fbpx
Laugardagur 01.mars 2025
Fréttir

Skarphéðinn Andri hefði orðið 30 ára í dag – Fórnfús gjöf hans færði fimm manns nýtt líf

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 1. mars 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skarphéðinn Andri Kristjánsson hefði orðið 30 ára í dag, hann lést í byrjun árs 2014 í hörmulegu bílslysi. Skarphéðinn Andri bjargaði fimm manns með líffæragjöf. Í dag fór fjölskylda hans að leiði hans með 30 bleika túlípana, kveikti á kertum og Sveinþór Andri frændi hans sem er að verða níu ára færði frænda sínum steina úr safni sínu.

„Elsku strákurinn minn til hamingju með stóra daginn hvar sem þú ert. Við skálum fyrir þér í tilefni dagsins,“ skrifar móðir Skarphéðins Andra, Steinunn Rósa Einarsdóttir.

Þann 12. janúar 2014 lenti Skarphéðinn Andri, 18 ára, og kærasta hans Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir, 16 ára, í bílslysi á Vesturlandsvegi við Fornahvamm í Norðurárdal. Skarphéðinn Andri var ökumaður fólksbifreiðar sem lenti í árekstri við flutningabifreið úr gagnstæðri átt. Anna Jóna lést í slysinu, en Skarphéðinn Andri slasaðist lífshættulega.

Anna Jóna og Skarphéðinn Andri

Hafði rætt líffæragjöf við foreldra sína

Fimmtán dögum síðar var ljóst að baráttan var töpuð og 28. janúar var Skarphéðinn Andri úrskurðaður látinn. Hann var ekki skráður líffæragjafi, en hafði fyrir slysið rætt þau mál við foreldra sína, Steinunni Rósu og Kristján Ingólfsson, og voru þau því viss um hver afstaða sonar þeirra væri og samþykktu líffæragjöf. „Hann hafði nokkrum sinnum rætt líffæragjöf við okkur og var með spjald í veskinu sínu sem fannst aldrei,“ segir Steinunn Rósa.

Fimm manns öðluðust nýtt líf vegna gjafar Skarphéðins Andra. 

„Hjartað fór til 16 ára drengs, bæði lungun fóru til rúmlega sextugs manns, lifrin fór til rúmlega fimmtugs manns, annað nýrað fór til fertugs manns og hitt nýrað til rúmlega fimmtugs manns. Nýtt líf er tekið við hjá öllum þessum einstaklingum og gengur vel,“ sagði Steinunn Rósa í viðtali við DV.

Skarphéðinn Andri Kristjánsson

Halda minningu Skarphéðins Andra á lofti 

Einkunnarorð Skarphéðins Andra sem hann lét húðflúra á sig voru: „Allt sem að þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ 

Árlega er Ljósadagur haldinn í Skagafirði þann 12. janúar, þar sem íbúar taka virkan þátt og minnast látinna ástvina með því að tendra ljós í skammdeginu. Hugmyndin kviknaði eftir andlát Skarphéðins Andra og Önnu Jónu.

Þann 29. janúar 2018 þegar fjögur ár voru frá andláti Skarphéðins Andra skrifaði móðir hans eftirfarandi:

„Í dag eru 4 ár frá því Skarphéðinn Andri var úrskurðaður látinn. Í gær um kl. 23 voru 4 ár frá því við Kiddi héldum í hendur hans og heili hans dó. Hugur manns á svona tímum eru skrýtnir eða kannski ekki, það er erfitt að festa hugan við dagleg mál í janúar þar sem svo margt er að fara í gegnum kollinn á okkur. 12. janúar er dagurinn sem allt breyttist, 27. janúar er dagurinn sem við fengum að vita að vonin um líf með Skarphéðni dó og 28. janúar var hann úrskurðaður látinn.

