Rafbílasamband Íslands segir fyrirhuguð lög um kílómetragjald vera nýja skattlagningu á fólksbíla setta á á fölskum forsendum. Úthlutun sé ekki tengd við uppbyggingu vegakerfisins heldur renni beint í ríkissjóð.
Þetta kemur fram í umsögn Rafbílasambandsins um frumvarp Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra um kílómetragjald á ökutæki.
Daði lagði frumvarpið fram í byrjun mánaðar og sagði það óumflýjanlegt. Eigi hið nýja gjaldtökukerfi að taka gildi um mitt ár. Kílómetragjaldið kemur í stað olíugjalds sem þýðir að gjald verður tekið af rafbílum líkt og bensín eða díselbílum. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra fyrri ríkisstjórnar, lagði fram sambærilegt frumvarp fyrir áramót en ekki tókst að klára málið þá.
Mótmælir Rafbílasambandið harðlega áformuðu kílómetragjaldi og minnir á að núverandi stjórnarflokkar hafi allir kosið lögum um kílómetragjald á rafbíla.
„Um er að ræða nýja skattlagningu á notkun fólksbíla undir þeim fölsku forsendum að gjaldið ætti að renna til vegakerfisins og væri sett fram til að jafna „vaxandi ójafnræði í núverandi gjaldtökukerfi milli þeirra sem nýta samgönguinnviðina“,“ segir í umsögninni sem Tómas Kristjánsson formaður undirritar. „Nú þegar frumvarpið hefur litið dagsins ljós kemur fram í 1. gr. að gjaldið fer óskert í ríkissjóð og er úthlutun á því ekki á nokkurn hátt tengt viðhaldi eða uppbyggingu á þjóðvegakerfinu ekki frekar en olíu- og bensíngjöldin, en tenging þeirra við Vegagerðina var afnumin með lögum nr. 47/2018. Síðan 2018 hefur því ekki einn einasti fólksbíll greitt til ríkisrekna vegakerfisins, ólíkt því sem haldið er fram á veffjármálaráðuneytisins, vegirokkarallra.is.“
Segir Rafbílasambandið að skattlagning á rafbíla sé óhófleg, ósanngjörn og líklega til að hafa verulega neikvæð áhrif á orkuskipti í samgöngum. Það gangi gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar að láta eigendur rafbíla borga kílómetragjald sem muni þrefalda ferðakostnað venjulegs rafbíls.
„Það sem fyrrverandi ráðherrum fjármála og innviða tókst var að sannfæra þjóðina um að skattlagning á notkun ökutækja sé nauðsynleg til að viðhalda vegunum. Þetta er að sjálfsögðu alrangt,“ segir í umsögninni. „Í fjárlögum hvers árs eru um 2000 gjaldaliðir sem íslenskir ríkisborgarar eru ekki að borga sérstakan skatt fyrir til að ríkið getið staðið straum afútgjöldunum. Skatttekjur af ökutækjum eru í dag um tvöfalt sinnum hærri en útgjöld ríkisins til þjóðvegakerfisins.“
Segir sambandið að það sé skylda stjórnvalda að halda við þjóðvegakerfinu án þess að þykjast innheimta skatt fyrir notkun þess. Á vegakerfisins væri þjóðfélagið lamað, fólk kæmist ekki í vinnu og gæti ekki sótt nauðsynlega þjónustu. Einnig er bent á að sveitarfélögin fái ekki krónu af áætluðu kílómetragjaldi þrátt fyrir að reka eigið vegakerfi.
„Bifreiðagjaldið er það sem Rafbílasambandið hefur frekar mælt með að séu endurskoðuð efríkið ætlar sér raunverulega að tengja einhvern skatt notkun á vegakerfinu,“ segir sambandið. „Rafbílasambandið er almennt á móti aukinni skattlagningu en bifreiðagjaldið er þó skattur sem allir þekkja og innheimtukerfið fyrir það er til staðar. Bifreiðagjaldið er líka betur tengt þyngd og mengun bifreiða en áform um kílómetragjald sem setja 280.000 ökutæki undir sama hatt, óháð þessum breytum.“
Áform um kílómetragjald hygli eigendum stórra, mengandi og eyðslufrekari ökutækja á kostnað þeirra sem menga minna.