Erlendur einstaklingur í mjög svo annarlegu ástandi vegna neyslu fíkniefna var handtekinn í miðbænum í dag. Hann ældi í lögreglubíl og var svo færður á sjúkrahús þar sem hann var sprautaður niður og fjötraður. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þar kemur eins fram að líkamsárás átti sér stað í miðbænum þar sem aðili var laminn í andlit og tekinn hálstaki. Eins er greint frá nokkrum innbrotum í 101 Reykjavík. Brotist var inn í heimahús, veitingastað og veislusal. Vínflöskum og reiðufé var stolið af veitingahúsinu en sjónvarpi úr veislusalnum þar sem fundust eins mikið af notuðum sprautunálum.
Tilkynnt var um heimilisofbeldi í miðborginni og er einn nú vistaður í fangageymslu vegna málsins. Ölvaður einstaklingur var til leiðinda í Múlahverfinu og ölvaður aðili ónáðaði fólk á Kjarvalsstöðum.
Lögregla var eins kölluð út að hóteli þar sem aðili hafði heimtað pening frá hótelstarfsmanni.
Aðili kallaði til lögreglu vegna ónæðis í heimahúsi en við skoðun lögreglu kom í ljós að húsráðandi var að smíða ramma, á ókristilegum tíma að mati nágranna.
Tilkynnt var um geltandi hunda í Breiðholti, rúm á Akbraut í Mosfellsbæ, þjófnað úr Bónus í Kópavogi og loks óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna farþega í Grafarvogi.