fbpx
Laugardagur 01.mars 2025
Fréttir

Nanna segir notkun gervigreindarmynda í þáttaröð RÚV viðhalda ranghugmyndum – „Löngu hætt að hafa nokkur afskipti af þáttunum þegar þetta bull kom til“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 1. mars 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nanna Rögnvaldardóttir, rithöfundur og matardrottning, furðar sig á notkun gervigreindarmynda í nýrri þáttaröð RÚV um mat og matarmenningu Íslendinga. Í þáttunum eru meðal annars viðtöl við Nönnu sem hefur skrifað fjölda bóka um matargerð og matarsögu.

„Ég er svo standandi hissa yfir öllum þessum gervigreindarmyndum, sem eru svo uppfullar af rangfærslum og ranghugmyndum og ganga þvert á staðreyndir um matarsögu, húsakynni, lifnaðarhætti og bara allt saman að ég á ekki orð. Skil ekki tilganginn með þeim, fyrir utan náttúrlega hvað þær eru hallærislegar og klisjukenndar.“

Segist Nanna í færslu á Facebook loksins hafa farið í að horfa á þá þætti sem búið er að sýna. Þættirnir Matarsaga Íslands eru samtals sjö og er þegar búið að sýna fjóra þeirra. 

Umsjón með þáttunum hafa Gísli Einarsson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir. Þáttaröðin er eins og segir í lýsingu á RÚV: Ný þáttaröð um mat og matarmenningu Íslendinga allt frá landnámi til dagsins í dag – og jafnvel nokkur skref inn í framtíðina. Gísli og Silla fara með áhorfendur í rannsóknarleiðangur þar sem þau skoða hinar ýmsu mýtur og sturlaðar staðreyndir um mat. Matarsérfræðingar greina matarhefðir, tískur og strauma – allt frá súrmat til skordýrasnakks – og stjörnukokkar fá það verkefni að búa til gómsætar máltíðir úr vinsælu hráefni liðinna tíma. Dagskrárgerð: Konráð Pálmason.

Nanna segir viðtölin fín og fróðleg. „Í sumum tilvikum hefði ég kannski valið aðra búta (það voru teknar upp kannski 40 klst. af viðtölum) en í heildina hefur þetta verið alveg í lagi.“

Segir enga þörf á gervigreindarmyndum, nóg sé til af myndefni

Nanna segir enga þörf á notkun gervigreindarmynda í þáttunum, nóg sé til að öðru myndefni.

„Kaupmannsbúð um 1900 með stóru skilti sem stendur á Kjörbúð – hálfri öld áður en það hugtak varð til? Eða bíddu – það eru bílar þarna, frá sjöunda eða áttunda áratugnum sýnist mér. Hvað er þessi grjóthlaðna „kjörbúð“ þá að gera þarna í umfjöllun um eggjainnflutning? Fyrir utan allt annað á þeirri mynd? Það er til hellingur af fínum ljósmyndum af íslenskum verslunum frá þessum tíma.

Innflutningur yfir úfinn sjó til Íslands á opnum smáskipum, með opna eggjakassa á þilfari? Það hefði nú verið lítið mál að finna mynd af t.d. Botníu eða öðrum skipum sem raunverulega fluttu egg til Íslands um aldamótin 1900. Og miklu áhugaverðara.“

Máli sínu til stuðnings birtir Nanna mynd af gervigreindareggjabátnum og Botníu og spyr: „Hvor myndin segir okkur nú meira?“

Kjánalegt, óvandað og algjör óþarfi

Margar konur taka undir orð Nönnu. Ein segist hafa horft á fyrsta þáttinn og fundist hann fróðlegur og skemmtilegur en þessi notkun á gervigreindarmyndum svo ótrúlega kjánaleg og óvönduð. Önnur segir þetta algjöran óþarfa, enda mikið af fallega teknum senum og glæsilegum mataruppstillingum í þáttunum. Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur bendir á að það séu einnig gervigreindarmyndir af íslenskum kúm.

„Á einni myndinni þar situr einhver sögualdarhipster með tagl og er að fá sér hunang út í teið sitt (!) í stóru eldhúsi þar sem allt er alveg verulega óíslenskt, ekki síst stóri fjögurra rúðu glerglugginn við hlið hans. Íslensk eldhús voru gluggalaus fyrstu 1000 ár Íslandssögunnar eða svo,“ segir Nanna.

