fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Fréttir

Ný tíðindi af „græna gímaldinu“ – Segja kjötvinnsluna eiga ekki að þurfa að fara í umhverfismat

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 18. mars 2025 19:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birt hefur verið í Skipulagsgátt ný skýrsla sem unnin var fyrir eigenda hins mjög svo umdeilda vöruhúss sem verið hefur í byggingu við Álfabakka í Reykjavík og þótt vera of þétt upp við íbúabyggð en húsið hefur verið kallað Græna gímaldið af ósáttum íbúum í nágrenninu. Samkvæmt skýrslunni er ekki talin þörf á því að kjötvinnsla sem á að reka í húsinu eigi að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Er hér um að ræða lögformlega tilkynningu til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina en stofnunin hefur samkvæmt lögum sjö vikur til að gefa út ákvörðun um hvort framkvæmdir við kjötvinnsluna eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum, eftir að slík tilkynning hefur verið lögð fram.

Skýrslan er unnin af verkfræðistofunni Verkís fyrir eigendur hússins, Álfabakka 2 ehf.

Eins og kunnugt er stöðvaði byggingarfulltrúi Reykjavíkur framkvæmdir við þann hluta hússins umdeilda sem snýr að fyrirhugaðri kjötvinnslu þar sem ekkert hefði komið fram um umhverfismat á þeirri starfsemi.

Í útdrætti, í upphafi skýrslunnar, segir að kjötvinnslan verði rekin af fyrirtækinu Ferskar kjötvörur sem er í eigu Haga en nýja kjötvinnslan eigi að fela í sér endurnýjun á eldri kjötvinnslu fyrirtækisins sem rekin sé nú að Síðumúla í Reykjavík.

Tveir til fimm bílar á dag

Í útdrættinum segir enn fremur að Ferskar kjötvörur noti sendibíl til útkeyrslu í verslanir og tveir til fimm bílar á dag komi með aðföng kjötvinnslunnar. Samkvæmt umferðargreiningu fari þúsundir bíla á degi hverjum um Álfabakka og nærliggjandi götur. Í því samhengi verði umfang umferðar vegna kjötvinnslunnar óverulegt. Engin efni séu notuð við kjötvinnsluna sjálfa, en tæki og húsnæði séu sápuþvegin og sótthreinsuð.

Frárennsli frá vinnslunni fari í gegnum fituskiljur á leið þess í fráveitu Reykjavíkurborgar. Úrgangur (lífrænn og almennt sorp) sé geymdur innandyra í sérhönnuðum rýmum vinnslunnar. Helsti hávaði sem tengist kjötvinnslunni komi frá vélbúnaði kælikerfis, sem girtur sé af með hljóðdempandi skjólvegg. Um 200 metrar séu í það íbúðarhús sem sé næst kjötvinnslunni og líklegt sé að á þeirri leið minnki hávaði umtalsvert og sé marktækt innan leyfilegs hljóðsstyrks við húsvegg íbúðarhússins.

Í þessu samhengi má minna á að kjötvinnslan á að vera í vesturenda hinnar umdeildu byggingar en það er hinn endi byggingarinnar sem er þétt upp við fjölbýlishús við Árskóga.

Enn fremur segir í útdrættinum að starfsemin verði á skilgreindu miðsvæði þar sem gert sé ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi. Fyrir liggi álit skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um að á miðsvæðum borgarinnar sé almennt heimilt að vera með hreinlega atvinnustarfsemi og léttan iðnað, sem kjötvinnsla Ferskra kjötvara geti fallið undir. Niðurstaðan skýrslunnar sé að kjötvinnslan sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þrif og vinnsla

Í skýrslunni er fyrirhuguðu skipulagi vinnslunnar lýst nánar en fram kemur meðal annars að engin slátrun á dýrum muni fara fram á staðnum. Einnig er gerð grein fyrir hvaða efni verði notuð við þrif og hvernig þeim verði fargað sem og hvernig gætt verði að hreinlæti.

Vilja skýrsluhöfundar meina að með tilkomu hússins umdeilda sem mun standa við Álfabakka 2a að miðað við þekktan fjölda starfsfólks og ferða vegna starfseminnar sem þar verði sé líklegt að umferð til og frá lóðinni verði 600-700 ferðir á dag í stað 2.100 eins og gert var ráð fyrir í sérstöku samgöngumati sem ráðist var í vegna fyrirhugaðs atvinnureksturs í húsinu. Þar af verði 100 ferðir á dag vegna starfsemi Ferskra Kjötvara. Vilja skýrsluhöfundar meina að miðað við þá umferð sem sé á svæðinu nú þegar muni þetta umfang umferðar vegna starfsemi kjötvinnslunnar verða óverulegt.

Minnt er á í skýrslunni að bílaumferð muni þvera hjóla- og göngustíg sem liggi meðfram byggingunni en gerðar eru ýmsar tillögur til að lágmarka áhrif þess. Samkvæmt skýrslunni mun einnig hávaði frá starfseminni verða innan marka sem áskilin séu í reglugerðum.

Ekki er vikið í skýrslunni sérstaklega að helstu umkvörtunarefnum íbúa vegna byggingarinnar en skýrslan snýr þó eingöngu að starfsemi kjötvinnslunnar en ekki byggingunni í heild.

Niðurstaða skýrslunnar er því að umhverfisáhrif vegna kjötvinnslunnar séu ekki umtalsverð og eigi því ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Eins og áður segir mun hins vegar Skipulagsstofnun taka ákvörðun um það. Umsagnarfrestur vegna skýrslunnar í Skipulagsgátt er til 15. apríl næstkomandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sá skrýtið skilti á íslensku salerni – „Hver situr svona á klósettinu?“

Sá skrýtið skilti á íslensku salerni – „Hver situr svona á klósettinu?“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum
Fréttir
Í gær

Verktakar og birgjar sameinast um stuðning við UMFG

Verktakar og birgjar sameinast um stuðning við UMFG
Fréttir
Í gær

„Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér, í sínu lífi“

„Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér, í sínu lífi“
Fréttir
Í gær

Keypti Smarties í Fríhöfninni en sá svo hvað það kostaði í Krónunni

Keypti Smarties í Fríhöfninni en sá svo hvað það kostaði í Krónunni
Fréttir
Í gær

Mynd að komast á rannsókn manndrápsmálsins – Hvaða gögn er lögreglan að rannsaka?

Mynd að komast á rannsókn manndrápsmálsins – Hvaða gögn er lögreglan að rannsaka?