afgangurinn af sölunni yrði notaður í að byggja upp sameiginlega innviði á svæðinu, til að mynda reiðhöll. Í útboðsskilmálum Fáks kom fram að innifalið í söluverðinu væri hlutdeild í stofnkostnaði við hringgerði og fleira. Einnig kom fram að reyndist stofnkostnaðurinn hærri en söluverðið myndu byggingarréttarhafar greiða þann kostnað. Sömuleiðis var tekið fram í útboðsskilmálunum að byggingarréttarhafar og síðari kaupendur skyldu taka þátt í kostnaði við sameiginlega aðstöðu í Almannadal utan skilgreindra lóða.

Jafn framt var í eignaskiptasamningum sem Fákur gerði við kaupendur tilgreindur hlutur hvers og eins í kostnaði við gerð sameiginlegrar aðstöðu. Eins og hér hefur verið reifað töldu kaupendur byggingarréttarins í Almannadal sig í ljósi alls þessa hafa bæði munnlega og skriflega fullvissu frá Fáki um að fjármagnið sem þeir væru að greiða félaginu fyrir byggingarréttinn yrði nýtt í uppbyggingu á sameiginlegri aðstöðu.

Hjörtur var spurður hvort það væri rétt að kaupendunum hafi verið kynnt með þessum hætti munnlega að þessir fjármunir yrðu nýttir til uppbyggingar sameiginlegrar aðstöðu í Almannadal og hvernig stjórn félagsins skýrði þetta misræmi á milli efnda á þessari uppbyggingu og þessara ákvæða útboðsskilmála og eignaskiptasamninga.

Hjörtur svaraði ekki þeim lið spurningarinnar sem sneri að hinni munnlegu kynningu en beindi svari sínu einkum að væntingum um byggingu reiðhallar í Almannadal og vísaði að öðru leyti til svars síns við fyrstu spurningu DV:

„Engar kvaðir voru á Fáki um byggingu reiðhallar á svæðinu. Hins vegar er það stefna félagsins að koma upp inniaðstöðu til æfinga eftir því sem svæðið byggist upp. Sjá að öðru leyti svar að ofan varðandi uppbyggingu innviða.“

Hafi ekki verið notað í Víðidal

Þegar kemur að byggingu annars af öðru af því kostnaðarsamasta við þá aðstöðu sem deiliskipulag Almannadals kveður á um, fyrir utan reiðhöll, gæðingavöllinn var Hjörtur spurður hvort það væri rétt að þegar tekin var ákvörðun um að Reykjavíkurborg tæki að sér að byggja hann í stað Fáks hafi félagið nýtt þá fjármuni sem sú ráðstöfun sparaði því í rekstur þess og hesthúsasvæðisins í Víðidal. Hann neitaði því að það væri rétt.

Eins og hér hefur komið fram var, samkvæmt heimildum DV, gæðingavöllurinn byggður fljótlega eftir að sölunni á byggingarréttinum lauk. Það virðist því einhver vitneskja vera til staðar um hvað þeir fjármunir sem það sparaði félaginu að borgin tæki að sér að byggja hann voru að minnsta kosti ekki nýttir í, þó þetta langt sé um liðið.

Engar skyldur hafi verið vanræktar

Hjörtur var því næst spurður hvernig stjórn Fáks svaraði þeim gagnrýnisröddum að félagið hafi vanrækt skyldur sínar og fyrirheit um að sinna uppbyggingu mannvirkja og innviða í Almannadal en lagt alla áherslu á Víðidal:

„Félagið telur sig ekki hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart uppbyggingu mannvirkja og innviða í Almannadal.“

Að öðru leyti vísaði hann í fyrri svör um uppbyggingu innviða í dalnum. Það sama gerði hann þegar kom að þeirri spurningu hvort Fákur hefði staðið við allt sem kynnt var um framkvæmdir á Almannadalssvæðinu fyrir þeim sem keyptu byggingarrétt á lóðunum á svæðinu af félaginu og við allt sem kom fram í útboðsskilmálum og eignaskiptasamningum og þá hvernig  félagið hefði staðið við þetta allt.

