fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Sjálfsvígstaktík norðurkóreskra hermanna í Úkraínu – Berjast fyrir Kim

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. febrúar 2025 22:00

Mynd sem Úkraínumenn birtu af norður-kóreskum hermanni á vígstöðvunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar stefnir í að norðurkóreskir hermenn, sem berjast með rússneska hernum í stríðinu við Úkraínu, verði teknir höndum þá fremja þeir sjálfsvíg. Þeir þykja fljótir og ískaldir á vígvellinum en þeir glíma einnig við ákveðin vandamál.

Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times sem segir að norðurkóresku-hermennirnir hiki ekki við að hlaupa beint inn í skotlínu Úkraínumanna. Þeir hætti ekki þrátt fyrir mikið mannfall og þess utan hafi þeir verið þjálfaðir í að sprengja sig í loft upp ef þeir sjá fram á að verða teknir höndum.

Blaðið segir að norðurkóresku hermennirnir noti ógnvænlegar aðferðir á vígvellinum en að baki víglínunnar glími þeir við stór vandamál í samstarfi sínu við rússneska hermenn. Blaðið byggir þetta á viðtölum við úkraínska hermenn og bandaríska leyniþjónustumenn.

Um 11.000 norðurkóreskir hermenn voru sendir til Rússlands síðasta haust til að berjast með rússneska hernum í stríðinu við Úkraínu. Vestrænir leyniþjónustumenn telja að minnst 4.000 norðurkóreskir hermenn hafi fallið eða særst fram að þessu.

CNN segir að þeir berjist af miklum krafti og gefist aldrei upp. Í myndbandi, sem CNN birti, sést úkraínskur hermaður nálgast særðan norðurkóreskan hermann sem liggur með andlitið ofan í jörðina. Þegar Úkraínumaðurinn  tók í fótlegg hans til að kanna með lífsmerki, öskraði norðurkóreski hermaðurinn eitthvað og sprengdi síðan handsprengju við hlið höfuð síns.

Suðurkóreska leyniþjónustan, sem aðstoðar Úkraínu, segir að hermaðurinn hafi hrópað: „Kim Jong-un hershöfðingi“.

Úkraínskir hermenn hafa fundið skilaboð og dagbækur á föllnum norðurkóreskum hermönnum. Í þessum skilaboðum og dagbókum kemur fram að hermennirnir telja þátttökuna í stríðinu gegn Úkraínu gott tækifæri til að öðlast bardagareynslu svo þeir geti stutt leiðtoga sinn, einræðisherrann Kim Jong-un, í átökum í framtíðinni.

Norðurkóresku hermennirnir sjá um sín eigin svæði á vígvellinum. Ólíkt Rússum, þá sækja þeir hratt fram, nær algjörlega án stuðnings frá brynvörðum ökutækjum. Þeir stoppa ekki þrátt fyrir mikið mannfall og sækja fram af mikilli hörku yfir jarðsprengjuþakta akra á meðan Úkraínumenn skjóta á þá af miklum móð. Þeir nota einnig hver annan sem tálbeitu fyrir úkraínska dróna. Einn hermaður dregur að sér athygli drónastjórans en aðrir liggja í leyni og skjóta drónann niður.

Samstarf norðurkóreskra og rússneskra hermanna hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Að minnsta kosti tvisvar hefur komið til beinna átaka á milli þeirra vegna ruglings. Rússar hafa einnig átt í vanda við að finna nægilega litla einkennisbúninga fyrir Norður-Kóreumennina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ögmundur sýnir hvernig Háskóli Íslands hafði fé af sjúkum manni – „1.060.000 kr. horfnar“

Ögmundur sýnir hvernig Háskóli Íslands hafði fé af sjúkum manni – „1.060.000 kr. horfnar“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Jón Steinar gagnrýnir forseta Hæstaréttar og vill fækka dómurum – „Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið“

Jón Steinar gagnrýnir forseta Hæstaréttar og vill fækka dómurum – „Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið“