Á höfuðborgarsvæðinu er rauð viðvörun til dæmis í gildi til klukkan 13 og er gert ráð fyrir 25 til 33 metrum á sekúndu og snörpum vindhviðum. Talsverð rigning verður með köflum og foktjón líklegt. Ekkert ferðaveður verður á höfuðborgarsvæðinu og segir í viðvörun Veðurstofunnar að það geti verið hættulegt að vera á ferð utandyra.
Svipað verður uppi á teningnum á Suðurlandi og á Faxaflóa þar sem staðbundnar hviður geta farið í 45 til 50 metra á sekúndu.
Óveðrið fer svo yfir Strandir og Norðurland vestra og Norðurland eystra eilítið seinna. Á Norðurlandi eystra er rauð viðvörun í gildi til klukkan 16 en þar má gera ráð fyrir hviðum yfir 50 metra á sekúndu. Rigning verður með köflum og hláka.
Á Austfjörðum tók rauð viðvörun gildi klukkan 7 í morgun og á Austurlandi tekur hún gildi klukkan 8. Á þessum slóðum verður rok eða ofsaveður.
Hægt er að kynna sér viðvaranir Veðurstofunnar hér.