fbpx
Miðvikudagur 19.mars 2025
Fréttir

Meintur gerandi Sofiu var í sambandi við þrjár aðrar konur – Braut á einni kynferðislega, tók aðra kverkataki og fékk peninga að „láni“ hjá þeirri þriðju

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 18. mars 2025 15:04

Sofia Sarmite Kolesnikova

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sofia Sarmite Kolesnikova fannst látin í heimahúsi á Selfossi þann 29. apríl 2023, hún var 28 ára. Tveir karlmenn á þrítugsaldri, stjúpbræður, voru handteknir sama dag á vettvangi og síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 5. maí. Öðrum þeirra var sleppt 4. maí, en gæsluvarðhald yfir hinum var ítrekað framlengt. Sá var kærasti Sofiu þegar hún lést.

Sjá einnig: Minnist Sofiu systur sinnar sem lést á Selfossi – „Ósættanleg tilfinning situr í hjarta okkar að vita að þú sért farin“

Fjallað er um mál Sofiu í þáttunum Þetta helst á Rás 1 þar sem farið er yfir hliðar málsins sem hafa ekki áður komið fram. Í dag var þriðji og síðasti þáttur á dagskrá.

Í þætti tvö var rætt við bróður Sofiu, Devis, en ættingjar hennar gleyma aldrei deginum sem þau fengu fréttir af andláti hennar.

Sjá einnig: Sofia var ekki eina stelpan sem hinn grunaði átti í sambandi við – Bróðir hennar segir málið opið sár sem fái aldrei úrlausn

„Það er eins og hún sé komin í einhvern annan heim, það er eins og hún bara horfin,“ segir Devis. Á þeim tíma sem samband Sofiu og kærasta hennar hófst sinnaðist þeim systkinum. Alla jafna sættust þau við hvort annað þegar slíkt gerðist, en ekki í þetta sinn, og árið fyrir andlát Sofiu töluðust þau varla við. Samband Sofiu við aðra fjölskyldumeðlimi varð einnig mjög stopult.

Töldu Sofiu sæta nauðungarstjórnun

Ein tilgáta lögreglu var að Sofia sætti nauðungarstjórnun af hálfu kærasta síns. Að breytingar sem orðið höfðu á lífi hennar væru dæmigerðar fyrir þolendur í ofbeldissamböndum. Lögregla hafði grun um að Sofia hefði ekki fullt vald yfir gjörðum sínum, símanotkun eða fjármunum. Í gögnum málsins má sjá að hinn grunaði var með öll lykilorð hennar. 

Lögreglan fann meðal annars fíkniefni, byssu og umbúðir utan af öryggismyndavélum við leit á vettvangi og í bíl mannsins. Taldi lögreglan manninn hafa notað öryggismyndavélar til að fylgjast með Sofiu. Nokkrar myndavélar höfðu verið á heimilinu sem tengdar voru erlendum skýjaþjónustum og grunaði lögreglu að myndefni væri til frá nóttinni sem Sofia lést.

Eins og áður kom fram notaði kærasti hennar tíma til að eyða sönnunargögnum áður en hann tilkynnti andlát hennar, þar á meðal eyddi hann aðgöngum sínum að skýjaþjónustunum, og fjölmörgum ljósmyndum og myndskeiðum úr símanum sínum. Lögregla endurheimti símagögnin en tókst ekki að endurheimta upptökur úr öryggismyndavélunum. Við yfirheyrslur játaði maðurinn að hafa losað sig við myndavélar daginn sem Sofia lést. Maðurinn tók til á vettvangi og setti föt sín í þvottavél.

Sameiginlegur áhugi á fatahönnun

Í þriðja þætti kemur fram að Sofia átti sér draum um að hanna eigin föt, hún fór að læra í Tækniskólanum en flosnaði úr náminu vegna tungumálaörðugleika. Hún fór þá að vinna í World Class á Seltjarnarnesi, þar sem hún kynntist kærasta sínum.

