Guðbrandur veltir þessari spurningu upp í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar vísar hann meðal annars í grein sem samgönguverkfræðingurinn Þórarinn Hjaltason birti á sama vettvangi í janúar, en í greininni benti Þórarinn á að umferðartafir hjá okkur séu þær næstmestu á öllum Norðurlöndunum.
„Þetta eru í sjálfu sér ekki ný tíðindi fyrir okkur sem fylgst höfum með umferðarþróun á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin 50 ár eða svo og erum auk þess daglegir þátttakendur í umferðinni á þessu svæði,“ segir Guðbrandur.
Hann rifjar upp að á árunum í kringum síðustu aldamót hafi verið haldinn hér á landi fjöldinn allur af umferðartengdum ráðstefnum sem meðal annars voru haldin með aðkomu Umferðarráðs.
„Þessar samkomur sóttu margir þekktustu umferðarsérfræðingar Evrópu og minnist undirritaður þess að í samtölum við þessa sérfræðinga kom oft fram sú skoðun þeirra hvað umferðarmannvirki hér á þessu svæði væru góð og vel hönnuð með tilliti til góðs flæðis umferðar og öryggis vegfarenda.“
Guðbrandur segir að þetta hafi breyst, meðal annars eftir að á höfuðborgarsvæðinu komust til valda aðilar sem hafa misjafna þekkingu á umferðarmálum. Segir hann að einkum beinist kraftar þeirra að því að reyna að útrýma einkabílnum úr daglegri umferð.
„Nú er það svo að langt er um liðið síðan við Íslendingar völdum einkabílinn sem okkar helsta samgöngutæki enda er hann vel til þess fallinn. Við sem búum hér úti í ballarhafi, með fjórar tegundir veðurs á hverjum degi, þurfum að hafa skjól þegar við förum milli staða. Því er einkabíllinn heppilegur kostur fremur en að vera óvarin á ferð í síbreytilegu veðri á þessu mikla úrkomulandi. Er þá ekki tími til kominn að þessir aðilar, sem ekki þola einkabílinn sem samgöngutæki, flytjist til fyrirheitnu landanna og búi þar sem lífið er einfaldara og mögulegt að lifa bíllausum lífsstíl?“
Guðbrandur biður lesendur svo að koma með sér í ökuferð í huganum um eina af götum höfuðborgarsvæðisins, Bústaðaveg.
„Sé ekið í vesturátt frá Reykjanesbraut gengur allt þokkalega þar til komið er að Grensásvegi þar sem unnið var skemmdarverk fyrir nokkru þegar svokölluðum framhjáhlaupum var lokað, bæði inn á Grensásveg til hægri og eins þegar ekið er frá Grensásvegi og inn á Bústaðaveg til vesturs. Einnig er rétt að minna á að akreinum á Grensásvegi var um svipað leyti fækkað um eina í hvora átt. Næst komum við að Háaleitisbraut og ætlum að beygja inn á hana til hægri. Þar er nú búið að setja upp ljósastýringu fyrir hægribeygju þar sem áður var einungis biðskyldumerki þannig að þar var gott flæði umferðar, öfugt við það sem nú er.
Næst komum við að Kringlumýrarbraut og ætlum að taka hægri beygju af frárein norður Kringlumýrarbraut. Þar er nú komin ljósastýring í stað biðskyldumerkis og með þeim gjörningi eru skapaðar ónauðsynlegar tafir fyrir ökumenn sem vilja aka eftir Kringlumýrarbraut í átt að Sæbraut. Að endingu komum við að Litluhlíð og ætlum að beygja til hægri og þar er það sama sagan, þar sem áður var biðskyldumerki eru nú komin umferðarljós – þar sem ökumenn gátu áður beygt til hægri og gott umferðarflæði náðist eru nú komin ljós sem hefta för ökumanna, oftast að óþörfu. Ef þetta er ekki tafastefna af mannavöldum veit ég ekki hvernig hún er.“
Guðbrandur segir að þetta sé aðeins eitt dæmi af mörgum á höfuðborgarsvæðinu. Endar grein sína á því að velta því upp hvort skipulagsvald umferðarmála sé rétt niður komið hjá kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og hvort því væri ekki betur komið fyrir hjá einhverri stofnun sem byggi yfir heildstæðri þekkingu á umferðarmálum.