Það þarf vart að koma á óvart að sveitarfélög og ríkissjóður séu langstærstu eigendur jarða hér á landi. Er eignarhlutur hvors aðila fyrir sig svipaður, tæplega 400 eignarhlutir í um 400 jörðum. Þar á eftir kemur Þjóðkirkjan með 35 eignarhluti í 35 jörðum.
Í fjórða sætinu á eftir Þjóðkirkjunni, samkvæmt úttekt Bændablaðsins, er svo eignarhaldsfélagið Sólarsalir sem á 26 eignarhluti í 29 jörðum. Félagið er í eigu Sir Jim Ratcliffe, sem er ríkasti maður Bretlandseyja, og stjórnarformaður INEOS. Ratcliffe á stóran hlut í enska stórveldinu Manchester United þar sem INEOS fer með stjórn íþróttamála.
Annað eignarhaldsfélag kemur þar á eftir, félagið Fljótabakki með 12 eignarhluti í 12 jörðum. Félagið er í eigu Bandaríkjamannsins Chad R. Pike, sem er stofnandi ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience, og á meðal annars lúxushótelið Deplar Farm þar sem margir ríkir einstaklingar hafa dvalið.
Sá Íslendingur sem á flestar jarðir, samkvæmt úttekt Bændablaðsins, er Ingibjörg Eyþórsdóttir sem er skráður eigandi níu jarða. Í þeim hópi er til dæmis jörðin Kaldaðarnes í Árborg og litlar hjáleigur hennar sem allar eru eyðijarðir.
Í úttekt Bændablaðsins er bent á að fjöldi jarða segi ekki alla söguna því þær eru mjög misstórar. Þannig reyndist ekki unnt að fá upplýsingar um stærstu landeigendurna í fjölda hektara af landi þar sem afmörkun jarða er víðast hvar ókortlögð.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Bændablaðsins eða á vef þess.