fbpx
Fimmtudagur 20.mars 2025
Fréttir

Lögmaður segir að héraðsdómur hafi blessað ofbeldi lögreglu gegn mótmælendum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 19. mars 2025 18:27

Oddur Ástráðsson. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag var ríkið sýknað af kröfum níumenninga sem sökuðu lögreglu um að hafa beitt sig ofbeldi við mótmælaaðgerðir í lok maí 2024, þar sem lýst var stuðningi við Palestínu og stríðsrekstri Ísraels á Gaza mótmælt. Krafðist fólkið miskabóta vegna framgöngu lögreglu. Dóminn má lesa hér.

Lögmaður níumenninganna, Oddur Ástráðsson, hefur stigið fram og segir héraðsdóm hafa blessað ofbeldi lögreglu. Hann bendir á að enginn mótælendanna hafi beitt eða hótað ofbeldi. Ennfremur segir hann að það sé mjög alvarlegt að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að mótmælin hafi ekki verið friðsamleg. Segir hann þá niðurstöðu vera beinlínis ranga. Oddur segir í pistli á Facebook:

„Í dag féll dómur í héraðsdómi í máli 9 mótmælenda sem beitt voru valdi og ofbeldi af lögreglu 31. maí á síðasta ári. Málið var höfðað þar sem stefnendur töldu það mikilvægt að láta á það reyna hvort þessi valdbeiting hefði verið í samræmi við mannréttindareglur, í ljósi stjórnarskrárvarins réttar okkar allra til að nota röddina og til að koma saman og mótmæla. Ég er lögmaður hópsins. Skemmst er frá því að segja að í dómi héraðsdóms er ofbeldi lögreglu blessað og henni játað verulegt svigrúm til að meta hvenær slíks er þörf. Við lestur dómsins er margt sem ég tel að orki í besta falli tvímælis og sumt sem er að mínu viti beinlínis rangt. Það sem er einna alvarlegast er að í forsendum dómsins er komist að þeirri niðurstöðu að mótmælin hafi ekki verið friðsamleg. Rökin eru þau að nokkur úr hópi mótmælenda hafi tafið för ráðherrabíla með því að leggjast á götuna. Það dugar, að mati dómsins, til að flokka mótmælin sem ófriðsamleg.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið fjallað um það hvenær mótmæli teljast friðsöm og hvenær ekki. Til að mótmæli teljist ekki lengur vera friðsamleg þarf, samkvæmt þeirri framkvæmd, ríkisvaldið að sýna fram á ásetning mótmælenda til að beita ofbeldi eða skemmdarverkum eða til að grafa beinlínis undan lýðræðinu. Ekkert í háttsemi eða ætlun mótmælendanna í Skuggasundi nálgast einu sinni þau mörk. Ekkert þeirra beitti eða hótaði ofbeldi. Ekkert þeirra skemmdi neitt. Þau voru einfaldlega að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Sem er hverju frjálsu samfélagi nauðsynlegur. Hornsteinn þess að við búum hér við frelsi til skoðana og athafna. Þessi forsenda dómsins er beinlínis röng og beinlínis hættuleg fái hún að standa.“

Stuðningsfólk Palestínu beitt hörku

Oddur segir að mótmælendur sem standa með Palestínu mæti mikilli hörku af hálfu yfirvalda víða um heim, líka í yfirlýstum lýðræðisríkjum „Ég leyfi mér að fullyrða að sú harka beinist miklum mun frekar að þessum hópi en öðrum hópum sem hafa annan málstað. Sú afmennskun er beinlínis uggvænleg. Sama afmennskun og leyfir sömu yfirvöldum að horfa undan á meðan saklaust fólk er myrt í Palestínu.“

Segir hann að þroskað lýðræðissamfélag umberi mótmæli og óþægindi sem þeim fylgja. Fólk eigi að geta mótmælt án þess að verða fyrir ofbeldi og því sé dómurinn vonbrigði.

Þess má geta að nefnd um eftirlit með lögreglu tók málið fyrir og taldi lögreglu ekki hafa farið offari. Í niðurstöðu nefndarinnar segir:

„Telur nefnd um eftirlit með lögreglu að lögreglan hafi ekki gengið lengra en nauðsyn krafði við störf sín í umrætt sinn og því hafi meðalhófs verið gætt. Með hliðsjón af ofangreindu og þeim gögnum sem nefndin hefur undir höndum, telur nefndin að ekki séu uppi vísbendingar um mögulega refsiverða eða ámælisverða háttsemi starfsmanna lögreglu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Þingnefndin skoði lögreglu, en ekki blaðamenn

Þingnefndin skoði lögreglu, en ekki blaðamenn
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Guðrún Kvaran gagnrýnir Höllu forseta: „Þá á hún að skrifa und­ir „Halla Tóm­as­dótt­ir“ og ekk­ert annað“

Guðrún Kvaran gagnrýnir Höllu forseta: „Þá á hún að skrifa und­ir „Halla Tóm­as­dótt­ir“ og ekk­ert annað“