Ragnar Rúnar Þorgeirsson lenti í aðstæðum aðfararnótt þriðjudags, sem hann óskar engum að lenda í. Ragnar sem er 74 ára síðan í nóvember lá ósjálfbjarga á gólfinu heima hjá sér og gat enga björg sér veitt, þar til hann gat loksins hringt í 112 og fengið aðstoð.
Í færslu sem hann skrifaði á Facebook segir hann frá atvikinu sem hann kallar sjálfur ævintýri og hvetur þá sem búa einir líkt og hann til að verða sér úti um öryggistæki.
„Í nokkrar vikur þá hef ég sofið í hægindastólnum, af því að ég fæ alltaf slæmsku í bakið að sofa í rúminu mínu. Ég ákvað þá að sofa í rúminu mínu og láta mig hafa það, fór að sofa kl. 23, og var búinn að sofa í klukkutíma, þegar ég ákvað að fara í hægindastólinn, því ég fékk slæmsku í bakið,“ segir Ragnar.
Hann fór fram úr, féll i gólfið og gat ekki reist sig á fætur, og ákvað að skríða að hægindastólnum. Þegar hann kom að honum þá gat hann ekki komið sér í hægindastólinn af því að gólfið var svo sleipt. Hélt hann að það væri vegna laxerolíu sem hann notar á andlitið, en um var að gel sem Ragnar setur undir lappirnar þegar hann notar fótastuðtækið sitt.
„Ég reyndi og reyndi að komast upp í hægindastólinn en ekkert gekk. Ég held að ég hafi ofreynt mig. Ég sofnaði þess á milli og svaf í 8 tíma. Ég lá þarna á maganum í 8 tíma alveg bjargarlaus og fann mikið fyrir einmannaleikanum. Að liggja svona á gólfinu í 8 tíma bjargarlaus. Ég skall tvisvar í gólfið á nefið og fékk bullandi blóðnasir, og það var allt í blóði. Eg fann ekki símann minn og vissi ekkert hvað klukkan var,“ segir Ragnar.
Um klukkan átta um morguninn komst hann loksins upp í stólinn og segist hafa verið alveg steinuppgefinn.
„Þá loksins fann ég símann og hringdi ég í 112. Þeir komu tveir á sjúkrabíl og tvær löggur. Það var læst og ég gat ekki opnað fyrir þeim. Svo loksins gat ég staulast til að opna fyrir þeim, og þeir komu og spurðu mig spjörunum úr. Ég var svo uppgefinn að ég var þvoglumæltur. Þeir hafa ábyggilega haldið að ég væri undir áhrifum og sögðu mér bara að leggja mig, og ég var eins og lítill strákur og jánkaði því.“
Ragnar segist ekki hafa verið búinn að taka verkjalyf í 12 tíma, svo það var ekki ástæðan fyrir þvoglumælginni.
„Ég bara ofreyndi mig og var uppgefinn, þess vegna var ég þvoglumæltur. Það var á þessum tímapunkti sem ég ákvað að sækja um neyðarhnappinn,“ segir Ragnar
Segist hann hafa ákveðið að deila atvikinu svo aðrir sem búa einir eins og hann hugsi sig ekki tvisvar um að fá sér neyðarhnapp í gegnum heimilislækni.
„Hugsið ykkur ef maður fær hjartaáfall og dettur í gólfið, og getur ekki hreyft sig, þá er svo gott að hafa neyðarhnapp um hálsinn og geta ýtt á takkann, og málið leyst, eða þannig. Ef þessi grein hjálpi þó það væri ekki nema einum manni, þá er tilganginum náð. Langaði svo að segja ykkur þetta, ef það hjálpar einhverjum. Guð veri ávallt með ykkur. Ég er búinn að vera í áfalli síðan þetta gerðist og hef verið að átta mig á því hvað hafi í raun gerst.“
Ragnar segir í samtali við DV að hann sé búinn að senda skrif sín til Öryggismiðstöðvarinnar og sækja um öryggishnapp. „Svo fer ég til heimilislæknis 13. febrúar og bið hann að sækja um til Sjúkratrygginga.“