„Líklega kynntist hún sakborningnum þar, að minnsta kosti sáu einhverjir til hans veita Sofiu mikla athygli meðan hún var í vinnunni, Það er óljóst hvenær samband þeirra hófst enda fóru þau af ýmsum ástæðum leynt með það. Sofia var þó ekki búin að gefa drauma sína um fatahönnun upp á bátinn. Þegar hún fór að vinna í líkamsræktarstöðinni vaknaði áhuga hennar á að hanna íþróttaföt og kannski var það það sem sameinaði þau. Hann hélt úti íþróttafatamerki sem var nokkuð vinsælt meðal fólks í íþróttastöðvum landsins. Það þótti Sofiu spennandi, hún gerði sér vonir um að geta fikrað sig nær draumnun í framtíðinni.“

Í þættinum er rakið að maðurinn hafi sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að samband þeirra Sofiu hafi hafist sem vinasamband en ekki verið komið á það stig að það væri opinbert samband. Hann tók hús á leigu á Selfossi nokkrum mánuðum áður en Sofia lést, hún flutti svo til hans, en fæstir af hennar nánustu höfðu hugmynd um þá flutninga. Ekkert þeirra hafði heimsótt þau þangað. Í gögnum lögreglu kom fram að húsið hefði verið nokkuð tómlegt eins og parið hefði ekki verið búið að koma sér almennilega fyrir og einnig hefði litið út sem Sofia hefði dvalið þar lengst af ein, að minnsta kosti síðustu vikurnar.

Átti í sambandi við nokkrar konur á sama tíma

Í þriðja og síðasta þætti Þetta helst um málið kemur fram að hinn meinti gerandi, kærasti Sofiu, var í sambandi við fleiri konur en hana.

„Sakborningurinn hafði nefnilega í ýmsu að snúast. Á byrjunarstigi lögreglurannsóknar greindi hann frá því að hann hefði verið í útlöndum dagana áður en Sofia dó. Hann hefði farið til Póllands í vinnuferð með fyrrverandi kærustu sinni og komið heim tæpum sólarhring áður en Sofia lést. Hann hafi svo haldið á Selfoss að hitta Sofiu en fyrrverandi kærastan farið heim til sín.“ 

Viðurkenndi hann að hann hefði verið að reyna að vinna fyrrverandi kærustuna til baka og fá hana til að flytja inn í húsið til hans á Selfossi, féllst hún á að gefa sambúð þeirra annan séns og var búin að selja húsið sitt og átti að afhenda það nokkrum dögum eftir andlát Sofiu.

„Sakborningurinn viðurkenndi fyrir lögreglu að hann hafi verið í ákveðinni klemmu sem hann var ekki alveg búinn að finna lausn á. Hann hafi séð fyrir sér að fyrrverandi kærastan myndi flytja inn í húsið með honum og hann hafi ætlað sér að finna aðra íbúð fyrir sig og Sofiu. Hann gekkst við að hafa verið óheiðarlegur við þær báðar og ekki alveg hafa verið búinn að hugsa þetta til enda. Hann hafi ekki verið búinn að segja Sofiu að hún þyrfti að flytja út og heldur ekki að fyrrverandi ætlaði að flytja inn. Auk þess vissi fyrrverandi kærastann hans ekki að Sofia byggi þegar í húsinu.“

Lögreglan hóf eftir þessa vitneskju að þjarma að manninum við yfirheyrslur og spurði hvort hann hefði verið kominn í tímahrak að finna nýtt húsnæði fyrir þau Sofiu. Spurningar lögreglu fóru að beinast að hvort þessi klemma hafi valdið sakborningnum hugarangri og hvort hann hafi upplifað að Sofia væri fyrir honum. Maðurinn neitaði því og sagðist geta rætt þetta við Sofiu, þau ættu þægilegt og afslappað samband. Lögreglan leitaði svara við hvort maðurinn hefði haft ásetning til að losa sig við Sofiu. Maðurinn gekkst aldrei við því. 

