Íbúar á höfuðborgarsvæðinu – eins og annars staðar – þurfa að gera ráð fyrir hugsanlegu foktjóni. Á vef Veðurstofu Íslands segir meðal annars um stöðuna á höfuðborgarsvæðinu:
„Sunnan 20-28 m/s, hvassast vestantil, en heldur hægari um tíma í kvöldið. Rigning, talsverð um tíma. Foktjón líklegt.“ Appelsínugul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu gildir frá klukkan 14 í dag og fram til miðnættis.
Á Suðurlandi má gera ráð fyrir að vindur verði 23 til 30 metrar á sekúndu og hviður fari yfir 35 metra á sekúndu. Foktjón og raskanir á samgöngum eru líklegar og ekkert ferðaveður. Þá er varað við hugsanlegum vatnavöxtum.
Staðan í öðrum landshlutum verður svipuð og á Norðurlandi eystra gætu vindhviður fari yfir 40 metra á sekúndu. Viðvörunin þar gildir til klukkan þrjú i nótt. Sömu sögu er að segja af Austurlandi þar sem foktjón er líklegt og ekkert ferðaveður.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Kristínu Öglu Tómasdóttur, veðurfræðing á Veðurstofu Íslands, og á hún von á erfiðum skilyrðum víða. „Þetta er ekki góð spá og líklega versta veður ársins. Sérstaklega þegar horft er til þess að þetta nær til alls landsins,“ segir hún.