Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrum Hæstaréttardómari, telur heppilegt að dómurum við Hæstarétt fækki úr sjö í fimm og gagnrýnir Benedikt Bogason, forseta Hæstaréttar harðlega fyrir að berjast gegn hugmyndum um slíka hagræðingu. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem birtist á Eyjunni í morgun.
Í greininni fjallar Jón Steinar um tillögur ríkissstjórnarinnar um að hagræða í ríkisrekstri en ein af þeim hugmyndum var að fækka Hæstaréttardómurum úr sjö talsins í fimm. Hugmyndirnar hafa mætt mikilli mótsstöðu frá Benedikt og kollegum hans og hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, þegar slegið hugmyndina út af borðinu með afgerandi hætti.
Ástæðan er það sjónarmið, sem Benedikt hefur bent á, að Hæstaréttardómarar er aldrei færri en fimm í málum sem tekin eru fyrir og í stærstu málunum eru þeir sjö talsins. Það myndi þýða að kalla þyrfti til varaskeifur reglulega með ærnum tilkostnaði auk þess sem dómarar eru reglulega vanhæfir út af einhverskonar tengslum sem einnig myndi þýða að kalla þyrfti til varamenn.
Jón Steinar gefur lítið fyrir þessi sjónarmið í grein sinni og kallar þau í raun „forkastanleg.“
Bendir Jón Steinar á að þegar Landsréttur var stofnaður árið 2018 hafi staðið til að dómarar yrðu fimm talsins en Hæstaréttardómarar hefðu náð því í gegn að þeir yrðu sjö talsins.
„Sýnt hefur verið fram á að eftir stofnun Landsréttar minnkaði starfsálag á hvern dómara Hæstaréttar niður í 20-25% af því sem verið hafði. Hafa á þessu tímabili verið kveðnir upp dómar í 30-60 málum á ári eða allt niður í fjórðung þess málafjölda sem dæmdur var meðan dómararnir voru fimm talsins fyrir árið 1972,“ skrifar Jón Steinar.
Hann beinir svo spjótum sínum að Benedikt sem hefur látið duglega í sér í heyra í fjölmiðlum vegna málsins.
„Forseti Hæstaréttar hefur verið stóryrtur um fyrirætlanirnar nú um fækkun dómaranna. Hefur hann þá m.a. staðhæft að ekki megi fækka dómurunum því þá muni þurfa að kalla til varadómara í of mörgum málum. Virðist hann telja það óheppilegt því það ógni samræmi í dómum. Varadómarar hafa nýst í marga áratugi og verður ekki séð að þeir hafi spillt fyrir störfum réttarins. En í tilefni af stóryrðum forsetans skal þess getið, að fram kemur í ársskýrslum réttarins eftir breytinguna 2018, að árlega hafa verið kvaddir fjölmargir varadómarar til starfa, þrátt fyrir að sjö dómarar hafi átt sæti í réttinum þennan tíma. Þetta er mikið og virðist forsetinn ekki óttast það. Þannig voru varadómarar 16 talsins árið 2023 og álíka margir árin á undan, en á þessum árum hefur málafjöldinn verið 30-60 mál eins og áður sagði. Þetta er því bara fyrirsláttur hjá forsetanum sem sýnir ekki annað en ákafa hans í að andmæla hugmyndunum um að fækka dómurum réttarins í fimm. Hann vill greinilega halda áfram að búa svo um hnútana að dómararnir hafi það náðugt og þá rúman tíma til að sinna öðru en dómsstörfunum við réttinn. Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið. Dómararnir eiga auðvitað að vera í fullu starfi, eins og verið hefur gegnum tíðina,“ skrifar Jón Steinar.
Hann lýsir einnig vonbrigðum sínum með afstöðu Þorbjargar Sigríðar.
„Af yfirlýsingu dómsmálaráðherrans virðist mega ráða að ríkisstjórnin hafi ekki mikinn áhuga á að spara ríkisútgjöld eins og lofað var við stofnun hennar. Almenningur ætti því að hverfa frá fyrirætlunum um fagnaðarlæti. Þetta hefur sýnilega bara verið fagurgali sem engu máli mun skipta í reynd. Íslendingar kannast við slíkt hátterni stjórnmálamanna sem vilja fegra ásýnd sína,“ skrifar lögmaðurinn.