Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times sem segir að norðurkóresku-hermennirnir hiki ekki við að hlaupa beint inn í skotlínu Úkraínumanna. Þeir hætti ekki þrátt fyrir mikið mannfall og þess utan hafi þeir verið þjálfaðir í að sprengja sig í loft upp ef þeir sjá fram á að verða teknir höndum.
Blaðið segir að norðurkóresku hermennirnir noti ógnvænlegar aðferðir á vígvellinum en að baki víglínunnar glími þeir við stór vandamál í samstarfi sínu við rússneska hermenn. Blaðið byggir þetta á viðtölum við úkraínska hermenn og bandaríska leyniþjónustumenn.
Um 11.000 norðurkóreskir hermenn voru sendir til Rússlands síðasta haust til að berjast með rússneska hernum í stríðinu við Úkraínu. Vestrænir leyniþjónustumenn telja að minnst 4.000 norðurkóreskir hermenn hafi fallið eða særst fram að þessu.
CNN segir að þeir berjist af miklum krafti og gefist aldrei upp. Í myndbandi, sem CNN birti, sést úkraínskur hermaður nálgast særðan norðurkóreskan hermann sem liggur með andlitið ofan í jörðina. Þegar Úkraínumaðurinn tók í fótlegg hans til að kanna með lífsmerki, öskraði norðurkóreski hermaðurinn eitthvað og sprengdi síðan handsprengju við hlið höfuð síns.
Suðurkóreska leyniþjónustan, sem aðstoðar Úkraínu, segir að hermaðurinn hafi hrópað: „Kim Jong-un hershöfðingi“.
Úkraínskir hermenn hafa fundið skilaboð og dagbækur á föllnum norðurkóreskum hermönnum. Í þessum skilaboðum og dagbókum kemur fram að hermennirnir telja þátttökuna í stríðinu gegn Úkraínu gott tækifæri til að öðlast bardagareynslu svo þeir geti stutt leiðtoga sinn, einræðisherrann Kim Jong-un, í átökum í framtíðinni.
Norðurkóresku hermennirnir sjá um sín eigin svæði á vígvellinum. Ólíkt Rússum, þá sækja þeir hratt fram, nær algjörlega án stuðnings frá brynvörðum ökutækjum. Þeir stoppa ekki þrátt fyrir mikið mannfall og sækja fram af mikilli hörku yfir jarðsprengjuþakta akra á meðan Úkraínumenn skjóta á þá af miklum móð. Þeir nota einnig hver annan sem tálbeitu fyrir úkraínska dróna. Einn hermaður dregur að sér athygli drónastjórans en aðrir liggja í leyni og skjóta drónann niður.
Samstarf norðurkóreskra og rússneskra hermanna hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Að minnsta kosti tvisvar hefur komið til beinna átaka á milli þeirra vegna ruglings. Rússar hafa einnig átt í vanda við að finna nægilega litla einkennisbúninga fyrir Norður-Kóreumennina.