Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur slitið meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn Reykavíkur en það var gert á fundi oddvita meirihlutans nú í dag. RÚV greindi fyrst frá.
Einar greindi frá þessu í viðtali við fréttastofu RÚV rétt fyrir klukkan átta í kvöld.
„Ég hef tekið þá ákvörðun að slíta meirihlutasamstarfinu. Við teljum að við höfum ekki náð þeim árangri fyrir Reykvíkinga sem við lofuðum þeim. Við lofuðum þeim breytingum og í þessu samstarfi tekst okkur ekki að knýja fram breytingar sem við teljum nauðsynlegar,“ sagði Einar.
Í vikunni vakti það athygli að Einar sagðist að það hrikti í meirihlutasamstarfinu vegna ólíkrar afstöðu flokkanna til framtíðar Reykjavíkurflugvallar. Ekki tóku þó allir oddvitar meirihlutans undir það, til að mynda sagði Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, að það hefði alltaf legið fyrir að sýn flokkanna varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar væri ekki sú sama.