Hvort lestu blaðið áfram eða aftur á bak? Hvar á að auglýsa, á blaðsíðu þrjú eða á öftustu blaðsíðu? Hvort á auglýsing að vera 30 sekúndur, tíu eða tvær? Beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum eða söngvakeppni snerta við þjóðarsálinni – fólk kemur saman og horfir. Allt þetta skiptir máli fyrir auglýsendur. Það er hlutverk auglýsingastofa að svara öllum þessum spurningum. Anna Kristín Kristjánsdóttir, formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa (SÍA), er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Anna Kristin Kristjansdottir - 3
„Tökum bara svona beinar útsendingar eins og íþróttaviðburði, áramótaskaup, söngvakeppni og svoleiðis. Þetta virkar vegna þess að þetta snertir við þjóðarsálinni; þar sem fólk kemur saman fyrir framan sjónvarpið. Þarna ertu að ná fólki í ákveðnu hugarástandi líka …“
Og þú ert að ná kannski markhópum sem alla jafna eru ekkert að setjast fyrir framan sjónvarpið að horfa á línulega dagskrá, en gera það þarna.
„Gera það þarna, þess vegna í gegnum símann. Það er alveg sama á hvaða aldri þú ert, þú bara notar þitt tæki, það sem hentar þér best, en þið eruð að nálgast sama hlutinn. Sama er það með aðra miðla eins og tímarit eða prentmiðla – það er ákveðinn hópur sem notar þessa miðla og okkar starf er að þekkja þann hóp vegna þess að við megum ekki bara útiloka hann af því að hann notar enn prentmiðil. Svo eru margir sem blanda þessu öllu saman. Ég man eftir þessum fræðum: Hvort lestu blaðið áfram eða aftur á bak? Hvort á maður að auglýsa á blaðsíðu þrjú eða á öftustu blaðsíðunni? Við erum alltaf að skoða þetta; hvort á auglýsing að vera 30 sekúndur, tíu sekúndur eða bara tvær sekúndur? Eigum við að nota Tik-tok eða þetta eða þetta eða þetta? Þetta er bara samtalið í hvert einasta skipti,“ segir Anna Kristín.
Hún segir skipta máli að átta sig á því við hvern maður er að tala hverju sinni. Hvað þarf hann að heyra, hvernig þarf hann að heyra það eða sjá það, eða finna það? „Þetta er okkar starf – að finna út úr þessu.“
Auglýsingar hafa verið að fara dálítið mikið inn á samfélagsmiðlana. Það þýðir í raun og veru að þeir peningar sem eru settir þangað, þeir fara út úr þessari íslensku hringrás …
„Já, þetta er þróun og ég held að íslenskir auglýsingamiðlar, vefmiðlar, þeir hafa nú verið að koma sterkir inn. en þessir samfélagsmiðlar sem bara sjúga þetta frá, auðvitað höfum við haft áhyggjur af því. Við höfum reynt að sporna við því, en meðan fólkið er þarna og þetta er þeirra íverustaður og eina leiðin til að nálgast, þá er okkur nauðugur einn kostur þannig að við sannarlega notum þetta.“
Anna Kristín bendir á að ekki sé auglýsingakerfi fyrir Ísland inni á Tik-tok. Fyrir kosningar hafi pólitíkusar verið að gera mikið inni á Tik-tok en ekkert verið að borga til Tik-tok fyrir birtinguna. Allt hafi verið gert í gegnum aðganga. Það er samt búið að eyða fullt af peningum í að búa þetta til.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.