Sex eru í haldi lögreglunnar vegna andláts karlmanns snemma í morgun. Áverkar á hinum látna benda til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Sjá einnig: Manndrápsmálið:Hinn látni var karlmaður á sextugsaldri – Líkið fannst í Gufuneskirkjugarði
Í tilkynningu frá lögreglunni fyrr í dag kom fram fimm væru í haldi lögreglunnar vegna málsins.
Sá sjötti var handtekinn í aðgerðum lögreglunnar í Kópavogi síðdegis eftir umfangsmikla eftirför í Kópavogi og Garðabæ. Afskipti voru höfð af bíl við umferðareftirlit í Lindahverfi, en stöðvunarmerkjum lögreglu var ekki sinnt svo lögregla hóf eftirför.
Eftirförinni lauk við Hrauntungu. Tveir einstaklingar voru í bílnum og hlupu á brott undan lögreglu. Karlmaður var handtekinn, en leitað er að konunni sem var í bílnum.
Sérsveitin er komin til aðstoðar við lögregluna í Kópavogi.
Vísir greinir frá að fréttastofu hafi borist ábendingar um lögregluaðgerð við Víghólastíg í Kópavogi.
Uppfært kl. 19.14
RÚV segir hin handteknu vera ungmenni en yfir 18 ára aldri.