Fyrrverandi kærasta sætti stjórnun – Braut á henni kynferðislega 

Fyrrverandi kærasta mannsins gaf skýrslu hjá lögreglu og sagði manninn hafa verið farinn að venja komur sínar aftur til hennar og verið þar að mestu vikurnar áður en Sofia lést. Faðir fyrrverandi kærustunnar gaf einnig skýrslu hjá lögreglu og sagðist hann hafa upplifað að dóttir hans sætti andlegu ofbeldi í sambandinu, hún væri stöðugt hrædd og það vantaði alla gleði í hana, hún hefði einangrast frá fjölskyldu og vinum meðan á sambandinu stóð.

Fyrrverandi kærastan lýsti manninum sem ljúfum og góðum manni en með sína bresti, hann hafi verið farin að beita hana andlegu ofbeldi. Undir það síðasta hafi hann verið kominn í fíkniefnaneyslu og verið farinn að hverfa reglulega. 

„Hún sagði að hann hafi viljað að hún væri undirgefin í kynlífi og kannski svolítið á öðrum sviðum líka. Þegar lögregla spurði hvort hann tæki hana hálstaki í kynlífi þá svaraði hún því játandi. Eitt kvöldið hafi hann komið heim undir áhrifum fíkniefna og brotið á henni kynferðislega.“

Við yfirheyrslur hjá lögreglu játti hún því að hann hefði komið upp myndavélum inni á heimili þeirra og fyrir utan húsið. Greindi hún frá að hann hefði meðal annars fylgst með samtali hennar við fjölskyldumeðlimi hennar þar sem þau lýstu yfir áhyggjum af henni og sambandinu.

Fékk peninga að láni hjá þriðju konunni og tók þá fjórðu kverkataki

Lögreglan tók einnig skýrslu af þriðju konunni sem sagðist hafa verið í kynferðislegu sambandi við manninn, samband þeirra sem stóð yfir af og til lauk mánuði fyrir andlát Sofiu. Hann hefði stungið upp á að þessi kona flytti einnig í húsið á Selfossi. Konan lagði 1,5 milljón inn á manninn, sem átti að vera lán. Hann hafi hins vegar horfið og aldrei greitt lánið til baka. 

Skýrsla var einnig tekin af fjórðu konunni, sem sagðist hafa verið í sambandi við manninn en  þau hafi aðeins hist nokkrum sinnum. „Í eitt skiptið hafi hann kysst hana, tekið hana kverkataki og haldið fast í 1-2 mínútur þar til hún átti erfitt með andardrátt.“ 

Skýrslutökur yfir konunum þremur styrktu kenningu lögreglu um að sakborningurinn vildi drottna og hafa yfirhöndina í samskiptum við konur.

Haft er eftir Karli Inga Vilbergssyni saksóknara að verið væri að skoða hvort ákæra ætti manninn fyrir manndráp eða fyrir að hafa ekki komið Sofiu til bjargar. 

Maðurinn var látinn laus eftir fjóra mánuði í gæsluvarðhaldi, hann sætti farbanni í nokkurn tíma en yfirgaf landið þegar það rann út. Hann fór til Tenerife og stuttu síðar til Thailands. Þar lést hann með sviplegum hætti 4. september 2024, 27 ára að aldri.  

Hlusta má á þætti Þetta helst hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Sá skrýtið skilti á íslensku salerni – „Hver situr svona á klósettinu?“

Sá skrýtið skilti á íslensku salerni – „Hver situr svona á klósettinu?“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum

Átti rétt á að rifta leigusamningi eftir að lögregla hafði gert húsleit á veitingastaðnum
Fréttir
Í gær

Verktakar og birgjar sameinast um stuðning við UMFG

Verktakar og birgjar sameinast um stuðning við UMFG
Fréttir
Í gær

„Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér, í sínu lífi“

„Maður verður að geta hlegið að sjálfum sér, í sínu lífi“
Fréttir
Í gær

Keypti Smarties í Fríhöfninni en sá svo hvað það kostaði í Krónunni

Keypti Smarties í Fríhöfninni en sá svo hvað það kostaði í Krónunni
Fréttir
Í gær

Mynd að komast á rannsókn manndrápsmálsins – Hvaða gögn er lögreglan að rannsaka?

Mynd að komast á rannsókn manndrápsmálsins – Hvaða gögn er lögreglan að rannsaka?