Harðar deilur geysa nú meðal stjórnarmanna í Félagi húseigenda á Spáni (FHS) en það er hagsmunafélag Íslendinga sem eiga fasteignir þar syðra. Kona sem kjörin var í stjórn félagsins á aðalfundi þess sem haldin var í Reykjavík síðatliðinn laugardag hefur sagt sig úr stjórninni vegna deilna við nýkjörinn formann, Má Elísson, sem hún sakar um dónalega framkomu.
Amanda Sunneva Joensen greinir frá úrsögn sinni í færslu í Facebook-hópi Íslendinga á Spáni. Hún nefnir Má ekki á nafn í færslunni en við skoðun á heimasíðu félagsins kemur fljótt í ljós við hvern er átt í færslunni.
Hún segir að markmiðið með framboði hennar hafi verið að bæta starf félagsins en hún hafi komist að niðurstöðu um að það sé ekki hægt undir formennsku Más sem hefur gengt stöðu öryggis- og þjónustufulltrúa félagsins á Spáni en Amanda vill meina að hann hafi verið umdeildur meðal félagsmanna:
„Því miður sé ég fyrir mér að félagið muni halda áfram á sinni niðurleið, ekki síst eftir að umdeildur öryggis- og þjónustufulltrúi FHS hefur verið kosinn formaður félagsins.“
Amanda útskýrir því næst hvað hún á við með því að kalla Má umdeildan og greinir frá því hvað hún sé mest ósátt við í hans fari:
„Ég segi umdeildur, því ég veit um marga sem hafa verið ósáttir við hans frammistöðu og ekki síst dónalega framkomu hans við fólk, sem honum virðist hafa legið vel við höggi. Má nefna hvernig hann hefur talað niður til viðmælenda á kommentakerfum og fundið hjá sér óskiljanlega þörf til að tala niður starfsemi Íslendinga á svæðinu á sama vettvangi.
Svo má segja frá því að „virðulegur“ öryggis- og þjónustufulltrúi FHS hefur verið að mæta í „kirkjuna“ (bar í Las Mimosas) og sagt hróðugur ýmsar „skemmtisögur“ af einkamálum fólks, sem hafa leitað til hans. Sé þetta ekki vítaverð hegðun og fullkomin brottrekstrarsök, þá sé ég ekki nein takmörk fyrir því hvað fulltrúinn muni komast upp með án þess að andað verði í áttina til hans.“
Sakar hún sömuleiðis Má um að hafa sýnt af sér dónaskap í hennar garð í aðdraganda stjórnarkjörsins á aðalfundi félagsins.
Amanda segir það óeðlilegt að Már ætli sér að gegna stöðu öryggis- og þjónustufulltrúa áfram samhliða formennskunni. Segir að spurningum á aðalfundinum um hvernig það gangi t.d. upp ef að félagsmenn vilji kvarta við formanninn yfir frammistöðu öryggis- og þjónustufulltrúans hafi ekki verið svarað:
„Það virðist ekki ganga innan elítunnar að fólk með „rangar“ skoðanir fái of mikla athygli. Þetta eru, að mínu mati, í besta falli hlægileg vinnubrögð.“
Amanda endar færslu sína á því að óska eftir að vera afskráð úr félaginu samhliða úrsögn sinni úr stjórninni.
Í athugasemdum fær færslan misjafnar undirtektir. Sumir segjast aldrei hafa fengið annað en toppþjónustu hjá félaginu á meðan aðrir taka undir gagnrýni Amöndu og segja félagið hafa verið á niðurleið undanfarin ár. Enn aðrir telja þessar deilur innan stjórnarinnar lýsandi dæmi fyrir sífelld rifrildi meðal Íslendinga:
„Ja hérna, Íslendingar hér og Íslendingar þar, þetta er ömurlegt. Skítkast hægri, vinstri. Verði ykkur að góðu.“