„Arion er að setja mig á hausinn,“ segir í nafnlausri færslu sem birtist í dag í hópi á Facebook sem kallast Sparnaðar tips. Höfundur færslunnar hafði tekið óverðtryggt húsnæðislán á föstum 3,25 prósenta vöxtum til þriggja ára en nú hafa vextirnir losnað með tilheyrandi hækkun á afborgun. Lánið stendur nú í tæplega 34,2 m.kr.
Höfundur færslunnar sýndi hvernig afborgun lánsins hækkaði þegar vextirnir losnuðu. Á föstum vöxtum borgaði hann 174.744 kr. þann 1. febrúar. Þar af fóru um 25 þúsund beint inn á höfuðstól lánsins. Núna 1. mars var afborgunin orðin 295.529 kr. og bara 7 þúsund krónur fóru inn á höfuðstólinn.
Þegar vextirnir losnuðu fóru þeir frá því að vera 3,25% upp í 10,6%.
„Þetta er kúgun og peningaþvætti,“ sagði höfundur ósáttur og spurði aðra meðlimi hópsins hvað væri best að gera í þessari stöðu.
Skoðanir voru skiptar hjá öðrum meðlimum. Sumum fannst rangt að kenna bankanum um þetta þar sem stýrisvextir eru ákveðnir af Seðlabankanum og eins hljóti fólk að vita að þegar vextir eru bundnir til ákveðins tíma að þeir muni að þeim tíma liðnum losna.
Einn benti höfundi færslunnar á að það sé hreinlega skaðlegt viðhorf að ætla að kenna bankanum um þetta. Viðkomandi hafi vitað í þrjú ár að vextir myndu losna á þessum tíma og hefði átt að undirbúa sig. „Og þú hefur þar að auki verið að borga 3,25% vexti á tímabili þegar stýrivextir hafa verið allt að þrefalt hærri.“
Höfundur beri sjálfur ábyrgð á að hafa ekki endurfjármagnað í tæka tíð. „Þannig nei, það er enginn hérna að kúga þig eða gerast sekur um peningaþvætti.“
Aðrir bentu þó á að það sé ekki alltaf hlaupið að því að fá endurfjármögnum þar sem fólk þarf að geta staðist greiðslumat. Eins þurfi á sumum lánum að borga uppgreiðslugjald og svo kosti að taka nýtt lán.
Þó nokkrum var misboðið:
Það voru loks nokkrir sem gáfu raunveruleg ráð til færsluhöfundar. Honum var bent á að endurfjármagna, minnka við sig, nýta séreignarsparnað í afborgun frekar en ínn á höfuðstól, breyta yfir í verðtryggt lán og jafnvel að festa aftur vexti því í dag eru fastir vextir lægri en lausir.