Nú geta Íslendingar ráðið einkaspæjara, en fyrirtækið SUSS segist vera eina einkaspæjarastofa landsins og sérhæfir sig í að safna og greina trúnaðarupplýsingar með ábyrgum og lögmætum hætti. Teymi SUSS segist hafa áratugareynslu af gagnaöflun, vöktun og greiningu og hafa auk þess tengiliði hjá fjölmiðlum, lögreglu og björgunarsveitum. Á vefsíðu SUSS segir:
„Við höfum aðgang að mikilvægum kerfum sem eykur getu okkar til að komast að sannleikanum. Þjónusta okkar fer fram í algjörum trúnaði þar sem friðhelgi einkalífs þíns er tryggð á sama tíma og við skilum áreiðanlegum og nothæfum niðurstöðum.“
Samkvæmt SUSS geta spæjarar þeirra aðstoðað fólk við eftirfarandi:
- Eftirlit og vöktun, svo sem að fylgjast með ferðum fólks, staðfesta hvað hefur átt sér stað og til að afla gagna með varfærum hætti.
- Bakgrunnsathuganir, svo sem með því að rannsaka einstaklinga eða fyrirtæki til að sannreyna trúverðugleika þeirra og til að kanna sakaskrá, fjárhagssögu og tengsl við einstaklinga.
- Framhjáhaldsrannsóknir þar sem spæjarar safna sönnunargögnum til að staðfesta eða hrekja grun um framhjáhald.
- Fyrirtækjarannsóknir þar sem spæjarar reyna að finna möguleg svik, upplýsa um þjófnað, atvinnunjósnir eða aðra ósæmilega háttsemi innan reksturs.
- Leit að týndu fólki og skuldunautum þar sem spæjarar reyna að hafa uppi á fólki, svo sem týndum ástvinum, skuldurum og fleira.
- Lögfræðilegar rannsóknir þar sem spæjarar safna sönnunargögnum fyrir dómsmál og aðstoða lögfræðinga við undirbúning máls
- Tryggingarannsóknir þar sem spæjarar hjálpa við tryggingakröfur.
SUSS segist starfa að heilindum og innan ramma laganna. „Við leitum sannleikans – svo þú getir tekið upplýstar ákvarðanir.“