Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hefur fram að þessu að mestu leyti getað glaðst yfir orðum og aðgerðum Trump varðandi stríðið í Úkraínu því ekki er annað að sjá en Trump hafi að ákveðnu leyti tekið sér stöðu með Rússlandi.
En Kínverjar hafa einnig ástæðu til að gleðjast því óhætt er að segja að staða þeirra hafi styrkst eftir valdatöku Trump.
„Núna sjáum við þverrandi völd Bandaríkjanna og heimsskipunarinnar undir bandarískri forystu. Xi Jinping, forseti Kína, hefur ástæðu til að brosa yfir því sem er að gerast,“ sagði Camilla Tenna Nyrup Sørensen, sérfræðingur í kínverskum málefnum og lektor við danska varnarmálaskólann, í samtali við B.T.
Hún sagði að Kínverjar leggi nú mikið á sig til að láta líta út fyrir að þeir séu hið ábyrga stórveldi sem tryggi stöðugleika og þetta smellpassi fyrir uppgjör Kínverja gegn bandarískum áhrifum.
Óhætt er að segja að staða öryggismála í heiminum sé í uppnámi vegna aðgerða og orða Trump. Evrópa og Bandaríkin deila, Bandaríkin daðra við Rússland og grafa undan Úkraínu, hóta að taka Grænland og Panamaskurðinn með valdi ef þörf krefur en reyna um leið að halda aftur af Kínverjum á Kyrrahafssvæðinu.
Óöryggið og ringulreiðin sem Trump skapar, urðu til þess að í síðustu viku tjáði Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sig um stöðu mála og hljómaði hann einna helst eins og bandarískir utanríkisráðherrar á eftirstríðsárunum.
Hann sagði að ef ríki heims leggi áherslu á eigin þjóðhagslega hagsmuni og trúi á styrk sinn og stöðu, þá taki frumskógarlögmálin aftur völdin og lítil og veikburða ríki muni gjalda fyrir það. Einnig muni alþjóðlegar reglur og heimsskipanin verða fyrir alvarlegum áhrifum. „Stórveldi eiga að takast á við alþjóðlegar skuldbindingar og standa undir ábyrgð sinni sem stórveldi. Þau eiga ekki að vera hagnaðardrifin og þau eiga ekki að níðast á hinum veikari,“ sagði hann.
Sørensen sagði að þetta falli vel að þeirri taktík sem Kínverjar hafa haldið sig við um langa hríð. Wang Yi hafi tekið þátt í öryggisráðstefnunni í München í febrúar og þar hafi hann lagt áherslu á það við evrópska leiðtoga að Kína standi við alþjóðlega samninga og dragi sig ekki skyndilega út úr til dæmis loftslagssamningnum eins og Trump gerði.
Hún benti á að Kínverjar séu í vanda vegna stöðu efnahagsmála og tollastríð muni hafa áhrif á þá og þjóni ekki hagsmunum þeirra. Það þjóni heldur ekki hagsmunum þeirra að samband Bandaríkjanna og Rússlands verði of gott. En þetta breyti því ekki að heildarmyndin sé Kínverjum hagstæð.
Hvað varðar málefni Taívan, sem Xi Jinping dreymir blauta drauma um að geta innlimað í Kína, þá er staða mála nú hagstæð Kínverjum. Bandaríkin hafa fram að þessu verndað Taívan, ekki með opinberri öryggistryggingu, heldur með því að Kínverjar hafa ekki vitað hvernig Bandaríkin muni bregðast við ef þeir ráðast á Taívan. Ef Trump sáir efasemdum um stuðninginn við Taívan, þá er Xi Jinping kominn einu skrefi nær því að geta látið draum sinn um „sameiningu“ rætast því Taívan er algjörlega háð diplómatískum og hernaðarlegum stuðningi frá Bandaríkjunum.