„Hefur þú líka verslað í fríhöfninni og fattað svo að varan var ódýrari heima?,“ spurði konan.
Birti hún tvær myndir af Smarties-pakkningu í Fríhöfninni og svo í Krónunni. Í Fríhöfninni kostar varan 399 krónur stykkið en sama vara í Krónunni kostar 228 krónur.
Miðað við umræðurnar í hópnum eru neytendur vel á verði þegar kemur að verðlagi í svokölluðum fríhöfnum, bæði hér á landi og erlendis.
„Er svona í öllum fríhöfnum sem ég þekki….alveg hætt að kaupa nokkurn skapaðan hlut,“ segir einn í hópnum og annar bætir við: „Já, síðast þegar ég fór út þá bar ég saman kílóverð af því sem ég hafði áhuga á að kaupa og það var ódýrara úti í búð.“
„Versla ekki í fríhöfninni, nema tollinn á heimleið,“ segir svo annar.
DV bar að gamni saman nokkrar sælgætistegundir til að kanna verðmuninn á Fríhöfninni og Krónunni. Fimm vörur voru skoðaðar og var verðið hærra í Fríhöfninni í fjórum tilvikum.
Nóa páskaegg númer 4 kostar 2.599 krónur í Fríhöfninni en 2.350 krónur í Krónunni. Appolo fylltar reimar, 160 grömm, kosta 329 krónur í Fríhöfninni en 360 krónur í Krónunni. Ófylltar lakkrísreimar kosta hins vegar 329 krónur í Fríhöfninni en 280 í Krónunni. Villiköttur kostar 218 krónur í Krónunni en 269 í Fríhöfninni. Þá kostar Sanbó risa þristur 155 krónur í Krónunni en 159 í Fríhöfninni.