Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag að verkföll Kennarasambands Íslands í 13 leikskólum og 7 grunnskólum séu ólögmæt.
Eina verkfallið sem var lögmætt var í Snæfellsbæ þar sem allir félagsmenn leikskólakennara greiddu þar atkvæði um verkfallið.
Þessi niðurstaða þýðir að Kennarasamband Íslands þurfi að láta af verkföllum í þeirri mynd sem þau hafa verið, fyrir utan Snæfellsbæ. Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) segir í tilkynningu um niðurstöðuna að það geri ráð fyrir því að börn og kennarar sem hafa verið í verkfalli undanfarna viku mæti í skóla í fyrramálið.
SÍS taldi verkföllin ólögmæt þar sem þau brytu í bága við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna en þar segir að verkfall skuli ná til allra starfsmanna stéttarfélags hjá sama vinnuveitanda. Þannig hafi Kennarasambandið ekki mátt handvelja skóla innan sveitarfélags. Verkfallið þurfi að vera í sveitarfélaginu öllu, enda sveitarfélagið vinnuveitandinn. Þetta þýðir að Kennarasambandið hefði getað valið einstaka sveitarfélög en verkfall yrði þá að vera í öllum skólum þess.