Eitt dularfyllsta óleysta morðmál Evrópu er morðið á breskri fjölskyldu og frönskum hjólreiðamanni á fjallavegi nærri bænum Annecy í Frakklandi. Þann 8. september 2012 voru Saad al Hilli, 50 ára, Iqbal al Hilli 47 ára, og móðir hennar Shuhaila al Allaf 74 ára, skotin til bana á áðurnefndum vegi. Morðinginn var einn á ferð og skaut 25 skotum á bíl þeirra. Dætur al Hilli-hjónanna lifðu árásina af. Zainab al Hilli var sjö ára en særðist í árásinni en Zeena systir hennar, fjögurra ára, slapp ómeidd með því að fela sig undir líki móður sinnar.
Auk foreldra þeirra og ömmu skaut morðinginn 45 ára gamlan franskan hjólreiðamann til bana, Sylvain Mollier, sem starfaði í kjarnorkugeiranum.
Enginn veit hvers vegna al Hilli-fjölskyldan var fórnarlamb slíkrar árásar og hefur lengi verið deilt um hvort þau eða hjólreiðamaðurinn Mollier hafi verið skotmark árásarinnar og hin þá svo óheppin að vera á röngum stað á röngum tíma.
Hér má lesa ítarlega yfirferð um morðið og helstu kenningar sem hafa verið á lofti
Í fyrra var greint frá því að rannsókn málsins hefði verið opnuð að nýju og í dag greindi Daily Mail frá mikilvægum vendingum í málinu.
Sérfræðingar hafa legið yfir rannsókn málsins eru núna handvissir um að morðinginn hafi verið sérþjálfaður svissneskur sérsveitarmaður. Það geti þeir greint með því hvernig al Hilli-fjölskyldan og Mollier voru skotin tilbana.
Hin látnu voru öll skotin 1-2 skotum í höfuðið af stuttu færi Það hafi verið gert með tækni sem sé aðeins kennd svissneskum sérsveitarmönnum í DARD, hryðjuverkadeild lögreglunnar. Morðinginn var augljóslega þrautþjálfaður því hann skaut 21 skoti úr Luger-skambyssu og 18 þeirra hæfðu fórnarlömbin.
Eins og áður segir hafa ýmsar kenningar sprottið upp varðandi málið í gegnum tíðina og ýmsir angar þess rannsakaðir. Þannig hefur meðal annars verið skoðað hvort að bróðir Saad al Hilli hafi viljað koma bróður sínum fyrir kattarnef og þá einnig hvort að hjólreiðamaðurinn Mollier hafi eignast hættulegan óvin því hann átti í ástarsambandi við gifta konu.
Rannsakendur nú segjast hins vegar fullvissir um að morðið á al Hilli-fjölskyldunni og Mollier hafi verið helber tilviljun og ýmislegt bendi til þess að skyndilega hafi runnið morðæði á árásarmanninn sem hafi látið kúlum rigna yfir alla nærstadda.
Rannsókn málsins virðist að minnsta kosti miða áfram og ástvinir hina látnu eru vongóðir um að lausn finnist brátt á ráðgátunni.