Sakborningur í hinu alræmda Bátavogsmáli, Dagbjört Rúnarsdóttir, er samkvæmt heimildum DV komin í opið fangelsi að Sogni eftir að hafa afplánað 15 mánuði af 16 ára fangelsidsómi sem hún hlaut fyrir að pynta sambýling sinn til dauða að heimili þeirra í Bátavogi, árið 2023.
Samfangar Dagbjartar á kvennadeildinni á Hólmsheiði, sumar hverjar, eru ósáttar við þetta og benda á að þetta sé ósanngjarnt gagnvart ættingjum mannsins sem Dagbjört murkaði lífið úr. Sjaldgæft er, ef ekki einsdæmi, að fangar sem dæmdir hafa verið fyrir svo alvarlegt brot fari jafnsnemma í opið fangelsi. Algengt viðmið er að fangar með langa dóma afpláni að minnsta kosti fjögur ár í lokuðu fangelsi.
Ennfremur bendir glæpur Dagbjartar í Bátavogi til þess að hún geti verið hættuleg öðrum en ljóst er að yfirvöld og viðkomandi sérfræðingar hafa metið hana ekki hættulega miðað við þessa niðurstöðu.
Engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið Sogn en þar er hægt að vista 20 fanga. Lögð er áhersla á að fangar hagi sér á ábyrgan hátt og beri virðingu fyrir reglum fangelsisins.
Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, var til almennra svara við fyrirspurn DV um málið. Í svari hans kemur fram að horft er til ýmissa þátta þegar ákveðið er að vista fanga í opnu úrræði, m.a. að viðkomandi fangar séu færir um að afplána í slíku úrræði, að þeir stundi vinnu eða nám og séu reiðubúnir að taka virkan þátt í starfsemi fangelsisins.
Birgir bendir jafnframt á að Hólmsheiði sé ekki hentugt fyrir langtímavistun en aðeins tvö fangelsi með kvennaálmu eru á Íslandi, Hólmsheiði og Sogn. Svarið er eftirfarandi:
„Í upphafi er rétt að taka fram að sömu sjónarmið kunna að eiga við um vistun fanga, hvort heldur sem viðkomandi afplánar refsidóm eða sætir gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna sem staðið hefur um einhvern tíma. Þá er einnig rétt að taka fram að Fangelsismálastofnun hefur ekki eins fjölbreytt úrræði þegar kemur að vistun kvenna eins og karla, núverandi húsakostur leyfir ekki slíkt.
Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga ákveður Fangelsismálastofnun í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Við ákvörðunina skal m.a. taka tillit til aldurs, kynferðis, kynvitundar, búsetu og brotaferils fanga og þyngdar refsingar auk þeirra sjónarmiða sem gilda um vistun í hverju fangelsi fyrir sig.
Fjögur fangelsi eru á Íslandi; Hólmsheiði, Litla-Hraun, Sogn og Kvíabryggja. Hin tvö fyrrnefndu eru lokuð fangelsi en hin tvö síðarnefndu opin fangelsi. Hvort tveggja eru fangelsi.
Allir fangar hefja afplánun á Hólmsheiði. Fangelsið er aðallega nýtt sem gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga en þar er einnig deild fyrir kvenfanga. Fangelsið er ekki hentugt fyrir langtímavistun, hvorki fyrir konur né karla og því er mikilvægt að geta boðið upp á fleiri vistunarmöguleika. Karlar geta þannig jafnframt vistast á Litla-Hrauni, á Kvíabryggju og á Sogni en einungis er hægt að vista konur á Sogni auk Hólmsheiðar.
Við val á því hvaða fangar vistast í opnum fangelsum er m.a. horft til þess að þeir séu færir um að afplána við þær aðstæður sem þar eru, að þeir stundi vinnu eða nám og séu reiðubúnir til að taka virkan þátt í starfsemi fangelsisins. Ekki er kveðið á um hámarksrefsingu þeirra sem mega vistast í opnum fangelsum en að jafnaði kemur vistun í opnum fangelsum ekki til greina fyrir þá sem hafa verið dæmdir til styttri refsinga þar sem pláss í opnum fangelsum eru af skornum skammti og áhersla er lögð á að langtímafangar eigi kost á að vistast þar.
Eitt meginmarkmið laga um fullnustu refsinga er að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu. Þekkt er að löng fangelsisvist geti haft neikvæðar afleiðingar í för með sér en eitt af meginhlutverkum fangelsisyfirvalda er að sporna gegn því. Er kveðið á um ýmis úrræði í fullnustulögum í því skyni, s.s. vistun í opnum fangelsum þar sem vitað er að slíkt umhverfi er líklegra til að hafa jákvæð áhrif á menn en vistun í lokuðum fangelsum og þar með líklegra til að draga úr ítrekun brota.“
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, er sáttur við þessa ákvörðun Fangelsismálastofnunar. Segir hann Afstöðu styðja við að konur í afplánun njóti allra þeirra tækifæri sem þeim bjóðist enda eigi konur undir högg að sækja í fangelsum:
„Hvert mál er skoðað fyrir sig en miðað við að fólk sé ekki lengur en fjögur ár í opnu fangelsi áður en það fer í önnur úrræði eins og Vernd og ökklaband. Það geta verið margar ástæður fyrir flutningi í opið úrræði en við vitum t.d. að konur í lokuðu fangelsi búa við margskonar mismunun og erfiðleika miðað við karlmenn og er það staðfest í öllum skýrslum sem gefnar hafa verið út af eftirlitsaðilum eins og CPT nefndinni, Amnesty International, Umboðsmanni Alþingis, Afstöðu og Ríkisendurskoðun.
Við styðjum því alla möguleika á því að konur í afplánun fái öll tækifæri sem hægt er að bjóða þeim í afplánun á meðan slík mismunun er í gangi hjá stjórnvöldum. Ef við tökum þetta tilfelli sem þú ræðir um þá er Fangelsismálastofnun klárlega að huga að því sem er best fyrir samfélagið í heild en það er að endurhæfa og koma í veg fyrir frekari glæpi og þar af leiðandi að fækka þolendum í framtíðinni. Þetta er sem sagt gott mál á allan hátt að mínu mati þrátt fyrir að það geti farið fyrir brjóstið á einhverjum.“
Héraðsdómur sakfelldi Dagbjörtu fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða og dæmdi hana í tíu ára fangelsi. Málinu var áfrýjað til Landsréttir sem felldi brot hennar undir ákvæði um manndráp og þyngdi dóminn upp í 16 ár.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má sjá hér.