Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur fram að Alfreð hafi lengi glímt við alvarlegan geðrænan vanda, haft miklar ranghugmyndir og í þrígang verið úrskurðaður í nauðungarvistun á innan við ári. Var hann úrskurðaður í tólf vikna nauðungarvistun þann 6. júní, um tveimur og hálfum mánuði áður en harmleikurinn í Neskaupstað átti sér stað.
Sjá einnig: Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri
Samkvæmt þessu var heimild til að vista hann á Landspítalanum til 29. ágúst, en í umfjöllun blaðsins kemur fram að kunnugir segi að sést hafi til hans á Austurlandi seinni hluta júlímánaðar.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að atvik sem átti sér stað á Egilsstöðum í maí í fyrra hafi leitt til vistunar hans. Þá var Alfreð handtekinn í miðbænum eftir að hann ógnaði fólki og lögreglu með hnífi. Mun hann hafa talið lögregluna hluta af samsæri um að ráða sig af dögum.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Engilbert Sigurðsson, yfirlækni á geðþjónustu Landspítalans, en hann segir gjarnan mikið álag á geðdeild. Oftast sé mikil pressa á að útskrifa fólk til að hægt sé að leggja aðra bráðveika einstaklinga inn. Bendir hann á að mun færri rými séu fyrir sjúklinga á geðdeild samanborið við nágrannalönd okkar.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.