Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna hafa lýst yfir eindregnum vilja sínum til að taka þátt í meirihlutasamstarfi í Reykjavík. Þeir segja nauðsynlegt að róttæk félagshyggjusjónarmið fái að njóta sín við stjórn borgarinnar og ekkert ákall sé um að hægri flokkar komist til valda í borginni en Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Flokkur fólksins ræða nú saman um myndun nýs meirihluta.
Sameiginleg yfirlýsing flokkanna tveggja er svohljóðandi:
„Frá upphafi þessa kjörtímabils höfum við staðið þétt saman við að veita þeim meirihluta sem nú hefur sprungið í loft upp kröftugt aðhald frá vinstri. Við höfum gagnrýnt hann harkalega þegar þörf hefur verið á, en einnig lagt góðum málum lið. Að okkar mati er ekki ákall í samfélaginu eftir auknu vægi hægriaflanna við stjórn Reykjavíkur, afla sem tala fyrir einkavæðingu og niðurskurði sem bitnar ávallt á almenningi.“
„Þvert á móti er mikilvægt að róttæk félagshyggjusjónarmið komi þar skýrt að málum. Það er fullur vilji okkar til að vinna sameiginlega að því marki með öllum mögulegum hætti. Við erum til í slaginn að taka á brýnum verkefnum svo sem í húsnæðismálum og skólamálum. Allar ákvarðanir um framtíð Reykjavíkur ætti að taka á grunni lýðræðis og hugsjóna um jöfnuð og félagslegt réttlæti, en ekki með hrossakaupum í bakherbergjum til að svala persónulegum metnaði. Í því skyni að koma á ábyrgri forystu fyrir Reykjavík lýsum við okkur reiðubúnar til samtals við þá flokka í borgarstjórn sem eru sama sinnis.“