Eins og hér hefur komið fram hefur DV heimildir fyrir því að fjöldi þeirra sem lagt hefur í þann kostnað sem fylgir því að koma sér upp hesthúsi í Almannadal telji sig hafa orðið fyrir forsendubresti þar sem þeir hafi farið út í þetta í trausti þess að komið yrði upp þeim innviðum og þeirri aðstöðu á svæðinu sem kynnt hafi verið af forsvarsmönnum Fáks og minnst var á í útboðsskilmálum og eignaskiptasamningum, en ekki hafi verið staðið við það sem þeim var sagt að yrði gert, meðal annars að koma upp reiðhöll.  Hjörtur var spurður hvernig stjórn Fáks svaraði þessum óánægjuröddum og hvort hún hefði skilning á þessum sjónarmiðum. Hann ítrekaði fyrri svör sín:

„Stjórn hefur uppfyllt þær skyldur sem er að finna í útboðsskilmálum um kaup á byggingarrétti í Almannadal. Sjá svar hér að ofan.“

Ábyrgðin sé þeirra sem hafi ekki byggt

Hjörtur vísar ábyrgðinni á því hversu hægt hefur gengið að byggja upp þann fjölda hesthúsa í hverfinu sem lagt var upp með í upphafi alfarið á hendur byggingarréttarhafa sem hafi ekki byggt neitt á sínum lóðum. Hann var spurður hvernig Fákur skýri þann áralanga hægagang sem orðið hefur á uppbyggingu hesthúsa í Almannadal og hvort stjórn félagsins telji tafir á uppbyggingu innviða, meðal annars reiðhallar, hafa ekkert með það að gera:

„Byggingarréttarhafar hafa ekki staðið við þá uppbyggingu sem þeir undirgengust með samningum um kaup á byggingarrétti. Félagið hefur engin tök á að framfylgja þeim úrræðum sem er að finna í byggingarskilmálum gagnvart byggingarréttarhöfum. Engar tafir hafa orðið á uppbyggingu innviða, sjá svar hér að ofan.“

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá hluta af þeim lóðum í Almannadal sem byggingarréttur hefur verið seldur á en ekkert enn verið byggt á.

Mynd: DV/KSJ
Mynd: DV/KSJ

Samráð hafi víst verið haft

Þegar kemur að framkvæmdum síðustu ára vill Hjörtur ólíkt hesthúsaeigendum í Almannadal meina að samráð hafi verið haft við þá. Hann var spurður hvort Fákur hafi staðið við samkomulagið sem gert var milli félagsins og Reykjavíkurborgar árið 2018 um að allar framkvæmdir í Almannadal yrðu ákveðnar í samvinnu við húseigendur á svæðinu:

„Samráð hefur verið haft við stjórn húsfélagsins í Almannadal og auglýst hefur verið á heimasíðu Fáks eftir tillögum.“

Hjörtur neitar því einnig að stjórn Fáks hafi notað innviðafjármuni, sem ætlaðir voru til framkvæmda innan deiliskipulagsreitsins í Almannadal og komu ekki síst frá gjöldum sem húseigendur í dalnum hafa greitt, í reiðvegi utan svæðisins í trássi við vilja þeirra og ákvæði lóðasamninga og útboðssamninga sem þeir hafa gert við Fák.

Hann var einnig spurður um verkefnalista vegna framkvæmda og viðhalds í Almannadal sem oft hefur verið minnst á í fundargerðum stjórnar Fáks en samkvæmt heimildum DV kannast húseigendur á svæðinu ekki við að hafa fengið að sjá þessa lista. Hjörtur var spurður hvaða viðhalds- og framkvæmdaverkefnum í Almannadal Fákur hafi beitt sér fyrir frá árinu 2018. Í hver þeirra hafi verið ráðist og hvernig húseigendum í Almannadal hafi verið haldið upplýstum um það:

„Frá árinu 2018 hefur verið farið í viðhald á öllum reiðvegum innan hverfisins, bætt hefur verið við reiðgötulýsingu, sett hefur verið upp öryggisgirðing á reiðveg við Vegbrekkur, skipt var um yfirlag á keppnisvelli, gerður var nýr reiðvegur um svokallaðan línuveg auk þess sem öryggismál á reiðvegum hafa víða verið bætt eins og gatnamót reiðvegar og vegarins um Vegbrekkur.“

Hjörtur neitar jafn framt því að Fákur hafi farið fram á það við Reykjavíkurborg að fé sem ætlað var í framkvæmdir í Almannadal yrði nýtt til framkvæmda í Víðidal vegna Landsmótsins síðastliðið sumar.

Reiðhöllin sem aldrei hefur komið

Hjörtur var einnig spurður um þær ýmsu leiðir sem nefndar hafa varið í fundargerðum stjórnar Fáks á síðustu árum til að félagið geti beitt sér fyrir því að reiðhöll verði byggð í Almannadal. Spurt var hvað félagið hafi gert til að liðka fyrir því að slíkt mannvirki yrði að veruleika. Hvort það væri stefna félagsins að beita sér einkum fyrir því að einkaaðilar taki slíka framkvæmd að sér og ef svo væri hvort það skyti ekki skökku við í ljósi þess að slíkir aðilar yrðu að greiða hærri fasteignagjöld og því yrði rekstur slíkrar hallar, þeim mun kostnaðarsamari. Spurt var jafn framt hvort það væri hugmynd stjórnar Fáks að beita sér fyrir því að einkaaðilar reisi og reki reiðhöll í Almannadal til að hún myndi síður skapa samkeppni við reiðhöllina í Víðidal og þá nýju reiðhöll þar sem Fákur hefur beitt sér fyrir að verði reist.

