Maður var var þann 10. mars sakfelldur fyrir húsbrot og skemmdarverk. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands.
Ákærði var sakaður um að hafa ruðst í heimildarleysi inn í verkstæðisskemmu á heimili fyrrverandi eiginkonu hans og barnsmóður. Skemmdi hann hluti þar inni, ísskáp, hleðslutæki fyrir lyftara, startara fyrir rafgeyma, borðsög, stjórnbox fyrir bílalyftu, réttskeið, hamar og bíl sem stóð inni í skemmunni til uppgerðar, nánar tiltekið höfuðdælu, lagnir frá dælu í hjól, vökvaforðabúr stýrisdælu, bretti og lofthreinsara. Hann velti um hillum í skemmunni en í hillunum voru ílát með skrúfum og smáhlutum sem höfðu verið flokkaðir eftir stærð og gerð.
Hann var ennfremur sakaður um að hafa brotið rúðu í útidyrahurð og svefnberbergi á íbúðarhúsi eiginkonunnar fyrrverandi. Auk þess braut hann afturrúðu í bílnum hennar.
Í málsatvikakafla dómsins greinir frá aðkomu lögreglu og þar segir meðal annars:
„Lögregla fór með [A…] um svæðið þar sem hún sýndi þeim ummerki um skemmdir. Innan útihússins, sem er verkstæðishús, var allt á öðrum endanum, verkfærum, skápum, hillum og borðsög hafði verið umturnað, ísskápur brotinn, hlutir í Range Rover fornbifreið skemmdir og annað tjón. [A…] kvaðst hafa skoðað öryggismyndavélar og séð [X…] koma að svæðinu og ganga þar um.“
Hjónin fyrrverandi höfðu lengi átt í deilum, meðal annars um börnin. Sýndi maðurinn ofsafengna hegðun í þeim deilum.
Konan krafði manninn um rúmlega hálfa milljón króna í skaðabætur vegna skemmdanna. Dómari taldi kröfuna hins vegar vanreifaða og vísaði henni frá.
Maðurinn fékk 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir húsbrot og skemmdarverk.
Dóminn má lesa hér.