Karl Héðinn Kristjánsson, fræðslu- og félagsmálafulltrúi hjá Eflingu, hefur sagt sig úr kosningastjórn Sósíalistaflokksins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Karl Héðinn birti á Facebook fyrir stundu. Þar segist hann ekki lengur geta starfað forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðhaldi óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin.
Beinir Karl Héðinn, sem skipaði í 2. sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík suður í síðustu Alþingiskosningum og er auk þess forseti ungra Sósíalista, sérstaklega spjótum sínum að Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdastjórnar flokksins. Rétt er að geta þess að Gunnar Smári hefur þegar brugðist við ásökunum Karls Héðins með því að boða til opins fundar í kvöld þar sem málið verður rætt.
„Ég hef í mörg ár unnið af heilindum að því að byggja upp sterkan, lýðræðislegan og grasrótardrifinn flokk. Því miður hef ég í staðinn upplifað útskúfun fyrir að segja sannleikann um ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot formanns framkvæmdastjórnar, Gunnars Smára Egilssonar. Þeir sem verja hann hvað sem á dynur hafa tekið þátt í þeirri útskúfun – jafnvel á meðan þeir segjast styðja þolendur og berjast gegn ofbeldi. Ég er ekki einn um þessa upplifun og veit því miður um þó nokkur dæmi þar sem öflugir félagar fælast frá starfi vegna sambærilegra upplifanna,“ skrifar Karl Héðinn.
Hann segist hafa fengið nóg eftir fjölmennan fund Sósíalista um helgina þar sem farið var í uppgjörsvinnu á síðustu Alþingiskosningum en þar mistókst Sósíalistaflokknum að ná manni inn á þing en alls fékk flokkurinn 3,4% á landsvísu.
Segir Karl að vinnan um helgina hafi gengið frábærlega og að mikill samhljómur hafi verið meðal þátttakenda um til að mynda aukið gagnsæi og lýðræði í flokknum, valdeflingu landsbyggðarinnar og endurskoðun nýtingar fjármuna.
Viðbrögðin hafi hins vegar valdið Karli Héðni miklum vonbrigðum.
„Í stað þess að vinna raunverulega með þessa vinnu ákvað lítill valdakjarni innan framkvæmdastjórnar að hunsa þessa niðurstöðu og boða til sameiginlegs fundar stjórna um niðurstöðu netkönnunar sem túlkuð var þannig að „allt væri í lagi.“ Gagnrýni var afskrifuð sem fáfræði og niðurrifsstarfsemi, og enn á ný var reynt að þagga niður í þeim sem vilja bæta flokkinn undir formerkjum þess að þeir sem gagnrýni séu fáfróðir eða hreinlega illa innrættir. Ég tek fram að á vinnuhelginni kom fram sú hugmynd að gott væri að flokkurinn gerði tíðari skoðanakannanir á meðal félagsmanna en þær verður að hanna vísindalega svo þær mæli raunverulega það sem við viljum mæla. Og að hunsa vinnu virkrar grasrótar, stjórnarmanna og frambjóðenda úr Alþingiskosningunum á þennan máta eru ömurleg vinnubrögð.“
„Þess í stað hefur hann, með dyggri aðstoð þeirra sem standa honum næst, haldið áfram að úthýsa gagnrýnisröddum og gaslýsa þá sem kalla eftir eðlilegri endurskoðun á störfum hans.
Tvö félög, Alþýðufélagið og Vorstjarnan, fá samanlagt nær öll framlög flokksins – en hvorugt þeirra starfar eftir opnum og lýðræðislegum reglum. Alþýðufélagið, sem á og rekur Samstöðina, er í raun einkafélag Gunnars Smára. Stjórn þess er sýndarstjórn, engir félagsfundir eru haldnir, og engin leið er fyrir almenna félagsmenn að hafa áhrif á starfsemi þess.
Mig langar sérstaklega að taka fram að ég lagði mig allan fram við að byggja upp Samstöðina. Ég vann óteljandi klukkutíma í sjálfboðaliðavinnu og geri enn að töluverðu leyti. Ég byggði upp stúdíóið ásamt nokkrum sjálfboðaliðum, sinnti fréttaskrifum, dagskrárgerð og tæknimálum. Ég vann iðulega 10 tíma á dag og oft um helgar. Þrátt fyrir það neitaði Gunnar Smári að greiða mér umsamin (og mjög lág) laun síðla sumars 2023 með þeim rökum að ég væri ekki að skila af mér þremur fréttum á dag. Ég hætti í kjölfar þess og reyndi að bjóða mig fram í stjórn Alþýðufélagsins en var einfaldlega bannað það. Það eru óásættanleg vinnubrögð innan sósíalískrar fjöldahreyfingar,“ skrifar Karl Héðinn.
Þá segir Karl Héðinn að þegar spurt sé um fjármál flokksins á stjórnarfundum sé umræðunni lokað með þeim rökum að þetta sé ekki rétti vettvangurinn og óljóst sé hvar hann sé að finna.
„Ég vil láta félaga vita að ég er ekki að gefast upp á Sósíalistaflokknum heldur mun ég áfram vinna með ungliðadeildinni og að skipulagi félagsstarfsins fram að aðalfundi þar sem ég og fleiri félagar munum beita okkur fyrir breytingum á flokksstarfinu sem stuðla að þroskun hreyfingarinnar og lýðræðislegum umbótum, og verða þær tillögur mjög í samræmi við niðurstöður vinnuhelgarinnar. Ég kalla einnig eftir fleiri félagsfundum fram að aðalfundi þar sem breytingartillögur eru ræddar málefnalega og lýðræðislega. Ef forysta flokksins vill ekki gera slíkt höfum við í Ungum Sósíalistum ákveðið að bjóða félögum í slíka vinnu með okkur,“ skrifar Karl Héðinn og leggur síðan til ákveðnar lykilbreytingar sem hann vill vinna að.
Eins og áður segir hefur Gunnar Smári brugðist við gagnrýni Karls Héðins með því að boða til opins fundar.