Neytendasamtökin hyggjast tilkynna auglýsingu smálánafyrirtækisins NúNú til Neytendastofu. Fyrirtækið auglýsir að fólk geti komist í pott til að vinna fría ferð til Tenerife ef það taki lán í vor og standi í skilum í sumar.
„Okkur finnst þetta vera siðlaus markaðssetning,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna. Hyggjast samtökin tilkynna auglýsinguna til Neytendastofu til að skera úr um lögmæti hennar.
Í auglýsingunni segir að fólk sem taki lán í vor geti komist í pott til að vinna fría ferð til Tenerife. Inni í þessu er innifalið flug báðar leiðir, hótelgisting í sjö nætur, akstur til og frá flugvelli, einka skoðunarferð um eyjuna, hvalaskoðunarferð og svifflug.
Til að komast í pottinn þurfi fólk að sækja um lán hjá NúNú á tímabilinu 24. febrúar til 25. maí á þessu ári og ganga úr skugga um að lánið sé í skilum fyrir 30. júní. Vinningshafinn verður svo dreginn út 1. júlí.
„Ekki láta þetta tækifæri renna úr greipum, hættu að þykjast, sæktu um lán og byrjaðu að pakka í ferðatöskuna,“ segir í auglýsingunni.
Neytendasamtökin hafa kallað eftir því og sent erindi á atvinnuvegaráðuneytið þess efnis að sett verði lög þar sem bann verði lagt við auglýsingum dýrra neyslulána. Það er ef lán beri háa vexti megi ekki auglýsa þau. Sambærileg lög hafi dönsk stjórnvöld sett.
„Neytendasamtökin telja þessar dönsku reglur um markaðssetningarhömlur til eftirbreytni, enda megi skilgreina dýr neytendalán/smálán líkt og aðrar vörur sem geta haft skaðleg áhrif á líf fólks. Markaðssetning smálána og annarra dýrra neytendalána er þess utan oft mjög aðgangshörð eins og hefur einnig sýnt sig hér á landi. Samtökin skora á stjórnvöld að fara að dæmi Dana og tryggja ríka neytendavernd á neytendalánamarkaði,“ segir á heimasíðu samtakanna.
„Það ætti klárlega við í þessu tilviki,“ segir Brynhildur um þessa tilteknu Tenerife auglýsingu. „Við ráðleggjum engum að vera að taka þessi dýru neyslulán. Að vera að taka lán hjá NúNú til þess að geta hugsanlega unnið einhverja ferð. Ef þú þarft að taka lán hjá NúNú þá hefur þú örugglega ekki efni á að vera þarna úti.“