Ekki fengust svör nema við hluta þessara spurninga:

„Það er stefna stjórnar Fáks að bæta æfingaaðstöðu iðkenda innandyra. Félagið hefur meðal annars gert breytingar á deiliskipulagi svæðisins og sett inn tvær minni lóðir fyrir reiðhallir. Hafi einkaaðilar áhuga á að byggja upp reiðhöll sem er félagsmönnum opin stendur félagið ekki í vegi fyrir slíkri uppbyggingu.“

Hjörtur vill ekki meina það að stjórn Fáks telji mikilvægara að koma upp annarri reiðhöll í Víðidal en fyrstu reiðhöllinni í Almannadal:

„Stjórn Fáks hefur í stefnu sinni að bæta aðstöðu félagsmanna hvort sem það er í Víðidal eða í Almannadal.“

Enn af framtíðinni

Að lokum var Hjörtur spurður um framtíðarsýn Fáks á bæði svæðin í Almannadal og Víðidal. Spurt var hvers vegna stjórn Fáks hefði óskað eftir því við Reykjavíkurborg að hún tæki til baka þær lóðir í Almannadal sem félaginu var úthlutað á sínum tíma. Sömuleiðis var spurt hvort stjórn Fáks hafi gefist upp á að efla uppbyggingu í Almannadal og hvort það væri markmið hennar að einblína alfarið á uppbyggingu svæðisins í Víðidal.

Hjörtur kaus að svara þessum spurningum ekki nema að hluta til og vísaði til áðurnefnds svars um úrræði félagsins gagnvart byggingarréttarhöfum sem hafa ekki byggt sín hús. Túlka má líklega þetta svar sem svo að það sé helsta ástæðan að baki þessari ósk.

Loks spurði DV Hjört hvort það væri stefna stjórnar Fáks að berjast fyrir því að hesthúsabyggð verði í Víðidal eins lengi og mögulegt er, fram yfir árið 2045 þegar leigusamningar þar verða almennt runnir út. Svar hans var stutt og laggott:

„Já.“

Það sem eftir stendur

Það er því ljóst af svörum formanns Fáks að hann og eigendur hesthúsa í Almannadal líta málefni svæðisins afar ólíkum augum. Sá fyrrnefndi hafnar því alfarið að félagið hafi brugðist skyldum sínum og segir það hafa staðið við allt sem því bar að gera en það taka hinir síðarnefndu alls ekki undir.

Eins og hér hefur verið rakið eru athugasemdirnar sem gerðar hafa verið við stöðuna svo margar að fjöldi spurninga vaknar og aðeins fást svör við hluta þeirra. Eftir stendur að svæðið hefur ekki orðið að því sem væntingar og vonir bæði hestamanna og Reykjavíkurborgar stóðu til þegar ákveðið var að þar skyldi verða hestamannasvæði. Enn vantar reiðhöll eða reiðskemmu, mun færri hesthús eru þar en gert var ráð fyrir og að hluta er svæðið orðið að allt öðru en svæði fyrir hestamenn. Háar upphæðir sátu eftir í sjóðum Fáks þegar sölu á byggingarrétti á lóðum í Almannadal lauk en langt er um liðið og engin svör fást við því í hvað þessir fjármunir voru notaðir. Ljóst er þó að kaupendur gerðu ekki ráð fyrir öðru en að svæðið yrði byggt upp fyrir þetta fé en telja það blasa við að féð hafi verið nýtt í allt annað en þeim hafi verið heitið. Þegar engin svör fást við því í hvað nákvæmlega þessir fjármunir fóru er ólíklegt að þessar óánægjuraddir þagni í bráð.

Hestarnir í Almannadal láta sér líklega fátt um deilur manna um svæðið finnast. Mynd: DV/KSJ
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Forsetaframbjóðanda skipað að rífa bílskýli sem reist var í leyfisleysi – Slagur um dagsektir við borgina

Forsetaframbjóðanda skipað að rífa bílskýli sem reist var í leyfisleysi – Slagur um dagsektir við borgina
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gagnrýnir formannsframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins – „Er í lagi að bjóða upp á svona þvaður á alvörutímum í sögu Evrópu?“

Gagnrýnir formannsframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins – „Er í lagi að bjóða upp á svona þvaður á alvörutímum í sögu Evrópu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife