Eins og komið hefur fram í fréttum DV af láti manns á sjötugsaldri frá Þorlákshöfn, sem fannst þungt haldinn í Gufunesi í gærmorgun og lést á sjúkrahúsi skömmu síðar, var honum misþyrmt eftir að hann neitaði að millifæra fé á árásarmennina.
DV hefur síðan fengið upplýsingar um að maðurinn millifærði, eða lét millifæra, á mennina í kringum þrjár milljónir króna áður en misþyrmingunum lauk.
Miklir áverkar voru á manninum eftir barsmíðar, spörk og traðk. Átta voru handtekin í gær í þágu rannsóknar málsins en þrjú hafa verið látin laus. Einn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. mars, en það er sá sem var fyrstur handtekinn vegna rannsóknar málsins. Búast má við fleiri gæsluvarðhaldsúrskurðum á morgun.
DV hefur eftir staðfestum heimildum að málið tengist tálbeituhópum sem herjað hafa á menn sem hafa sýnt vilja til að komast í kynni við stúlkur undir lögaldri. Ekkert liggur þó fyrir um slíkt athæfi af hálfu hins látna. Mannlíf greindi frá því að hinn látni hefði glímt við framheilabilun og hefur DV einnig fengið það staðfest eftir öðrum heimildum.
Vísir greinir frá því annar maður hafi verið leiddur fyrir dómara og krafist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir honum. Samkvæmt Bylgjunni vill lögregla einnig gæsluvarðhald yfir þriðja manninum. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort þessar kröfur um gæsluvarðhald verða samþykktar af Héraðsdómi Suðurlands.