Erlendir ferðamenn tóku til fótanna á dögunum á lúxushóteli Skúla Mogensen við Hvammsvík út af meintum draugagangi. Hópurinn rakti raunir sínar í færslu á samfélagsmiðlum, en DV fjallaði um færsluna um helgina.
Þessi frásögn hefur vakið töluverða athygli. Þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis lásu um draugaganginn í frétt DV og ákváðu að slá á þráðinn til Skúla Mogensen í dag til að fá það á hreint hvort það sé reimt í Hvammsvík.
Sjá einnig: Ferðamenn flúðu lúxushús Skúla Mogensen á hlaupum vegna draugagangs – „We ran for our lives“
„Ég heyrði af þessari sögu og hafði mjög gaman af. Það hefur náttúrulega gengið á ýmsu, ekki reyndar í sjóböðunum sjálfum en í nokkrum húsum hjá okkur sem við leigjum einmitt út til ferðamanna. Þá sérstaklega er það Hvammur, elsta húsið hérna sem gengur undir nafninu Draugahúsið.“
Skúli treystir sér ekki til að fullyrða nokkuð um hvort þarna sé reimt eða ekki, en þessi tiltekni ferðamannahópur er ekki sá fyrsti sem greinir frá meintum reimleika.
„Ein kona sem þrífur húsin hérna hjá okkur vill meina að hún spjalli nánast daglega við þá [draugana] og eigi bara í mjög góðu samstarfi við þau.“
Elsta húsið, Hvammur, var byggt í kringum 1930. Frá því að Skúli kom að rekstri í Hvammsvík hefur það loðað við svæðið, og þá sérstaklega þetta hús, að þarna sé reimt.
„Ég ætla ekki að fullyrða af eða á, en það var mjög skemmtilegt þegar gjörningaklúbburinn Listakonurnar voru með gjörning hjá okkur fyrir örugglega 10 árum síðan. Það var áður en við gerðum húsið upp en þá fengu þær þetta tiltekna hús lánað og ein þeirra, sem var mjög næm, hröklaðist út úr húsinu og sagðist ómögulega geta unnið þarna.“
Listakonurnar dóu þó ekki ráðalausar og segir Skúli að þær hafi kallað til allt að þrjá miðla til að ná draugunum út svo hægt væri að fá vinnufrið.
„Þetta eru draugar í fleirtölu,“ segir Skúli sem segist sjálfur ekki hafa séð drauga á svæðinu en tekur fram að á veturna þegar veður verður vont þá finni hann vel fyrir nærveru náttúrunnar og þeirra krafta sem má finna á svæðinu.
Hann útlokar svo ekki að fá draugana með sér í markaðsstarf fyrir Hvammsvík. Einar Ben hafi selt norðurljósin og Skúli hefur sjálfur auglýst Hvammsvík fyrir ferðamenn sem vilja berja ljósin augum. Því sé mögulegt að í framtíðinni skáki hann skáldinu og selji bæði drauga og norðurljós.
Til þessa hefur enginn ferðamaður óskað eftir endurgreiðslu vegna draugagangs en Skúli segist oft hafa fengið fyrirspurnir um meintan reimleika. Fólki finnst þetta spennandi.
„Mér finnst klárlega að við ættum að gera meira úr þessu. Ekki bara draugagangi heldur úr þjóðsögunum okkar, álfar, tröll og allt það.“
Hann tekur fram að á jörðinni megi svo finna álfasteininn Steðja. Um er að ræða einn frægasta álfaklett landsins sem hefur gengið undir mörgum nöfnum, t.d. Prestur, Karlinn í Skeiðhól og Staupasteinn. Þar átti að búa síðhærður og skeggjaður einbúi, Staupa-Steinn, sem í dag er verndari Hvalfjarðarganganna.
Skúli rifjar það upp að álfar og þjóðsögur séu svo rík í þjóðarsál Íslendinga að við gerð Hvalfjarðarganganna var leitað sérstaklega til Staupa-Steins til að fá blessun hans á framkvæmdunum. Þetta átti sér stað fyrir örfáum áratugum en ekki á öldum áður.
Skúli hvetur fólk eindregið til að láta vita af draugagangi og öðrum skemmtilegum uppákomum í Hvammsvík. Ekki verði betur séð en að frásögn áðurnefndra ferðamanna hafi vakið mikla lukku og umræðu.
Þess má til gamans geta að skipun Staupa-Steins í embætti verndarvætts Hvalfjarðarganganna var ekki óumdeild. Þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, spurði hvort Íslendingar væru enn og aftur að halla sér að heiðni.
„Álfar og tröll gagna ekkert þegar á reynir, slík vernd er aðeins tál, jafnvel þó Spölur láti sér sæma að útnefna bergtröll sem verndara Hvalfjarðarganga,“ sagði Karl í predikun á Hólahátíð í ágúst 1998.
Spölur ehf., sem sá um framkvæmdina og síðar rekstur Hvalfjarðarganga, þurfti í kjölfarið að gefa út yfirlýsingu þar sem skýrt var tekið fram að fyrirtækið hafi ekki ætlað sér að vega að kirkjunni með samstarfinu við Staupa-Stein sem hefur ýmist verið kallaður álfur eða bergtröll.