Þorvaldur lýsir þessu í viðtali í Morgunblaðinu í dag en þar er meðal annars fjallað um áhrif hækkunar gatnagerðargjalda í Reykjavík sem að óbreyttu mun hækka íbúðaverð.
Í viðtalinu er Þorvaldur meðal annars spurður að því hversu mikið framboð verði að óbreyttu á lóðum undir fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu í ar.
Hann segir að það sé einmitt mergurinn málsins. „Það er enginn fyrirsjáanleiki í því og ekki að sjá að það standi til neinar stórar breytingar í þá áttina og þegar kemur að útvegun byggingarlóða bíður okkar hrein og klár eyðimörk. Við getum ekki snúið okkur til neins af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, enda getur ekkert þeirra útvegað okkur byggingarlóðir,“ segir Þorvaldur við Morgunblaðið.
Þorvaldur bætir við að það hljóti að vera eðlileg krafa að sveitarfélögin tryggi eðlilegt framboð byggingarlóða á fyrirsjáanlegu verði eins og gert var áður. Lóðir í eigu einkaaðila séu dýrar og nær eingöngu þéttingarlóðir virðist vera í boði. Lóðaverð muni þrýsta upp íbúðaverði rétt eins og hækkun gatnagerðargjalda mun gera.
Spurður hvaða áhrif hækkun gatnagerðargjalda mun hafa á byggingarkostnað, segir hann: „Borgin virðist hreinlega vera að nýta sér ástandið í þessum lóðaskorti til þess að ná til sín meiri tekjum.“ Bætir hann við að hækkun gatnagerðargjalda þýði að Reykjavíkurborg taki enn stærri hluta af íbúðaverðinu til sín.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu og meðal annars rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa VG, um stöðu mála.