Landsréttur dæmdi í dag Guðmund Elís Briem Sigurvinsson í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun sem hann framdi í Vestmannaeyjum í september árið 2021.
Guðmundur Elís sem er 25 ára hefur ítrekað komist í kast við lögin og í umfjöllun fjölmiðla vegna grófra ofbeldisbrota.
Dóminn má lesa hér.
Nauðgunina framdi Guðmundur Elís 3. september árið 2021. Þá var hann á skilorði vegna dóms sem hann hlaut fyrir dóms sem hann hlaut fyrir líkamsárás gegn þáverandi kærustu sinni, Kamillu Ívarsdóttur. Kamilla steig fram í viðtölum, ásamt móður sinni, þar sem hún greindi frá árásinni og sambandi hennar og Guðmundar.
Guðmundur Elís var á sjó og kom til lands í Eyjum degi fyrir nauðgunina sem hann hlaut dóm fyrir í dag. Málsatvik eru rakin í dómi héraðsdóms Reykjavík sem féll 5. Júní í fyrra. Brotaþoli og vinkona hennar hittu Guðmund Elís og skipsfélaga hans á bar og eftir lokun héldu fjórmenningarnir heim til brotaþola. Þau hefðu setið saman í sófa að kyssast og síðan ákveðið að í svefnherbergi til að hafa samfarir. Brotaþoli sagði Guðmund Elís hafa byrjað að vera „fullgrófur“ og hún beðið hann að róa sig en hann slegið hana með flötum lófa fjórum til fimm sinnum utan undir og sagt henni að hún væri hans.
Sagðist hún hafa beðið Guðmund Elís að hætta samförunum og ofbeldinu og hefði hann þá tekið hana hálstaki með hægri hendi svo hún komst ekki burt frá honum. Hann hefði ekki leyft henni að fara á klósettið og hún síðan hlaupið nakin upp stigann og inn í herbergi vinkonunnar sem hefði komið þangað inn og klætt hana í föt. Í kjölfarið hringdu þær í móður vinkonunnar sem skutlaði þeim á lögreglustöð.
Sjá einnig: Guðmundur Elís dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun í Vestmannaeyjum
Árið 2020 var Guðmundur Elís dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir ofbeldið gegn Kamillu og annarri fyrrverandi kærustu sinni. Síðasta árás Guðmundar Elís á Kamillu var á 19 ára afmælisdaginn hennar. DV greindi frá sögu hennar haustið 2022 og þar segir m.a.:
„Frá fjórtán ára aldri þurfti hún að þola gróft ofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta síns. Þegar hún var sautján ára réðst hann svo hrottalega á hana að málið var rannsakað í fyrstu sem tilraun til manndráps. Hún hefur kært hann fyrir nokkrar árásir og á enn eftir að dæma í sumum málunum. Kamilla steig hugrökk fram á sínum tíma og vöktu myndir af áverkum og saga hennar óhug hjá þjóðinni.
Í október voru þrjú ár liðin frá árásinni og segist Kamilla vera þakklát fyrir á hvaða stað hún er komin á í dag en segir að dagar hennar einkennist þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og hræðslu. Hún er með sterkt stuðningsnet og telur sig mjög heppna með fólkið í kringum hana, sérstaklega fjölskylduna.
Í samtali við DV segir Kamilla að hún sé að bíða eftir að komast í endurhæfingu og að dagamunur sé á líðan hennar. „Það er allt svona upp og niður hjá mér. Það er rosalega erfitt að gera plön því ég veit ekki hvernig ég verð. Svo er hann að fara að losna úr fangelsi í næsta mánuði,“ segir hún.
Guðmundur Elís hótaði einnig að drepa fjölskyldu hennar.
Eftir ábendingu um að stúlkan gæti verið um borð hjá Guðmundi Elís barst beiðni frá lögreglu um að bátnum yrði snúið til hafnar aftur og var orðið við þeirri beiðni. Viðurkenndi Guðmundur Elís að vinkona hans væri um borð og sagði skipstjórinn stúlkunni að hringja strax í foreldra sína. Var Guðmundur Elís í brúnni ásamt skipstjóra þar til báturinn kom til hafnar í Reykjanesbæ. Þar biðu tveir lögreglubílar og var Guðmundur Elís handtekinn og stúlkunni komið í öruggar hendur.
Guðmundur Elís losnaði úr fangelsi í nóvember 2022 vegna dómsins fyrir ofbeldið gegn Kamillu og hinni fyrrverandi kærustu sinni.
Í júní 2021 gekk myndband um netheima sem tekið var upp á Ingólfstorgi í lok maí. Í því má sjá breskan ferðamann og Guðmund Elís í slagsmálum. Fjöldi vitna var að slagsmálunum þar sem Guðmundur Elís átti í vök að verjast en enginn hringdi á lögregluna. Ung kona tengdist aðdraganda slagsmálanna og sagðist hún hafa orðið fyrir áreiti af hendi Guðmundar Elís, bretinn hefði komið henni til bjargar. Sagði hún að Guðmundur Elís hafi virst undir sterkum áhrifum vímuefna þetta kvöld. Fjölmargar ungar stúlkur í miðbænum báru kennsl á hann og þeim stóð ógn af nærveru hans. Lesa má nánar um þetta mál hér fyrir neðan.