Blaðið greindi frá því í gær að það hefði vakið athygli á 75 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á dögunum að Halla notaði ekki fullt nafn við undirskrift sína. Þetta sást á kveðju sem hún sendi sveitinni í dagskrárriti tónleikanna. Notaði Halla nafnið Halla Tomas.
Blaðið spurði forsetaembættið út í þetta og kom fram í svarinu að þetta væri undirskriftin sem Halla hefði notað áratugum saman og haldið óbreyttri síðan hún tók við embætti forseta.
Guðrún Kvaran, prófessor emerítus í íslensku við Háskóla Íslands, var svo spurð út í þetta í Morgunblaðinu í dag þar sem haft var eftir henni að það sé „út í bláinn“ að Halla noti ekki fullt nafn. Það sé engin réttlæting að Halla hefði búið erlendis lengi og hefði notað undirskriftina lengi.
Sjá einnig: Guðrún Kvaran gagnrýnir Höllu forseta:„Þá á hún að skrifa undir „Halla Tómasdóttir“ og ekkert annað“
„Það er ekkert betra. Hún var mikið í erlendum samskiptum og þá var kannski erfitt að hafa „dóttir“. En hún býr á Íslandi og er að skrifa undir íslenskt plagg. Þá á hún að skrifa undir „Halla Tómasdóttir“ og ekkert annað,“ segir Guðrún við Morgunblaðið.
Margir hafa skoðun á málinu á samfélagsmiðlum og má þar til dæmis nefna þingmanninn Sigmar Guðmundsson, Guðmund Andra Thorsson, rithöfund og fyrrverandi þingmann og Eirík Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands.
Sigmar deilir skjáskoti af frétt Morgunblaðsins í dag og gerir góðlátlegt grín að gagnrýni Guðrúnar með eftirfarandi orðum: „…… og að lokum legg ég til að landsmenn allir gangi í eins úlpum.“
Undir færslu hans skrifar Illugi Jökulsson og slær á létta strengi: „Ég sé að á Facebook kallar þú þig Gudmundsson! Er það eðlilegt?! Alþingismaður og allt! Þér er hollast að breyta þessu, ella sendi ég Guðrúnu Kvaran á þig.“
Hallgrímur Helgason spyr: „Hvers dóttir er Guðrún Kvaran?“
Sjá einnig: Dagur hæðist að Morgunblaðinu og rithönd Davíðs Oddssonar – „Gmmtnnnnm“
Guðmundur Andri Thorsson skrifar á Facebook-síðu sína:
„Ég kaus ekki Höllu Tómasdóttur – var kannski eini vinstri maðurinn á landinu sem það gerði ekki í því einkennilega hópefli vinstra fólks sem þá myndaðist hér. En sem sé: Hún er núna forseti. Og hún verður að fá að vera það án þess að fólk sé í sífellu að agnúast út í einhvern tittlingaskít. Hún gegnir þessu embætti og á skilið þá virðingu sem því á að fylgja – að minnsta kosti þar til henni verður eitthvað á annað en að skrifa nafnið sitt á einhvern hátt.”
Illugi Jökulsson blandar sér einnig í þá umræðu og tekur heilshugar undir með Guðmundi Andra.
„Ég kaus heldur ekki Höllu Tómasdóttur og varð reyndar ekki var við neitt hópefli. Fólk ákvað sig bara, hvern það vildi helst fá á Bessastaði. Og ég er hjartanlega sammála þér, það er með ólíkindum að horfa upp á fullorðið fólk reyna að segja manneskju á sextugsaldri hvernig hún megi skrifa nafnið sitt — og með heldur miklum hofmóðugsbrag ofan í kaupið.“
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus í íslensku, tjáir sig einnig um gagnrýnina á Höllu og bendir á áhugaverðan punkt.
„Mér finnst gleymast dálítið í þessari umræðu það meginatriði að undirskrift er ekki texti fyrst og fremst heldur grafík – rithönd. Það eru til ótal brandarar um ólæsilegar undirskriftir lækna og stjórnmálafólk er margt undir sömu sök selt. En það sem skiptir máli er ekki hvaða bókstafir eru í undirskriftinni, og hvort þeir eru læsilegir, heldur að hin grafíska mynd sé hin sama og hægt að tengja hana við persónu. Þess vegna er það ógild undirskrift ef við notum prentstafi, jafnvel þótt við skrifum nafnið fullum stöfum (þ.e., nema við séum vön því að skrifa undir með prentstöfum).“
Svanborg Sigmarsdóttir, pistlahöfundur og framkvæmdastjóri Viðreisnar, segir á sinni Facebook-síðu: „Mín undirskrift er alltaf Svanb Sigm, hvorki dóttir né fullt nafn. Það er eins gott að ég varð ekki forseti, Morgunblaðið gæti fengið flog.“
Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, blandar sér einnig í umræðuna og segir á Facebook-síðu sinni:
„Besservisserar landsins sameinist! Allir skulu skrifa nafnið sitt eins og besservisserarnir segja. Kannski að fólk haldi að af því að Halla er forseti, þá fái það einhvern vegin leyfi til þess að segja henni til um hvernig hún skrifar nafnið sitt (eða klæðir sig eða hvaðeina annað sem er í raun persónulegt). Þessu skal ekki rugla saman við það leyfi sem fólk hefur til þess að tjá sig um hvernig á að sinna starfi forseta. Þetta tvennt er mjög ólíkt og leyfi fyrir einu gefur ekki leyfi fyrir hinu, þó Halla sé opinber persóna. Og nei, ég er ekki að tala um að það eigi að banna fólki að tjá skoðun sína eða neitt slíkt. Ég er ekki að tala um þess háttar leyfi. Ég er að tala um hvað fólk leyfir sér að gera eða segja um persónuleg málefni annara.“
Það er þó einn sem tekur upp hanskann fyrir Guðrúnu Kvaran, blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson sem segir: „Í stóra undirskriftarmálinu er ég á Guðrúnar Kvaran-vagninum. Halla Tomas hljómar ekki eins og forseti heldur Nylon-wannabe.“