Hugurinn leiðir mann aftur til þess tíma og líka til þess tíma þegar við fengum gullmolann okkar í fangið. Við erum komin á þann stað að geta glaðst yfir lífi hans, þótt það komi einstaka dagar þar sem maður verður lítill í sér. Lífið er óútreiknanlegt og hver dagur dýrmætur, við vorum heppin að fá Skarphéðinn í þau ár sem hann var hjá okkur. Dagurinn var ágætur, kveiktum á tveimur kertum við leiði Skarphéðins Andra fyrir þau Önnu Jónu og hann, kertin eru appelsínugul og loga til dagsins á morgun þegar fjögur ár eru frá því hann gaf fimm manns nýtt líf.“

Leiði Skarphéðins Andra

Minna á mikilvægi líffæragjafar

Fjölskylda Skarphéðins Andra, sem er stór og samrýmd, hefur haldið minningu hans á lofti, móðir hans hefur mætt í viðtöl og ítrekað mikilvægi líffæragjafar. Á dánardegi hans og áður voru lög á þann veg að einstaklingar þurftu að hafa gefið skýran vilja sinn og samþykki til líffæragjafar. Eins og áður kom fram hafði Skarphéðinn Andri þó ungur væri rætt þessi mál við foreldra sína og látið vilja sinn skýrt í ljós og var með spjald á sér sem greindi frá vilja hans. Spjaldið fannst þó ekki á slysstað. 

Lögunum var breytt og frá og með 1. janúar 2019 eru allir sjálfkrafa líffæragjafar nema þeir sem eru andvígir líffæragjöf og hafa skráð þann vilja sinn á Mínar síður á heilsuvera.is. 

Í þeim tilvikum sem einstaklingur getur mögulega verið líffæragjafi við andlát þarf í öllum tilvikum samþykki nánustu aðstandenda. Því er mikilvægt að tala um þessa hluti við nánustu aðstandendur þannig að þeir viti vilja þinn, segir á vef Heilsuveru.

Á vef landlæknis er spurningum um líffæragjöf og líffæraígræðslur svarað. Þar kemur fram að árlega þurfi 25-30 sjúklingar líffæraígræðslu á Íslandi og hefur þeim fjölgað síðastliðin ár. Meginástæða þess er meðal annars aukin tíðni langvinnra sjúkdóma sem leiða til líffærabilunar. 

Fólk á öllum aldri getur veikst það alvarlega í hjarta, lifur, lungum eða nýrum að það krefjist líffæraígræðslu, ef nokkur kostur er á slíku. Við nýrnabilun á lokastigi er völ á öðru meðferðarúrræði; það er blóð- eða kviðskilun. Nýrnaígræðsla kann samt að vera ákjósanlegri leið í mörgum tilvikum. Hver líffæragjafi getur mögulega bjargað lífi nokkurra sjúklinga. Líffæragjöf er samt ekki möguleg nema í fáum tilvikum dauðsfalla.

Hvað er líffæragjöf?

Líffæragjöf er þegar hjarta, lungu, lifur, nýru, bris eða þarmar eru fjarlægð úr látnu fólki og grædd í sjúklinga þar sem tiltekin líffæri eru alvarlega vanstarfhæf eða alveg óstarfhæf. Einnig má nefna að bæta má sjón sjónskertra með því að græða í þá hornhimnu látins fólks. Í vissum tilfellum eru líffæragjafir frá lifandi fólki. Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga. Í stöku tilvikum er líka hluti lifrar í lifandi gjafa notaður til ígræðslu.

Fleiri spurningum um líffæragjöf er svarað á vef landlæknis, einstaklingar eru hvattir til að kynna sér málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

TM formlega komið í eigu Landsbankans

TM formlega komið í eigu Landsbankans
Fréttir
Í gær

Stefán Bogi gáttaður á bæjarstjórn Kópavogs – „Lýsir svo barnalegu skilningsleysi á því hvernig lýðræðislegt stjórnkerfi á að virka“

Stefán Bogi gáttaður á bæjarstjórn Kópavogs – „Lýsir svo barnalegu skilningsleysi á því hvernig lýðræðislegt stjórnkerfi á að virka“
Fréttir
Í gær

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 

Grímur opnar sig um persónulega reynslu sem barn í kerfinu – „Ég sagði aldrei neitt enda var enginn að hlusta“ 
Fréttir
Í gær

Óhugnaður á bílastæði – Landsréttur þyngdi dóm yfir Candido Alberto

Óhugnaður á bílastæði – Landsréttur þyngdi dóm yfir Candido Alberto
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján Sívarsson fyrir dóm sakaður um að pynta konu í tíu daga – Notaði nál, hníf, hamar, járnrör, spýtu og hleðslutæki

Kristján Sívarsson fyrir dóm sakaður um að pynta konu í tíu daga – Notaði nál, hníf, hamar, járnrör, spýtu og hleðslutæki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum

World Class hjónin skála í nýja húsinu – Nágrannar óánægðir með snigilshraða á framkvæmdum