Um hundrað manns mun lifa sín síðustu ár og liggja banaleguna undir stanslausu múrbroti og byggingarglamri á hjúkrunarheimilinu á Sóltúni sem á að stækka á komandi árum. Eiginkona Einars Stefánssonar læknis dvelur með heilabilun á Sóltúni og hann og fleiri aðstandendur vilja stöðva framkvæmdirnar áður en þær hefjast.
„Þetta er fullkomlega skelfilegt. Þarna búa 92 manneskjur. Fólk á heima þarna, þetta eru heimilismenn og borga húsaleigu. Það myndi ekki nokkrum manni detta það í hug að taka íbúðarblokk í bænum og byggja ofan á hana án þess að tala við fólkið sem býr í húsinu. Hvað þá að fá leyfi hjá því. Það er eins og fólk sem búi á hjúkrunarheimilum njóti ekki mannréttinda og njóti ekki friðhelgi heimilis. Það megi fara með það eins og þau séu ekki persónur,“ segir Einar.
Hjúkrunarheimili var reist í Sóltúni árið 2002. Það er í eigu félagsins Heima. Upphaflega stóð til að reisa hjúkrunarheimili á tveimur lóðum, Sóltúni 2 og 4. Þegar Sóltún 2 yrði stækkað átti að flytja heimilisfólkið yfir í Sóltún 4 á meðan framkvæmdir stæðu yfir. En fyrir nokkrum árum var lóðin Sóltún 4 seld til að byggja íbúðablokkir en áætlanir um stækkun Sóltúns 2 héldu sér þrátt fyrir það.
Fyrir skemmstu fengu Heimar lán frá Norræna fjárfestingarbankanum til að ráðast í stækkunina. Það er að rýmum verði fjölgað um 67, úr 92 í 159. Eða um tæplega 3500 fermetra. Framkvæmdir eiga að hefjast á þessu ári og ljúka árið 2027.
Eiginkona Einars hefur búið á Sóltúni í á þriðja ár en hún er með heilabilun. Einar segir að þessi hópur muni eiga erfitt vegna framkvæmdanna.
„Heilabilað fólk mun ekki skilja aðstæðurnar. Mun ekki geta skilið að þetta séu byggingarframkvæmdir en ekki loftárás eða eitthvað sem ógnar þeim stórkostlega. Það mun valda þeim hræðslu,“ segir hann.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, benti á í fyrra að hjúkrunarheimili séu ekki aðeins vinnustaðir heldur einnig heimili fólks. Réttarstaða fólks á hjúkrunarheimilum hefur hins vegar verið illa skilgreind.
Einar og aðrir aðstandendur hafa mótmælt framkvæmdinni og munu halda áfram að mótmæla. Hann segir að Heimar hafi svarað því að raski verði haldið í lágmarki, svo sem með því að hífa forsmíðaðar einingar ofan á húsið. Hins vegar sé ljóst að svo stór framkvæmd muni hafa mikið ónæði í för með sér.
Þetta muni skerða lífsgæði fólks á sínum síðustu árum sem og trufla banaleguna. Árlega deyji um 30-40 manns á Sóltúni, sem þýðir að um 100 manns munu deyja á framkvæmdatímabilinu.
„Á hverjum tíma er einhver að liggja banaleguna í húsinu. Þá safnast fjölskyldur og vinir saman og sitja hjá viðkomandi síðustu dagana eða vikuna. Þetta er heilög stund hjá flestum og starfsfólk umgengst þetta með virðingu og útbýr þetta vel,“ segir Einar. „Næstu árin munum við horfa fram á að þeir 100 sem munu deyja munu eiga sína síðustu daga inn í byggingaframkvæmdum, með múrbroti og hamraglamri. Þetta er óvirðing við þá sem eru að deyja og þá sem eru að kveðja þá.“