Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, birtir yfirlit yfir bankareikning spilafíkils og sýnir svart á hvítu hvernig fé hans kláraðist á stuttum tíma. Ögmundur beinir spjótum sínum að Háskóla Íslands, sem kemur að rekstri spilakassanna í gegnum HHÍ.
„Taflan sýnir hvernig æðsta menntastofnun þjóðarinnar, Háskóli Íslands, hafði eina milljón og sextíu þúsund krónur af ”viðskiptavini” í spilavítum sínum á tveimur sólarhringum,“ segir Ögmundur í grein á Vísi og birtir yfirlitið sem er frá 11. og 12. Júlí árið 2017.
Sjást þar 29 úttektir, upp á samanlagt 1.060.000 krónur sem eytt var á spilakassastöðum. Það er Catalinu, Videomarkaðinum og Háspennu. Nokkrir tugir þúsunda króna í hvert skipti.
Ögmundur bendir á að þetta sé átta ára gamalt yfirlit. Miðað við verðlagsþróun eru upphæðirnar í raun nokkuð hærri. Það er heildarupphæðin væri 1.535.060 krónur á verðlagi dagsins í dag.
„Þetta fórnarlamb Háskólans var mætt að morgni dags 11. júlí kukkan 9: 21 og spilar strax frá sér 30 þúsund krónum. Fer til afgreiðslumanns og fær tekið út af korti sínu átta mínútum síðar og spilar þá enn frá sér 30 þúsund krónum, næst er það 25 þúsund krónur og síðan koll af kolli,“ segir Ögmundur. „Um kvöldið er spilafíkillinn búinn að koma víða við í stuðningi sínum við Háskólann og er nú kominn í sal Háspennu og spilar þar frá sér 50 þúsund krónum klukkan 20:54, tveimur tímum seinna fjúka 40 þúsud til viðbótar. Þegar yfir lauk var allt féð uppurið – því aldrei er hætt fyrr en svo er – 1.060.000 kr. horfnar.“
Þetta segir Ögmundur að hafi komið fram í erindi Ölmu Hafsteins, formanns Samtaka áhugafólks um spilafíkn, á hádegisfundi samtakanna í sal Þjóðminjasafnsins í byrjun viku. Var það í tengslum við kjör rektors Háskóla Íslands, sem fram fer 18. og 19. mars næstkomandi.
Á fundinum töluðu ýmsir sérfræðingar, Heather Wardle fræðimaður í Glasgow háskóla, Lenya Rún lögfræðingur sem vildi sem meðlimur Stúdentaráðs loka spilakössum og Kristján Jónasson, stærðfræðingur og kennari við HÍ sem stýrði fundinum.
„Hafi ég einhvern tímann verið sannfærður um að rekstraraðilum fjárhættuspilakassa skuli gert að loka þeim þegar í stað þá var það nú,“ segir Ögmundur.
Sjö frambjóðendur hafa boðið sig fram í rektorskjörinu. En Ögmundur segir að aðeins einn þeirra hafi mætt á fundinn, Magnús Karl Magnússon sem tók til máls. Nefnir hann hins vegar að einhverjir hafi boðað forföll af óviðráðanlegum ástæðum.
„Samtök áhugafólks um spilafíkn boðuðu á fundinum að allir frambjóðenda til rektors yrðu spurðir um afstöðu sína til fjárhættuspilareksturs háskólans. Skildist mér að farið yrði fram á afdráttarlaus svör,“ segir Ögmundur að lokum. „Sem upphitun mættu þeir horfa á bankayfirlitið að ofan. Varla þarf frekari orð. Þó hefur þetta legið ljóst fyrir í rúm þrjátíu ár. En gæti verið að nú yrðu kaflaskil?“