Lögreglan á Spáni hefur handtekið sex manna sveit manna sem seldu hvolpa sem ekki voru til. Fjársvikin eru umtalsverð og fjórtán bankareikningar hafa verið frystir.
Breska blaðið The Guardian fjallar um þetta.
Lögreglan rannsakar nú fjársvikin sem talin eru nema að minnsta kosti 150 þúsund evrum. En það gera rúmlega 22 milljónir króna. Sex hafa verið handteknir og fjórtán bankareikningar frystir í tengslum við málið.
Glæpahópurinn er grunaður um að auglýsa hvolpa til sölu sem aldrei voru til staðar. Einnig að gefa út og rukka fyrir falsaða dýralæknareikninga.
Hvolpasveitin er talin hafa haft höfuðstöðvar í Biscay héraði í Baskalandi. En starfsemin var mun víðar, um gervallan Spán.
Í tilkynningu lögreglunnar um málið segir að hópurinn hafi birt falsaðar auglýsingar á markaðssíðum fyrir notaðan varning. Það er bæði á samfélagmiðlum og vefsíðum.
„Í flestum tilfellum buðu þeir hvolpa, en einnig ketti og jafn vel páfagauka, á viðráðanlegum verðum,“ segir í tilkynningunni. „Þegar fórnarlambin hringdu og spurðu um auglýsingarnar þá fengu þau sendar ljósmyndir af framtíðar gæludýrinu sínu til þess að hvetja þau til að borga eins fljótt og hægt var. Þegar það var búið og gert voru fórnarlömbin beðin um að borga meira, svo sem fyrir dýralæknareikninga, skatta, bóluefni og sendingarkostnað. En fórnarlömbin fengu aldrei dýrin í hendurnar.“
Lögreglan tók einnig eftir því að sami hópur hafði notað sömu markaðssíður til þess að auglýsa farsíma til sölu. Það var sama sagan með þá. Kaupendurnir fengu símana aldrei afhenta.
Eftir að hafa rannsakað 72 bankareikninga í tengslum við málið og fengið upplýsingar um 25 símanúmer hefur lögreglan fundið um 100 fórnarlömb hvolpasveitarinnar. Eins og áður segir er grunur um fjársvik að minnsta kosti 22 milljónum króna. Það gerir um 220 þúsund krónur á hvert fórnarlamb.
Þeir sex sem hafa verið handteknir eru grunaðir um fjársvik, að vera meðlimir í skipulögðum glæpasamtökum og flótta úr fangelsi.
„Eftir húsleit á heimili eins af höfuðpaurum hópsins hefur lögregla lagt hald á fimm farsíma og símkort sem notuð voru við fjársvikin,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. „Hinir grunuðu notuðu fjórtán bankareikninga til þess að færa fjármuni á milli til að erfiðara væri að rekja slóðina. Þeir hafa nú verið frystir.“