Lögregla fékk tilkynningu um þjófnað úr verslun í miðborginni á vaktinni í gærkvöldi og lágu upplýsingar um þýfi fyrir, að sögn lögreglu. Ekki löngu síðar var tilkynnt um mann með hótanir og ónæði.
„Þarna var kominn þjófurinn úr ofangreindu máli. Hann víðáttuölvaður og vistaður í fangageymslu,“ segir í skeyti lögreglu.
Í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sinnir Hafnarfirði og Garðabæ, var einn handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Viðkomandi hafði einnig átt aðild að umferðaróhappi þar sem engin meiðsl urðu á fólki.
Í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, var tilkynnt um mann með ógnandi tilburði gagnvart hópi ungmenna. Maðurinn fannst ekki en rætt var við fólk á vettvangi.
Lögregla var þar að auki kölluð út vegna nokkurra umferðaróhappa í gær, meðal annars runnu tvær bifreiðar í hálku og út fyrir veg. Engin slys virðast þó hafa orðið á fólki í umræddum óhöppum.