fbpx
Laugardagur 01.mars 2025
Fréttir

Vélráð í Vatíkaninu – Hver tekur við af Frans sem næsti páfi?

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. mars 2025 15:30

Sennilega er plottið í Páfagarði löngu hafið. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nánast daglega birtast fréttir af hrakandi heilsu hins 88 ára Frans páfa og er því ekki ólíklegt að tólf ára páfatíð hans sé senn á enda. Hvort sem hún endi með andláti eða afsögn hins hruma manns.

Þegar það gerist þarf að velja nýjan páfa, á sama hátt og gert hefur verið um aldir. Með ráðstefnu 138 kardínála í Sistínsku kapellunni og verður þeim ekki hleypt út fyrr en hvíti reykurinn sést rjúka upp úr skorsteininum og nýr páfi þar með kjörinn.

En hver verður hann? Enginn kardináli er beinlínis í framboði og engar skoðanakannanir gerðar á meðal kardínála. Í raun er mjög erfitt að segja til um hver gæti orðið næsti páfi en engu að síður eru ýmis nöfn talin líklegri en önnur. „Páfalegustu“ kardínálarnir, sem á ítölsku kallast „Papabili.“ DV leit yfir sviðið.

 

Hinn asíski Frans

Efstur hjá veðbönkum er hinn 67 ára gamli Luis Antonio Tagle sem kemur frá Filippseyjum. Aldrei áður hefur páfi komið frá Austur-Asíu en í Filippseyjum býr þriðji mesti fjöldi kaþólikka í heiminum, á eftir Brasilíu og Mexíkó.

Hinn frjálslyndi Luis Antonio Tagle. Mynd/Getty

Tagle er sagður minna um margt á Frans páfa, meðal annars hvað varðar frjálsyndar skoðanir á ýmsum málum. Svo sem skilnaði, málefnum hinsegin fólks og innflytjendum. Tagle er einnig þekktur fyrir auðmýkt og að beita sér fyrir hjálp til fátækra.

 

Kirkjunnar Orban

Á hinum endanum, og meira í ætt við hinn íhaldssama Benedikt XVI, er hinn 72 ára gamli Peter Erdo. Erdo kemur frá Ungverjalandi, sem hefur á undanförnum árum undir stjórn Viktor Orban orðið eitt íhaldssamasta land í Evrópu og skoðanir Erdo endurspegla það.

Kjör Erdo yrði sigur fyrir íhaldsöflin. Mynd/Getty

Erdo er meðal annars á móti því að leyfa fráskildu fólki að ganga til altaris og hann hefur líkt móttöku flóttafólks við mansal. Erdo er fjórði í veðbönkum.

 

Málamiðlunarpáfi

Málamiðlun á milli frjálslyndra og íhaldssamra afla í Vatíkaninu gæti verið að kjósa hinn sjötuga Pietro Parolin, sem er einmitt næst efstur í veðbönkum.

Parolin er næstráðandi í Vatíkaninu. Mynd/Getty

Parolin er í dag næstráðandi í Vatíkaninu og þykir hófsamur þegar kemur að flestum málum. Eiginlegur miðjumaður. Ítalir hafa átt langflesta páfa í gegnum tíðina og spurningin er hvort það sé ekki komið að þeim aftur eftir þrjá „útlenska“ páfa í röð.

 

Sá fyrsti í 1500 ár

Í þriðja sæti hjá veðbönkum er hinn 76 ára gamli Peter Turkson. Turkson hefur verið ráðgjafi Frans páfa í loftslagsmálum og málum sem varða félagslegt réttlæti. Hann hefur barist fyrir jöfnuði en er þó íhaldssamur á mörgum sviðum. Meðal annars gagnvart notkun getnaðarvarna.

Turkson kemur frá Gana. Mynd/Getty

Turkson er frá Gana á vesturströnd Afríku og gæti orðið fyrsti afríski páfinn síðan Gelasíus I sem var uppi á ofanverðri fimmtu öld. Aldrei hefur páfi komið frá Afríku sunnan Sahara.

 

Páfi Trumps

Jafn vel íhaldssamari en Erdo er hinn 76 ára gamli Raymond Leo Burke frá Wisconsin fylki í Bandaríkjunum. Burke er í umræðunni en er þó ekki talinn á meðal þeirra líklegustu.

Trump myndi fagna kjöri Burke. Mynd/Getty

Burke er eindreginn stuðningsmaður Bandaríkjaforsetans Donald Trump og aðhyllist mjög íhaldssamar skoðanir. Meðal annars í málefnum hinsegin fólks, þungunarrofs og skilnaðar. Burke hefur verið sakaður um að tala gegn Frans páfa á undanförnum árum.

 

„Unglambið“

Sá langyngsti sem nefndur er sem mögulegur arftaki Frans er hinn 59 ára Ítali Pierbattista Pizzaballa. Pizzaballa er útsendari Vatíkansins í Landinu helga með aðsetur í Jerúsalem.

Pizzaballa er óumdeilanlega með skemmtilegasta nafnið. Mynd/Getty

Pizzaballa hefur reynt að vera rödd til friðar í stríðinu á milli Ísraels og Palestínu. Eftir að ófriðurinn braust út á Gaza heimsótti hann svæðið og bauðst til að láta skipta á sér og gíslum í haldi Hamas samtakanna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5
Fréttir
Í gær

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi
Fréttir
Í gær

Þrautaganga prests á Suðurnesjum – Missti mannorðið eftir kæru fyrir kynferðisbrot og hefur barist fyrir miskabótum

Þrautaganga prests á Suðurnesjum – Missti mannorðið eftir kæru fyrir kynferðisbrot og hefur barist fyrir miskabótum
Fréttir
Í gær

Meintur banamaður Geirfinns nafngreindur í 13. kaflanum sem hefur lekið á netið

Meintur banamaður Geirfinns nafngreindur í 13. kaflanum sem hefur lekið á netið