fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Fréttir

Hundur sem beit manneskju fær gálgafrest

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 19. mars 2025 12:30

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ákvarðaði að hundurinn skyldi vera aflífaður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur frestað aflífun hunds sem beit manneskju á meðan nefndin hefur til meðferðar kæru eigandans vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um að hundurinn verði aflífaður.

Á fundi heilbrigðisnefndar í síðasta mánuði var tekið fyrir bréf Dýraþjónustu Reykjavíkur frá því í janúar þar sem óskað var eftir því að nefndin tæki ákvörðun um aflífun hundsins í samræmi við 8. grein samþykktar um hundahald í Reykjavík. Í greininni segir að hafi Dýraþjónusta Reykjavíkur ástæðu til að ætla að hundur sé hættulegur eða hafi valdið líkamstjóni, svo sem með biti, geti Dýraþjónustan gert kröfu um að umráðamaður hunds láti hundinn undirgangast skapgerðarmat. Matið skuli framkvæmt af sérfróðum aðila, svo sem dýralækni eða öðrum aðila sem Dýraþjónusta Reykjavíkur telji til þess bæran. Heimilt sé að leita yfirmats ef eftir því sé óskað. Allur kostnaður af matinu skuli greiddur af umráðamanni.

Enn fremur segir í þessari 8. grein að leiði skapgerðarmat í ljós að hundur teljist hættulegur, geti Dýraþjónusta Reykjavíkur gert kröfu til þess að hundur verði aflífaður. Verði umráðamaður ekki við kröfum sem Dýraþjónusta Reykjavíkur geri samkvæmt þessari grein, geti heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ákveðið að hundur undirgangist skapgerðamat og/eða verði aflífaður.

Í fundargerð heilbrigðisnefndar er ekki tekið sérstaklega fram að hundurinn hafi bitið manneskju en miðað við þessa grein hundasamþykktarinnar virðist það blasa við.

Nauðsynlegt að aflífa

Í fundargerð heilbrigðisnefndar er vísað í ýmis gögn meðal annars uppfært endurmat frá dýralækni og því virðist sem að hundurinn hafi undirgengist einhvers konar mat.

Segir í fundargerðinni að Dýraþjónusta Reykjavíkur telji nauðsynlegt að hundurinn verði aflífaður og tekur nefndin undir það með vísan til áðurnefndrar 8. greinar samþykktar um hundahald í Reykjavík.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er málavöxtum lýst nánar. Þar kemur fram að í október 2024 beit hundurinn einstakling sem staddur var á heimili eigandans. Bitið hafi verið alvarlegt.

Eigandi hundsins kærði ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um aflífunina til úrskurðarnefndarinnar og fór fram á að henni yrði frestað á meðan kæran væri til meðferðar. Segir í úrskurðinum að leitað hafi verið umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi ekki mótmælt kröfu eigandans um að aflífuninni yrði frestað á meðan kæran væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en krafist þess að málið verði tekið til flýtimeðferðar á grundvelli þess að um mikilvæga öryggis- og almannahagsmuni væri að ræða.

Almennt séð frestar kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar nema til séu staðar nægilegar ástæður fyrir slíkri frestun. Í þessum úrskurði er hins vegar vísað til þess að eðli máls samkvæmt sé framfylgd ákvörðunar um að aflífa hundinn varanleg og óafturkræf.

Þar af leiðandi er aflífuninni frestað á meðan úrskurðarnefndin hefur kæru eiganda hundsins vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um aflífunina til meðferðar.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þingnefndin skoði lögreglu, en ekki blaðamenn

Þingnefndin skoði lögreglu, en ekki blaðamenn
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Guðrún Kvaran gagnrýnir Höllu forseta: „Þá á hún að skrifa und­ir „Halla Tóm­as­dótt­ir“ og ekk­ert annað“

Guðrún Kvaran gagnrýnir Höllu forseta: „Þá á hún að skrifa und­ir „Halla Tóm­as­dótt­ir“ og ekk­ert annað“