Valdimar skrifar grein í Morgunblaðið í dag, undir yfirskriftinni Hvað gerði Gísli Guðjónsson fyrir rannsókn Geirfinnsmálsins? þar sem hann viðrar þessa áskorun sína. Vísar hann meðal annars til umfjöllunar um Gísla á mbl.is þann 16. febrúar síðastliðnum þar sem komið var inn á Geirfinnsmálið. Í grein sinni segir Valdimar:
„Hinn 16. febrúar síðastliðinn birtist grein á mbl.is um Gísla Guðjónsson. Þar fór hann í gegnum mál sem hann kom að, og var blaðamaðurinn mjög uppveðraður af árangri Gísla. Hann minntist einnig á Geirfinnsmálið, en það liggur ekki ljóst fyrir hvað hann gerði í því máli, eða hvaða heiður hann telur sig eiga í þeirri rannsókn. Honum verður tíðrætt um falskar játningar. Það hefur verið rauður þráður í kenningum Gísla mjög lengi, og má skilja hann svo að þær hafi komið við sögu í Geirfinnsmálinu. Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er einfaldlega: Hann eyðilagði rannsóknina!“
Valdimar rifjar svo upp að þann 31. desember 1976 hafi Gísli farið í Síðumúlafangelsi, ásamt sakadómara sem nú er látinn, og fékk að fara inn í klefa til sakborninga málsins til að framkvæma svokallaða lygamælingu.
„Rétt er að taka fram að Gísli var ekki í rannsóknarhópnum sem fór með rannsókn málsins, og Karl Schutz var í stuttu jólaleyfi þennan dag í Þýskalandi, hann kom heim 2-3 dögum seinna. Enginn rannsóknarmaður í hópi Karls Schutz var viðstaddur,“ segir Valdimar en Schutz þessi, sem var þýskur rannsóknarlögreglumaður, kom að rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála á árunum 1976 til 1977.
Valdimar segir að það veki furðu hvað fangelsisyfirvöld voru að hugsa og þau viti svo sannarlega hvað gæsluvarðhald þýðir.
„Hvers vegna leyfðu þeir Gísla að fara inn til sakborninganna? Sakadómarinn, sem var með honum, tók heldur ekki þátt í rannsókninni, og þess vegna verður það enn furðulegra, hvað var í gangi þarna? Hver eiginlega leyfði þessa heimsókn Gísla í Síðumúlafangelsið? Ekki var það Karl Schutz, né nokkur úr rannsóknarteyminu.”
Valdimar tekur einnig fram að á þessum tíma hafi Gísli aðeins verið í námi.
„Það sem gerðist þarna var að með þessu rauf hann gæsluvarðhaldsúrskurð sakborninganna, og þar með varð Gísli vanhæfur í öllu sem sneri að þessari rannsókn. Þannig eyðilagði Gísli rannsóknina, án þess að spyrja kóng eða prest, og hann var ekki einu sinni í rannsóknarhópnum,“ segir hann meðal annars í grein sinni og telur að Gísli hafi sagt sakborningum frá kenningum sínum um falskar játningar.
„Hvað var Gísli eiginlega að hugsa, og nú ber hann sér á brjóst og fær mikla athygli blaðamanns Morgunblaðsins, sem skrifar eins og Gísli sé sá eini sem geti eitthvað. Ég skora á Gísla að segja undanbragðalaust frá fundi sínum með sakborningunum þennan dag og hvað þeim fór á milli. Og ekki þýðir að bera fyrir sig trúnað við skjólstæðinga, hann var ekki orðinn sálfræðingur þá, sennilega var hann bara að skrifa ritgerð í náminu?“
Í greininni, sem má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, telur hann að málið sé í verri stöðu núna en það hefur verið undanfarinn 40-50 ár. „Að mínu mati þarf að vinna þetta mál aftur. Annars verður það til eilífðar óklárað og með enga niðurstöðu.“