Eins og landsmenn vita gekk vonskuveður yfir landið í gær og voru rauðar viðvaranir í gildi fram eftir degi. Þetta hafði sín áhrif á flug og voru margar flugferðir felldar niður.
DV ræddi við farþega sem var um borð í vél Neos og segir hann að stemningin í fluginu hafi verið ágæt þrátt fyrir býsna langt ferðalag.
„Farþegar voru aðallega hissa á að vélin hafi lagt af stað frá Tenerife í ljósi þess hvernig veðrið var,“ segir farþeginn og bætir við að eins hafi komið á óvart að ekki hafi tekist að lenda vélinni á Akureyri.
„Við vorum komin það neðarlega og svo komu nokkrar vélar á eftir okkur og lentu í Keflavík.“
Farþeginn segir að búið hafi verið að finna hótel fyrir farþega í Glasgow og var hugsað vel um farþegana, þó að maturinn um borð hafi verið búinn. Bætir hann við að farþegar hafi klappað þegar vélin lenti í Glasgow enda getur það tekið á að sitja í flugvél í átta tíma og fimmtán mínútur.
Óvíst er hvenær hópurinn kemst heim.
„Við erum enn í óvissu, það er verið að skoða veðurskilyrði heima en okkur hefur verið sagt að halda kyrru fyrir á hótelinu þar ti frekari upplýsingar berast,“ segir farþeginn.