Kennarasamband Íslands hefur boðað verkföll í fimm framhaldsskólum. Verkföllin munu hefjast þann 21. febrúar ef samningar nást ekki við ríkið um kaup og kjör.
Umræddir skólar eru Borgarholtsskóli, Menntaskólinn á Akureyri (MA), Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA), Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Verkmenntaskóli Austurlands. Verkföllin eru ótímabundin.
Atkvæðagreiðsla um verkfallið fór fram dagana 3. til 5. febrúar. Kjörsókn var mikil og tillaga um verkfall samþykkt með miklum mun að sögn sambandsins.
Um er að ræða aðra lotu verkfalla í framhaldsskólum. En fyrir áramót fóru Menntaskólinn í Reykjavík (MR) og Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu) í tímabundin verkföll.
Auk framhaldsskólanna fimm mun verkfall hefjast í Tónlistarskólanum á Akureyri þann 21. febrúar. Það verkfall stendur til 4. apríl að óbreyttu.