Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar, skrifaði í gær hugleiðingar sínar fyrir helgina og spurði Hvar er best að búa?
Segist Arnar Már hafa heimsótt öll sveitarfélög á Íslandi og kynnst ágætlega fjölbreytileika þeirra. „Flestir telja sig eiga besta bakarí á Íslandi, allmargir bestu sundlaugina og allir fallegustu sveitina. Líklega hafa allir rétt fyrir sér, enda þykir hverjum sinn fugl fagur. Það er hins vegar áhugavert að rýna þetta aðeins nánar. Hvar er virkilega best að búa og hvernig getum við mælt það?“
Byggðastofnun hefur alla tíð með ýmsum leiðum mælt styrkleika og veikleika byggðarlaga, enda eru slíkar mælingar grunnforsendur þess að beita almennum og sértækum byggðaaðgerðum að sögn Arnars Más.
„Við höfum haldið úti mælaborðum nú um nokkurt skeið sem gefa á einfaldan og aðgengilegan hátt mikið magn upplýsinga um fjölmarga mælanlega þætti sem hægt er að nýta til rýni og samanburðar á byggðarlögum. Þarna má nefna mælaborð eins og tekjur einstaklinga, orkukostnað, staðsetningu ríkisstarfa, fasteignagjöld og svo framvegis.
Ekki síður mikilvægir eru huglægu matsþættirnir, það er að segja hvað finnst íbúum þessara byggðarlaga um sitt byggðarlag. Eru þeir hamingjusamir og bjartsýnir, hvað finnst þeim um grunnskólann, mannlífið, gæði unglingastarfs og um menninguna?“
Íbúakönnun landshlutanna var síðast framkvæmd veturinn 2023-2024. Tilgangur hennar er að kanna hug íbúa til búsetuskilyrða, aðstæður á vinnumarkaði og afstöðu til mikilvægra atriða, s.s. hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum.
„Samkvæmt könnuninni eru Skagfirðingar hamingjusamastir Íslendinga, íbúar Akraness eru hrifnir af gæðum tónlistarstarfs í sínu byggðarlagi, bestu loftgæðin eru í Dölum að mati heimamanna og mesta nálægðin við fjölbreytta náttúru virðist vera í Þingeyjarsýslu,“ segir Arnar Már.
Byggðastofnun gaf út bókina Byggðafesta og búferlaflutningar árið 2022. Ritið veitir yfirlit um svæðisbundna mannfjöldaþróun á Íslandi og mynstur búferlaflutninga innan lands og utan.
„Í bókinni kemur meðal annars fram að um 70% íbúa landsins vildu helst búa þar sem þeir þegar búa þó að fasteignaverð væri hið sama um allt land. Með öðrum orðum íbúar Sauðárkróks vildu helst búa áfram á Sauðárkróki (73%) þrátt fyrir að húsnæðisverðið væri það sama í miðbæ Reykjavíkur. Hið sama má segja um Ísfirðinga (69%), Húsvíkinga (72%) og íbúa Vestmannaeyja (69%).
Af þessu má ráða svarið við spurningunni. Fólki finnst einfaldlega best að búa þar sem það býr.“