Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið hefur sent frá sér.
Þar kemur fram að félagið telji tilefni til að árétta það sérstaklega að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins í þágu almennings.
„Nefndin hefur ekki eftirlit með fjölmiðlum og það er ekki hlutverk hennar að hafa skoðun á efnistökum þeirra. Hins vegar á nefndin að gæta að því að handhafar framkvæmdarvalds, þ.m.t. lögregla, haldi sig innan marka stjórnarskrárinnar. Eins og Blaðamannafélagið hefur bent á leikur verulegur vafi á því að það hafi lögregla gert í þessu máli. Félagið telur því fulla ástæðu til að þessi þáttur málsins sæti athugun nefndarinnar í samræmi við það hlutverk sem hún fer með samkvæmt lögum,“ segir í tilkynningunni.
Þá er vísað í viðtal við Vilhjálm Árnason, formann nefndarinnar, á Bylgjunni síðastliðinn föstudag þar sem hann sagði að meðal þess sem fram hefði komið í erindi til nefndarinnar væri ósk um að hún skoðaði hvort vinnubrögð blaðamanna í málinu teldust brotleg gegn almennum hegningarlögum og siðareglum blaðamanna.
„Af þessu tilefni ítrekar Blaðamannafélagið að eftirlit með slíkum reglum heyrir á engan hátt undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis auk þess sem hlutaðeigandi blaðamenn eru ekki opinberir starfsmenn og eiga ekki að þurfa að sitja undir því, frekar en aðrir einkaaðilar, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjalli um störf þeirra. Öðru máli gegnir um handhafa lögreglu- og ákæruvalds sem fara með opinbert vald og lúta eftirliti nefndarinnar.“
Í tilkynningu Blaðamannafélagsins kemur fram að það liggi fyrir að umfjölllun um framferði starfsfólks Samherja, Skæruliðamálið svokallaða, hafi byggst á byggðist á og lútið að samskiptum sem blaðamenn höfðu aðgang að. Í umfjölluninni hafi komið fram að starfsfólk Samherja hefði lagt á ráðin um að grafa undan trúverðugleika blaðamanna sem fjölluðu með gagnrýnum hætti um fyrirtækið. Markmiðið með því virðist hafa verið að draga úr áhrifum þeirrar umfjöllunar og leiða athygli frá henni.
„Eins og kunnugt er ákvað lögregla að hefja rannsókn á þeim sex blaðamönnum sem töldust tengjast umfjölluninni með einum eða öðrum hætti. Sú rannsókn var tilhæfulaus með öllu og beindist að þeirri háttsemi blaðamanna að taka við upplýsingum frá heimildarmönnum um samfélagslega mikilvæg málefni og miðla þeim til almennings með ábyrgum hætti. Líkt og Blaðamannafélagið hefur margítrekað bent á felst ekki refsiverð háttsemi blaðamanna í því, heldur þvert á móti stjórnarskrárvarin frumskylda blaðamanna í lýðræðislegu þjóðfélagi.“
Blaðamannafélagið bendir á að þótt lögreglurannsókninni hafi lokið með niðurfellingu hafi áhrif hennar verið þau að draga athygli frá því sem blaðamennirnir fjölluðu um – alvarlegar ávirðingar um spillingu stórfyrirtækis og tilraunir þess til að stjórna opinberri umræðu um þær ávirðingar – og beina henni að blaðamönnunum sjálfum.
„Rannsóknin hafði því sömu áhrif og Skæruliðadeildin stefndi að. Því miður getur Blaðamannafélagið ekki annað séð en að ummæli formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í fjölmiðlum undanfarna daga stefni að sama markmiði – að gera blaðamenn sem fjallað hafa um samfélagslega mikilvæg mál tortryggilega og draga úr trúverðugleika umfjöllunar þeirra.“
Þá er rifjað upp í tilkynningu félagsins að Blaðamannafélagið hafi gagnrýnt lögreglurannsóknina á þeim grundvelli að í henni hafi falist óréttmætt inngrip í tjáningarfrelsi hlutaðeigandi blaðamanna. Undir þessa gagnrýni hafi verið tekið á alþjóðlegum vettvangi og framganga lögreglu verið meðal þeirra atriða sem horft hefur verið til í störfum alþjóðlegra samtaka blaðamanna við mat á tjáningarfrelsi og starfsskilyrðum blaðamanna hér á landi.
„Fyrir liggur að staða Íslands í alþjóðlegum samanburði hefur farið versnandi að þessu leyti undanfarin ár. Nú er svo komið að Ísland eitt Norðurlanda er ekki meðal þeirra ríkja þar sem tjáningarfrelsi blaðamanna er talið tryggt með fullnægjandi hætti. Sker Ísland sig verulega frá öðrum Norðurlöndum að þessu leyti. Sem stendur er Íslandi raðað í 18. sæti á lista samtakanna Blaðamenn án landamæra yfir þau ríki þar sem tjáningarfrelsi blaðamanna er best tryggt. Önnur Norðurlönd skipa ásamt Hollandi 1-.5. sæti listans.“
Að mati Blaðamannafélags Íslands liggur leiðin til þess að snúa þessari þróun við ekki í gegnum rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á störfum einstakra blaðamanna vegna fréttaumfjöllunar sem aldrei hefur verið hrakin eða neinar efnislegar athugasemdir verið gerðar við.
„Leiðin að því að styrkja stöðu tjáningarfrelsis – og þar með lýðræðis – liggur í því að rannsaka þá framgöngu lögreglu gagnvart blaðamönnum sem bent hefur verið á sem eina af ástæðum fyrir versnandi stöðu tjáningarfrelsis blaðamanna á Íslandi á undanförnum árum. Taki stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hlutverk sitt alvarlega hljóta nefndarmenn í nefndinni að beina sjónum sínum að þessu aðalatriði málsins.“