Donald Trump ætlar að ljúka stríðinu í Úkraínu og fá Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseta, til þess að fallast á friðarsamninga fyrir páska. Ákvæði þeim samningum muni meðal annars kveða á um vopnahlé fyrir 20. apríl næstkomandi, að Úkraínu verði bannað að ganga til liðs við NATO og að Rússar haldi þeim héruðum sem þeir hafa hernumið.
Þetta kemur fram í frétt Daily Mail sem sögð er byggjast á umfjöllun í úkraínska miðlinum Strana.
Þá verði Úkraínumenn að draga her sinn frá Kúrsk-héraði sem var hernuminn í ágúst í fyrra. Til þess að halda friðinn við landamærin muni evrópskt friðargæslulið vera staðsett þar sem víglínan liggur nú.
Einnig muni Evrópusambandið skuldbinda sig til þess að aðstoða við uppbyggingu í Úkraínu með framlagi upp á um 500 milljarða bandaríkjadollara á næstu 10 árum.
Hermt að Zelensky hafi þegar hafnað þessum ráðagerðum en þær gerðu að auki ráð fyrir því að friðarumleitanirnar myndu hefjast með símtali milli hans og Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, í byrjun febrúar. Formlegur fundur milli þeirra myndi fara svo fram í lok febrúar og þar yrði skrifað undir friðarsamkomulag sem myndi taka gildi eigi síðar en 20. apríl næstkomandi.
Bandaríkin myndu svo koma til móts við Úkraínu með fjárstuðningi sem og að styðja inngöngu landsins í Evrópusambandið fyrir árslok 2030.
Úkraínsk yfirvöld hafa alfarið hafnað því að ferli sem þetta sé í vinnslu. Mikið af sögusögnum væru í gangi og oftar en ekki mætti rekja þær til áróðurs frá Rússum.