Hipsterinn umræddi. Mynd: Skjáskot RÚV

Spyr hvað ráði þegar kemur að gervigreind

Dominique Plédel Jónsson, einn af frumkvöðlum vínmenningar á Íslandi sem starfað hefur í vínbransanum í tæp 30 ár, spyr hvað ráði ferðinni þegar kemur að gervigreind.

„Gervi eða greind? Hér var gott tækifæri til að festa vandlega á mynd hefðirnar sem hafa mótað matvælalandið Ísland – og eins og þú segir góð viðtöl. En til hvers gefa svona afslátt þegar myndefnið er búið til? Tískuhæfni gerfigreindar?“

Nanna svarar henni og segir: „Ég bara veit það ekki. Ég var löngu hætt að hafa nokkur afskipti af þáttunum þegar þetta bull kom til.“

Dominique Plédel Jónsson. Mynd: Silja Rut Thorlacius.

Varaði við að þættirnir mættu ekki viðhalda ranghugmyndum eða búa til nýjar.

„Mér þykir verst að ég sagði á einum fyrsta undirbúningsfundinum að þættirnir mættu alls ekki verða til þess að viðhalda ranghugmyndum fólks um mat á fyrri öldum eða skapa nýjar (það sama gildir um umhverfi fólksins og matarins) en það er einmitt það sem er hætt við að gerist hér, ekki síst með þessum blessuðum gervigreindarmyndum.

Málið er ekki að ég hafi neitt á móti því að krydda þáttinn með léttmeti eða gríni. Það stóð alltaf til og þótt ég hafi ekki verið sátt við hvernig það var gert (allsvo í sketsunum í upphafi og enda hvers þáttar), þá voru athugasemdir mínar ekki við grínið sem slíkt. En með þær falsanir (já, ég verð eiginlega að segja það) sem koma fram í þessum myndum og ekkert sem bendir til þess að þær eigi að vera grín og ekkert sem auðveldar áhorfandanum að átta sig á að þetta sé ekki rétt – já, þá er ég fegin því að bera enga ábyrgð á því.“

Rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir segir stofnun í stöðu RÚV ekki geta boðið upp á þetta.

„Alveg er það ótrúlegt ef Ríkisútvarpið er ekki með stefnu um notkun gervigreindar! Stofnun í þeirra stöðu getur ekki boðið upp á þetta.“

Við áhorf þáttanna og á kreditlista í lok þeirra má sjá að nokkrir leikarar og aukaleikarar koma fram í þáttunum auk þáttastjórnendanna tveggja og fjölda viðmælenda. Snædís XYza Mae Ocampo sér um matreiðslu í þáttunum. Leikmynd er hönnuð og notuð, kvikmyndataka, drónamyndatökur, auk þess sem myndefni er fengið víða að, frá Landsbókasafni Íslands (timarit.is), Ljósmyndasafni Reykjavíkur, úr safni RÚV, Ragnari Visage ljósmyndara RÚV og víðar.

Hér fyrir neðan eru tvær aðrar gervigreindarmyndir úr fyrsta þættinum, en mun fleiri slíkar eru og það aðeins í fyrsta þættinum. Horfa á á þættina hér og dæmi nú hver fyrir sig hvort notkun gervigreindarmynda í þáttunum sé þörf eða óþörf, og viðhaldi ranghugmyndum um fyrri tíma.

Mynd: Skjáskot RÚV
Mynd: Skjáskot RÚV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi

Landhelgisgæslan tók völdin um borð í íslensku skipi
Fréttir
Í gær

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife

Lík fannst í náttúrulaug á Tenerife
Fréttir
Í gær

Jón Gunnars fær það óþvegið eftir ásakanapistil – Sagður hafa sent skilaboð á like-síðu Guðrúnar og brugðist hinn versti við svarleysi

Jón Gunnars fær það óþvegið eftir ásakanapistil – Sagður hafa sent skilaboð á like-síðu Guðrúnar og brugðist hinn versti við svarleysi
Fréttir
Í gær

Íslendingur handtekinn, grunaður um að hafa keypt aðgang að barnaníðsefni sem framleitt var af gervigreind

Íslendingur handtekinn, grunaður um að hafa keypt aðgang að barnaníðsefni sem framleitt var af gervigreind