Ljóst er að ekkert verður af myndun meirihluta Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að Inga Sæland formaður Flokks fólksins gaf það út að hennar flokkur muni ekki mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Borgarstjórnarflokkur Pírata hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir eindregnum vilja til myndunar nýs meirihluta og lögð áhersla á að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ráði ekki ferðinni við þreifingar um myndun meirihluta:
Í yfirlýsingu er farið yfir störf Pírata í meirihlutanum á þessu kjörtímabili en þegar kemur að myndun nýs meirihluta kemur fram að bersýnilega séu fleiri kostir í stöðunni en útlit hafi verið fyrir:
„Í ljósi yfirlýsingar borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Vinstri grænna er ljóst að það eru fleiri kostir í stöðunni en samstarf þeirra fjögurra flokka sem hefur verið í umræðunni. Einn kostur sem vert væri að kanna væri samtal um að halda meirihlutasamstarfinu áfram og klára síðasta árið án Framsóknarflokks sem hefur sagt sig frá verkefninu, en með stuðningi Vinstri grænna, Sósíalistaflokks og Flokki fólksins sem gætu tekið þátt eða eftir atvikum varið meirihlutann falli.“
Segir einnig að vilji Viðreisn ekki taka þátt séu enn aðrir möguleikar fyrir hendi:
„Annar kostur, sjái Viðreisn sér ekki fært að taka áfram þátt í meirihlutasamstarfinu án Framsóknar, væri að stofna hér fimm flokka félagshyggjustjórn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks.“
Píratar leggja áherslu á að vel mögulegt sé að mynda öflugan meirihluta án Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Meirihluta þar sem allir oddvitar væru konur:
„Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráða ekki ferðinni og Flokki fólksins og Viðreisn er ekki sá kostur nauðugur að hefja samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Aðrir frábærir kostir eru í stöðunni. Það er til mikils að vinna að klára það verk sem hafið er og sigla borgarskútunni örugglega í höfn fyrir kosningar á næsta ári. Öflug umbótastjórn undir forystu kvenna er ekki bara möguleg heldur mikið og sögulegt tækifæri.“