Tveir síbrotamenn hafa verið ákærðir fyrir að valda eignaspjöllum á lögreglustöðinni við Þórunnargötu á Akureyri þann 12. maí í fyrra auk fjölda annarra brota. Um er að ræða tvo Litháa á fertugsaldri, Egidijus Smatauskas og Vygantas Smatauskas, en ákæra gegn þeim var birt í Lögbirtingablaðinu.
Þar kemur fram að mennirnir hafi verið vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar annarra mála og þeir þá tekið sig til og rifið niður loftljós sem var í klefanum og eyðilagt það. Egidijus hafi síðan tekið sig til og farið að fikta í rafmagnsvírunum sem héngu niður úr loftinu með þeim afleiðingum að rafmagnstruflanir urðu á lögreglustöðinni. Er farið fram á að tvímenningarnir sæti refsingu vegna brotsins og greiði skaðabætur upp á 179.230 krónur,
Málin sem voru til rannsóknar og mennirnir eru einnig ákærðir fyrir ásamt samverkakonu sinni, Judita Kulikauskiene, snúast um ítrekuð þjófnaðarbrot úr verslunum á Akureyri.
Alls eru þau þrjú ákærð fyrir fimm þjófnaðarbrot úr verslun Krónunnar við Tryggvabraut og sex þjófnaðarbrot úr öðrum verslunum í bænum, til að mynda Sport Direct og Elko, á tímabilinu 2-11. maí 2024 þar sem þau höfðu með sér varning fyrir háar fjárhæðir.
Þá eru Egidijus og Judita einnig ákærð fyrir peningaþvætti en þau hafi aflað sér um 5 milljónir króna með þjófnaðarbrotunum á tímabili frá því í desember 2023 fram í maí 2024. Vygantas er að auki ákærður fyrir að hafa í fórum sínum 1,76 grömm af maríhúana